Greiðsluþjónusta
Last material update: 19 December 2024
These are our current Payment Terms, and they will remain in effect until 30/01/2025. After this date, they will be replaced by the updated Payment Terms, which are also available further down on this page.
I. Inngangur og gildissvið
Skilmálar þessir gilda í samningssambandi Teya Iceland hf. (“Teya” eða “Færsluhirðir”) og seljanda (”Seljandi”) vöru og/eða þjónustu sem gert hefur samning við Teya um færsluhirðingarþjónustu vegna færslna seljanda á tiltekin greiðslukort.
Teya er fjármálafyrirtæki skráð á Íslandi með kennitölu 440686-1259. Teya er með starfsleyfi frá og undir eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands. Finna má skrá yfir íslensk fjármálafyrirtæki á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins www.fme.is. Teya er til húsa að Katrínartúni 4, 105 Reykjavík.
Teya hefur, samkvæmt samningum við kortafélögin, leyfi til að færsluhirða og vinna færslur til heimildargjafar, fjárhagsfærslna og uppgjörs.
Skilmálar þessir (eins og þeir eru á hverjum tíma) ásamt umsókn um seljandasamning og viðhengjum við hann, vinnslusamningi, verðskrá, öryggistilmælum eða ráðstöfunum, og/eða leiðbeiningum eða hverjum öðrum skjölum sem tilgreind eru á hverjum tíma sem hluti seljandasamnings, mynda “Seljandasamning” aðila.
Allar tilvísanir seljandasamnings í skilmála eru tilvísanir í skilmála þessa sem og til umsóknar um seljandasamning og viðhengja við hann, vinnslusamning, verðskrá og önnur þau skjöl sem á hverjum tíma eru skilgreind sem hluti seljandasamnings. Teya áskilur sér rétt á hverjum tíma til breytinga á skilmálum þessum eins og nánar er tilgreint í kafla IX breytingar.
Samkvæmt og í samræmi við skilmála seljandasamningsins er seljanda heimilt að bjóða viðskiptavinum sínum að greiða fyrir vöru og/eða þjónustu með kortum gefnum út undir merkjum kortafélaganna. Skilmálar þessir kveða á um þau skilyrði sem uppfyllt þurfa að vera vegna móttöku korta og innsendingar færslna í kerfi Teya til heimildagjafar, fjárhagsfærslna og uppgjörs.
Seljandasamningur tekur gildi þegar: (a) seljandi hefur sent inn umsókn um seljandasamning og Teya hefur samkvæmt umsókn gefið út seljandanúmer; eða (b) þegar seljandasamningur hefur verið undirritaður af báðum aðilum; eða (c) þegar seljandi hefur sent færslur til Teya til færsluhirðingar. Með því að gangast í samningssamband við Teya og/eða senda inn færslur vegna móttekinna korta telst seljandi hafa samþykkt skilmála þessa sem og önnur skilyrði seljandasamnings.
Skilmálar þessir taka gildi þann 4. júní 2021 og fella úr gildi fyrri skilmála.
II. Túlkun og gildissvið
1. Túlkun
1.1.Allar tilvísinar í seljandasamningi til laga, reglugerða eða reglna, þar með talið reglna kortafélaganna, teljast til gildandi laga, reglugerða og reglna eins og þau eru á hverjum tíma með breytingum, viðbótum eða uppfærslum.
1.2.Tilvísun í skilmála þessa, umsókn um seljandasamning, seljandasamning eða annað eyðublað eða skjal sem vísað er til í seljandasamningi skal teljast tilvísun í viðkomandi samning eða skjal eins og það er á hverjum tíma þ.e. með öllum samþykktum breytingum og viðaukum.
1.3. Stangist einhver ákvæða skilmála þessara á við texta ákvæðis í seljandasamningi þá skal ákvæði skilmála víkja.
1.4. Stangist ákvæði seljandasamningsins á við reglur kortafélaganna þá skal ákvæði seljandasamnings víkja.
1.5.Fyrirsagnir í seljandasamningi og tengdum skjölum eru settar til þæginda fyrir lesanda og skulu ekki hafa áhrif á túlkun viðkomandi skjala.
1.6. Þau hugtök sem skilgreind eru í skilmálum þessum skulu hafa sömu merkingu í öðrum tengdum skjölum s.s. umsókn, samningi og/eða reglum kortafélaganna.
1.7. Að öllu jöfnu skulu eintölu orð einnig ná til fleirtölu og öfugt.
1.8. Aðili telst samkvæmt samningi þessum vera einstaklingur, fyrirtæki eða eining í annars konar félagaformi (óháð því hvort viðkomandi teljist sérstök lögpersóna eða ekki).
1.9.Ef annað er ekki sérstaklega tekið fram þá skal tilvísun til aðila einnig ná til eftirmanna, framsals- og afsalshafa þeirra.
1.10.Þegar kveðið er á um bann seljanda við að aðhafast eitthvað þá innifelur slíkt bann einnig í sér skyldu seljanda til að setja bann við slíkri athöfn í starfsemi sinni.
1.11. Orð sem fylgja orðasamböndunum “þar með talið” og “til dæmis” eða öðrum sambærilegum orðasamböndum eru sett fram til frekari skýringar og skulu aldrei hafa áhrif til þrengri túlkunar texta sem þau tengjast.
2. Skilgreiningar
2.1Í seljandasamningi þessum, þar sem samhengi texta leyfir, skulu eftirfarandi hugtök skilgreind með þeim hætti sem hér segir:
Aðili að kortafélögunum: Aðili sem starfar undir leyfi eins eða fleiri kortafélaga.
CVM (Cardholder Verification Method) mörk: Fjárhæðarmörk sem kortafélögin setja vegna tiltekinna tegunda færslna.
Endurgreiðsla: Færsla sem gerð er til leiðréttingar fyrri greiðslu þ.e. endurgreiðsla upphaflegrar úttektar, s.s. þegar korthafi skilar vöru eða afpantar fyrirfram greidda vöru eða þjónustu eða af einhverjum öðrum ástæðum á rétt á endurgreiðslu t.d. vegna þess að seljandi hefur ekki afhent vöru eða þjónustu að hluta eða öllu.
Endurkrafa: Aðgerð sem skilgreind er í reglum kortafélaganna þar sem kortaútgefandi getur endurkrafið Teya um fjárhæð úttektar í heild eða að hluta og Teya getur með sama hætti krafið seljanda um sömu fjárhæð.
Endurkröfugjald: Gjald sem Teya innheimtir af seljanda vegna hverrar endurkröfu sem gerð er á færslu.
Frádráttur vegna veltutryggingar: Tilgreint hlutfall (prósenta) af heildarfjárhæð allra færslna án tilskilins frádráttar svo sem vegna þóknunar Teya og endurkrafna.
Færsla: Aðgerð framkvæmd af korthafa og seljanda sem leiðir til tilfærslu fjár af eða á reikning korthafa. Færsla telst einungis vera ”gild” þegar öll neðangreind skilyrði eru uppfyllt:
-færsla er greiðsla fyrir vöru og/eða þjónustu sem veitt er af seljanda sjálfum frá starfsstöð seljanda;
-vara/þjónusta er samkvæmt þeim upplýsingum sem seljandi gaf um starfsemi sína á umsókn um seljandasamning;
-færslan sem og aðferð við að veita vöru/þjónustu eru í samræmi við lög, reglugerðir og reglur;
-færslan sem og aðferð við að veita vöru/þjónustu eru í samræmi við reglur kortafélaganna; og
-seljandi uppfyllir öll skilyrði seljandasamnings um færslur og vörur/þjónustu sem heimilt er að veita.
Færsla án korts: Færsla á kort þar sem korti er ekki framvísað. Til þess að taka af allan vafa þá falla hér undir allar úttektir sem myndu teljast fjarsala þ.m.t. símsala, netfærslur og greiðslur gerðar í gegnum fjarskipti s.s. með veglyklum.
Færsla með korti: Færsla þar sem korti er framvísað af korthafa á mannaðri afgreiðslustöð á þeim tíma sem færslan er gerð, færslur í hraðbanka, færslur sem framkvæmdar eru á posa með snjallsíma og færslur í sjálfsafgreiðslutækjum.
Færslufjárhæð: Heildarfjárhæð færslu eins og hún er tilgreind í uppgjöri seljanda í tilgreindri uppgjörsmynt.
Færslugjald: Fast gjald, sem leggst á hverja heimilaða/uppgerða færslu og fast gjald sem leggst á hverja hafnaða/ógilda færslu, eins og það er skilgreint í verðskrá Teya.
Færslukvittun: Rafræn eða pappírs staðfesting færslu, útbúin við sölu, sönnun kaupa eða endurgreiðslu.
Verðskrá: Gildandi verðskrá Teya, vegna þjónustu á því svæði sem seljandi starfar. Í verðskrá eru tilgreindar fjárhæðir og/eða gjöld sem greiðast skulu af seljanda og ekki eru þegar tilgreind í seljandasamningi aðila. Verðskrá Teya er aðgengileg seljanda á heimasíðu Teya. Sé ekki í gildi verðskrá fyrir það svæði sem seljandi starfar á skulu gjöld vera sérstaklega umsamin í samningi aðila.
Gjaldmiðill viðskiptavinar: Er sá gjaldmiðill sem kemur fram á kortayfirliti hjá gjaldgengum viðskiptavinum myntvals frá kortaútgefandanum.
Gjöld: Öll gjöld sem seljanda ber að greiða Teya fyrir þjónustu samkvæmt seljandasamningi, s.s. þjónustuþóknun, endurkröfugjald, færslugjald, millikortagjald, gjöld kortafélaganna og uppgjörsgjald.
Gjöld kortafélaganna: Gjöld á kortafærslur, ákveðin af kortafélögunum.
Innlendur gjaldmiðill: Er sá gjaldmiðill sem venjulega er notaður til að gefa upp verð á vörum eða þjónustu sem viðskiptavinum er boðið í hverri færslu.
Kort: Gilt greiðslukort útgefið undir leyfum kortafélaganna eða útgáfa þess hefur með öðrum hætti hlotið samþykki kortafélaganna.
Kortafélögin: Visa Inc., MasterCard Worldwide, Unionpay International og önnur þau alþjóðleg eða svæðisbundin kortafélög sem Teya hefur á hverjum tíma heimild frá til að bjóða færsluhirðingarþjónustu. Sérstaklega er skilgreint í umsókn og/eða seljandasamningi kortum hvaða kortafélaga seljanda er heimilt að móttaka samkvæmt samningi.
Kortamerki: Einkaréttarlega varin samsetning nafns, merkis og litar sem notað er sem sjónrænt kennimark viðkomandi kortafélags.
Kortaútgefandi: Aðili sem starfar samkvæmt leyfum kortafélaganna og gefur út kort til korthafa í samræmi við reglur þeirra.
Korthafi: Einstaklingur sá er kort er gefið út til og hefur heimild til að nota útgefið kort.
Kortnúmer: Kortnúmer eða kortareikningsnúmer (e. Primarty Account Number eða PAN) er einkvæm númeraröð sem notuð er til að auðkenna kortareikning korthafa.
Kvittun vegna endurgreiðslu: Staðfesting seljanda, rafræn eða á pappír, á endurgreiðslu.
Markaðsnafn: Það nafn sem seljandi notar til kynningar og í viðskiptum á markaði (þegar ekki er notað skráð lögheiti).
MCC (Merchant Category Code): Fjögurra stafa talnaröð (kóði) sem notuð er til að auðkenna tegund viðskipta sem seljandi stundar. MCC kóðar eru settir af alþjóðlega staðlaráðinu (e. International Organization for Standardization).
Merki Teya: Nafn Teya, merki, vörumerki (skráð eða óskráð) sem og önnur orð, merki eða litir sem notuð eru til að einkenna Teya.
Millikortagjald: Gjald, greitt af með beinum eða óbeinum hætti (þ.e. í gegnum þriðja aðila) til kortaútgefanda fyrir hverja færslu og endurheimtir Teya gjaldið af seljanda.
Myntval: Merkir aðgerð sem gerir viðskiptavini kleift að stofna til viðskipta með gjaldmiðli korts síns, frekar en gjaldmiðli þess lögsagnarumdæmis þar sem hann er staðsettur.
Myntval (DCC – Dynamic Currency conversion): Færsla með eða án korts þar sem korthafi getur valið hvort hann greiði fyrir vöru/þjónustu í eigin gjaldmiðli (gjaldmiðli þess lands sem kort er gefið út í) eða staðbundins gjaldmiðils seljanda.
Myntvalsgengi: Merkir gengi erlendra gjaldmiðla sem við fáum frá tilgreindum þjónustuveitanda okkar vegna DCC-viðskipta.
Myntvalsgjald: Merkir viðbótargjald sem bætist við þegar verð á færslu er umbreytt úr innlendum gjaldmiðli í gjaldmiðil viðskiptavinar í viðskiptum þar sem myntval er notað. Myntvalsgjaldið er til viðbótar myntvalsgengi og ákvarðar af okkur.
Neikvæð staða seljanda: Þegar samanlögð fjárhæð endurgreiðslna, endurkrafna, þóknana eða annarra krafna Teya á hendur seljanda er hærri en sem nemur uppsafnaðri veltu seljanda á sama tíma þannig að á samningi myndist skuld gagnvart Teya.
Númer seljandasamnings: Einkvæmt númer sem notað er til að auðkenna seljanda, einstaka afgreiðslutæki hans eða útibú. Nota má sama seljandanúmerið á fleiri en einni starfsstöð hafi slíkt verið sérstaklega samþykkt í seljandasamningi.
Ólögmæt færsla: Færsla eða tilraun til óréttmætrar færslu. Einkum er vísað til:
-færsla fyrir vöru og/eða þjónustu sem veitt er af öðrum en seljanda sjálfum eða þegar færsla er gerð í þeim tilgangi að greiða öðrum en seljanda sjálfum;
-færsla fyrir vöru/þjónustu sem veitt er frá öðrum stað en starfsstöð seljanda;
-færsla fyrir vöru/eða þjónustu annarrar tegundar eða eðlis en tilgreint var í umsókn seljanda;
-færsla sem er ekki réttmæt eða sem seljandi veit eða mátti vita að sé sviksamleg eða hafi ekki verið heimiluð af korthafa;
-færsla vegna vöru/þjónustu sem brýtur í bága við lög eða reglur;
-færsla vegna vöru/þjónustu sem brýtur í bága við reglur kortafélaganna;
-færsla vegna vöru/þjónustu sem með einhverjum hætti samræmist ekki skilmálum seljandasamnings; eða
-færsla sem gerð er í þeim tilgangi að komast fram hjá ofangreindum ákvæðum.
PCI/DSS staðall: Staðall (e. The payment Card Industry (PCI) Data Security Standard (DSS)) er alþjóðlegur upplýsingaöryggisstaðall settur af Payment Card Industry Security Standards ráðinu (PCI SSC) og er birtur á vefsíðunni: http://www.pcisecuritystandards.org/.
QPS: Mastercard Quick Payment Service, þjónusta um flýtigreiðslur eins og hún er skilgreind af Mastercard.
Reglur kortafélaganna: Reglur og staðlar kortafélaganna, sem ná til þátta er tengjast greiðslukortum og kortamerkjum birtar aðilum að kortafélögunum. Reglur kortafélaganna eru aðgengilegar á vefsvæðum kortafélaganna. Það er hlutverk hvers og eins kortafélags að túlka og framfylgja eigin reglum.
Snertilaus færsla: Færsla gerð með því að korthafi ber kort eða annað tæki sem búið er rafeindabúnaði (near field communication NTC) að afgreiðslutæki.
Starfsemi umfram viðmiðunarmörk: Þegar hlutfall endurkrafna er yfir 1% af fjárhæð heildarveltu seljanda í mánuði og/eða þegar hlutfall sviksamlegra færslna er yfir 1% af fjárhæð heildarveltu í mánuði.
Starfsstöð seljanda: Staðsetning starfsstöðvar seljanda eins og hún er tilgreind í umsókn um seljandasamning, seljandasamning og/eða í kerfum Teya.
Umboðsaðili (e.Independant Sales Organization ISO): Þjónustuaðili, skráður hjá kortafélögunum, sem veitir tiltekna þjónustu s.s. sölu færsluhirðingarþjónustu, þjónustu við korthafa/seljendur, fræðslu og þjálfun seljenda og dreifingu afgreiðslutækja.
Umsókn um seljandasamning: Rafræn umsókn á vef Teya þar sem seljandi sækir um þjónustu Teya og veitir tilskildar upplýsingar.
Uppgjörsdagur: Dagurinn þegar uppgjörsfjárhæð er gerð upp við seljanda í samræmi við ákvæði seljandasamnings. Uppgjörstíðni þ.e. tími frá því færsla er send inn þar til hún er greidd skal vera skilgreind í umsókn seljanda um seljandasamning eða í öðrum skriflegum samningi aðila þar um.
Uppgjörsfjárhæð: Fjárhæð í uppgjörsmynt. Andvirði allra gildra færslna á uppgjörstímabili að frádregnum umsömdum gjöldum, kostnaði eða öðrum kröfum sem Teya er heimilt að draga frá andvirði innsendra færslna hvort sem er samkvæmt ákvæðum seljandasamnings eða lögum.
Uppgjörsmynt: Gjaldmiðill sem færslur til seljanda eru gerðar upp í. Uppgjörsmynt skal vera tilgreind í umsókn um seljandasamning eða í seljandasamningi aðila.
Veltutrygging: Veltutryggingarsjóður sem stofnast með þeim hætti að fé er haldið eftir af uppgjörum seljanda í samræmi við seljandasamning.
Vinnslusamningur: Samningur Teya og seljanda þar sem skilgreind eru skilyrði vinnslu persónuupplýsinga korthafa og/eða persónuupplýsinga tengdum færslum.
Virkir dagar: Virkir dagar eru þeir dagar þegar bankar eða aðrar fjármálastofnanir í Reykjavík eru almennt opnar fyrir viðskiptum í tilgreindri uppgjörsmynt og bankar eru opnir í heimalandi/-borg seljandafyrir viðskipti í uppgjörsmynt.
Þjónustuaðili (e.Third Party Processor (TPP)): Þjónustuveitandi sem samið hefur við seljanda um vinnslu/vísun færslna eða aðra tækniþjónustu. Aðili sem þjónar seljanda vegna afgreiðslutækja, vísun heimildabeiðna, söfnun upplýsinga á rafrænu formi, skráavinnslu og/eða aðra vinnslu korthafa- eða færsluupplýsinga telst vera þjónustuaðili.
Þjónustuvefur: Vefaðgangur fyrir seljendur í færsluhirðingarþjónustu hjá Teya, þar sem seljandi getur skoðað færslur og uppgjör, auk þess sem hann getur móttekið tilkynningar og átt samskipti við Teya með öruggum hætti.
Þjónustuveitandi (e. Service Provider): Stofnun eða lögaðili sem veitir aðilum að kortafélögunum einum eða fleiri, skilgreinda þjónustu. Þjónustuveitandi verður að vera skráður hjá kortafélögunum og er einungis heimilt að veita þá þjónustu sem tilgreind hefur verið við skráningu.
Þjónustuþóknun: Gjöld seljanda til Teya fyrir þá þjónustu sem veitt er samkvæmt seljandasamningi þ.m.t. seljandaþóknun.
Örgjörvafærsla: Færsla þar sem korthafi stingur örgjörvakorti í afgreiðslutæki sem búið er örgjörvalesara.
Öryggisatvik (e. Account Data Compromise Event): Atvik sem opnar, beint eða óbeint, fyrir óheimilan aðgang að kortakerfum og/eða kortagögnum.
Öryggisnúmer (e. Card Security Code): Öryggisnúmer sem finna má á bakhlið korts (CVC2/CVV2/CVD/CID/CAV2) og er notað til þess að framkvæma greiðslu þar sem kort er ekki á staðnum.
3D Secure: Öryggisbúnaður kortafélaganna s.s. “MasterCard SecureCode” og “Verified by Visa” notaður til þess að koma í veg fyrir sviksamlegar kortafærslur á netinu.
III. Ábyrgð og skyldur seljanda
3. Móttaka korta
3.1.Að því gefnu að farið sé að skilyrðum seljandasamnings, er seljanda heimilt að taka við kortum þeirra tegunda sem tilgreindar voru í umsókn hans um seljandasamning. Teya mun hirða færslur seljanda, annast heimildagjöf, fjárhagsfærslur og uppgjör gildra færslna. Teya ber ekki skylda til að annast færsluhirðingarþjónustu vegna færslna sem ekki eru réttmætar. Ef Teya hefur sett færsluhirðingu seljanda sérstök skilyrði þá skulu slík skilyrði teljast hluti seljandasamnings.
3.2.Það er á ábyrgð seljanda að taka í notkun og viðhalda á eigin kostnað sölu- og afgreiðslukerfi eða afgreiðslutæki (Posa) sem gera honum kleift að móttaka greiðslur með kortum í samræmi við skilmála seljandasamnings.
3.3.Seljanda er óheimilt að heimila eða senda inn færslur þar sem úttekt er gerð án korts nema slíkt hafi sérstaklega verið heimilað í seljandasamningi.
3.4.Starfsemi seljanda má ekki brjóta í bága við lög, reglugerðir eða reglur kortafélaganna. Seljandi má ekki gefa það í skyn að hann sé aðili að kortafélögunum.
3.5.Seljanda er, undantekningarlaust, óheimilt að taka á móti korti sem greiðslu fyrir eitthvað af eftirtöldu:
(a)greiðslu fyrir vöru og/eða þjónustu sem veitt er af öðrum en seljanda sjálfum, eða þar sem færsla er gerð í þeim tilgangi að koma greiðslu til aðila annars en seljanda sjálfs;
(b)greiðslu fyrir vöru og/eða þjónustu sem veitt er frá öðrum stað en starfsstöð seljanda;
(c)greiðslu fyrir vöru og/eða þjónustu aðra en þá sem tilgreind var í umsókn seljanda um seljandasamning;
(d)færslu sem ekki er samþykkt af korthafa;
(e)sviksamlegum eða óréttmætum færslum;
(f)færslu sem áður hefur verið mótmælt, eldri kortafærslu, kröfu um greiðslu ógilds tékka og eða til að innheimta kröfu sem seljandi hafði áður talið ómögulegt að innheimta;
(g)greiðslu vegna vöru og/eða þjónustu sem brýtur í bága við lög eða reglur í heimalandi seljanda og/eða korthafa;
(h)greiðslu vegna vöru og/eða þjónustu sem brýtur í bága við reglur kortafélaganna;
(i)greiðslu fyrir vöru og/eða þjónustu sem er til þess fallin að skaða viðskiptavild kortafélaganna, Teya, greiðslukerfi kortafélaganna og/eða draga úr virði merkja kortafélaganna og/eða Teya; eða
(j)greiðslu fyrir vöru og/eða þjónustu sem á einhvern hátt brýtur í bága við ákvæði seljandasamnings eða eru framkvæmdar með það að sjónarmiði að fara í kringum ákvæði seljandasamnings.
3.6.Seljandi má ekki gera það að skilyrði fyrir móttöku korts sem greiðslu að korthafi afsali sér rétti sínum til að mótmæla færslu.
3.7.Seljandi má búa afgreiðslutæki sín þannig að við móttöku korta sem bera fleiri en eitt merki (e. co-branded) velji tækið tiltekin merki framar öðrum. Seljanda er þó ávallt óheimilt að meina korthafa að breyta vali afgreiðslutækis á því undir hvaða merki færsla skuli gerð.
3.8.Seljanda er óheimilt að gera kröfu um lágmarksfjárhæð færslu.
3.9.Seljanda er skylt að birta endanlegt verð vöru og/eða þjónustu (nema í þeim tilvikum sem hann veitir staðgreiðsluafslátt) og honum er óheimilt að bæta kostnaði eða gjöldum við þegar birt verð þegar korthafi ákveður að greiða með korti, nema slíkt sé heimilt samkvæmt lögum Evrópska efnahagssvæðisins eða lögum í heimalandi seljanda.
3.10.Seljandi má hvorki beint né óbeint krefjast þess að korthafi inni af hendi viðbótargreiðslu þegar greitt er með korti, nema slíkt sé heimilt samkvæmt lögum Evrópska efnahagssvæðisins eða lögum í heimalandi seljanda.
3.11.Seljandi skal tryggja að markaðsnafn hans sé tilgreint í tengslum við þjónustu hans og að nafnið sé sýnilegt á öllum stigum viðskiptanna við korthafa. Seljandi skal tryggja að korthafi geti treyst ábyrgð seljanda í viðskiptunum, þar með talið á afhendingu vöru og þjónustu sem greitt var fyrir, almennri þjónustu tengdri viðskiptunum og úrlausn ágreiningsmála.
3.12.Seljandi má ekki endurgreiða kortafærslu með reiðufé nema í gegnum sérstaka þjónustuleið kortafélaganna sem seljandi þarf þá að vera skráður í sem og að uppfylla þátttökuskilyrði. Seljanda er þó heimilt að greiða reiðufé sé starfsemi hans fólgin í innlausn ferðatékka, móttöku sérstakra ferðakorta sem útgefin eru af kortafélögunum eða vegna sérstakrar þjónustu um miðlun gjaldmiðla að því gefnu að Teya hafi gefið samþykki sitt fyrir því að hirða færslur hans í tengslum við slík viðskipti. Þegar slíkt á við takmarkast fjárhæð færslu ætíð við fjárhæð ferðatékka, ferðakorts eða fjárhæðar í erlendri mynt að viðbættri þóknun seljanda. Undir engum kringumstæðum er seljanda heimilt að greiða korthafa í ferðatékkum þegar ætlun var að greitt yrði fyrir vöru og/eða þjónustu með reiðufé.
3.13.Það er á ábyrgð seljanda að starfsmenn hans fari í hvívetna að ákvæðum seljandasamnings.
4. Skylda til að móttaka öll kort
4.1.Seljandi má ekki, nema þegar lög eða reglur kortafélaganna kveða á um slíkt, neita að taka við korti á grundvelli þess hver korthafi eða útgefandi korts er.
4.2.Seljandi má óska eftir, en ekki gera að skilyrði fyrir móttöku korts, að korthafi framvísi skilríkjum eða auðkenni sig á annan hátt, nema slíkt sé nauðsynlegt til að framkvæma megi viðskipti s.s. vegna sendingar eða þegar reglur kortafélaganna heimila eða kveða sérstaklega á um að afla skuli slíkra viðbótarupplýsinga.
4.3.Seljanda er skylt að gæta jafnræðis við móttöku korta sem gefin eru út innan Evrópska efnahagssvæðisins og lúta sömu milligjöldum. Seljandi má ekki stunda viðskiptahætti sem mismuna korthöfum eða hvetja viðskiptavini til að framvísa öðrum greiðslumiðlum en korti nema slíkt sé sérstaklega heimilað í lögum Evrópska efnahagssvæðisins eða lögum heimalands seljanda. Seljanda er þó aldrei skylt að taka á móti debetkortum kjósi hann að móttaka kreditkort og öfugt. Seljanda er ekki skylt að móttaka fyrirtækjakort sem gefin eru út á Evrópska efnahagssvæðinu.
4.4.Seljandi skal móttaka öll gild kort sem hann hefur heimild til að móttaka og eru útgefin utan Evrópska efnahagssvæðisins undir merkjum kortafélaganna.
5. Endurgreiðslur
5.1.Seljandi má einungis framkvæma endurgreiðslu á kortareikning korthafa þegar endurgreiða á kortafærslu sem gerð var á þann sama kortareikning í tengslum við sölu á vöru eða þjónustu.
5.2.Einungis má endurgreiða kortafærslu inn á reikning þess korts sem framvísað var í þeim viðskiptum sem verið er að endurgreiða. Endurgreiðsla skal vera í sömu mynt og upphaflega færslan og má vera að fjárhæð allt að eða jöfn upprunalegri færslu en má ekki vera hærri fjárhæðar, nema seljanda sé skylt samkvæmt lögum að bjóða uppá hærri greiðslu.
5.3.Seljandi skal greiða Teya fjárhæð endurgreiðslu að fullu, ásamt þeim gjöldum og þóknunum sem á hana leggjast, þegar hennar er krafist. Seljandi á ekki rétt á endurgreiðslu þeirra gjalda og þóknana sem hann greiddi vegna þeirrar færslu sem var endurgreidd korthafa.
5.4.Seljanda er óheimilt að greiða inn á reikning korthafa í öðrum tilvikum en þegar endurgreiða á fyrri færslu, nema slíks sé krafist af Teya, samkvæmt reglum kortafélaganna eða slíkt sé skylt lögum samkvæmt.
5.5.Teya er heimilt á hverjum tíma að loka fyrir endurgreiðslur seljanda þannig að honum verði ókleift að senda inn færslur til endurgreiðslu í gegnum Teya.
6. Trúnaðarskyldur og öryggi kortaupplýsinga
6.1.Seljandi skal gæta fyllsta trúnaðar gagnvart korthafa vegna viðskipta þeirra á milli. Seljandi ber auk þess ábyrgð á að tryggja öryggi upplýsinga korthafa og kortaupplýsinga sem miðlað er í tengslum við móttöku korta.
6.2.Seljandi skal tryggja öryggi kortaupplýsinga og við alla meðhöndlun og varðveislu þeirra skal hann gæta þess að vinnsla gagna uppfylli skilyrði PCI DSS staðals og annarra öryggisreglna kortafélaganna, óháð því hvort seljandi annast sjálfur þessa þætti eða úthýsir til þriðja aðila. Teya getur á hverjum tíma kallað eftir staðfestingu þess að framkvæmd hafi verið, af til þess hæfum aðila (QSA eða ISA), úttekt á hlítingu seljanda við staðalinn og/eða að seljandi hafi framkvæmt árlegt sjálfmat. Fyrir staðlaðan búnað sem seljandi kaupir eða leigir skal seljandi tryggja að búnaðurinn hafi gilda PADSS vottun.
6.3.Seljanda er óheimilt að óska eftir eða nota upplýsingar um kortnúmer í neinum öðrum tilgangi en til að gera gildar færslur. Seljandi má aldrei fara fram á það við korthafa að hann útfylli eyðublað eða form, þar sem óskað er upplýsinga um kortnúmer, gildistíma korts, undirritun korthafa eða nokkrar aðrar upplýsingar um kortareikning eða korthafa, þar sem upplýsingar eru sýnilegar þegar slíkt eyðublað eða form væri póstlagt s.s. póstkort. Seljandi má ekki óska eftir því að korthafi veiti skriflega upplýsingar um öryggisnúmer korts.
6.4.Seljandi má ekki undir nokkrum kringumstæðum geyma viðkvæmar kortaupplýsingar þ.m.t. upplýsingar sem finna má á rafmiðlum korts s.s. segulrönd eða örgjörva, öryggisnúmer og PIN númer.
6.5.Seljandi skal án tafar tilkynna Teya um öryggisatvik eða grun um öryggisrof eða atvik. Teya má deila slíkum upplýsingum með kortafélögunum sem og viðeigandi yfirvöldum. Komi upp öryggisatvik þá er Teya og/eða kortafélögunum heimilt að krefjast þess að PCI PFI rannsóknaraðili framkvæmi óháða rannsókn í þeim tilgangi að finna og meta orsakir, umfang, stærð, tímalengd og áhrif öryggisatviks eða mögulegs öryggisatviks. Seljandi skal veita rannsóknaraðilum án tafar þá aðstoð og aðgengi sem nauðsynlegt er vegna rannsóknar. Séu niðurstöður rannsóknar birtar seljanda en ekki Teya og/eða kortafélögunum skal seljandi miðla niðurstöðum til þeirra. Hafi rannsókn sýnt fram á að seljandi uppfyllti ekki kröfur PCI DSS staðalsins á þeim tíma sem öryggisatvik átti sér stað og að orsakir öryggisatviks megi rekja til þessa, skal seljandi bera allan kostnað af rannsókn sem og afleiddum kostnaði s.s. sektum og/eða afleiddu tjóni.
6.6.Aðilar sem annast vinnsluþjónustu fyrir seljanda (þjónustuaðili) s.s. rekstur afgreiðslutækja, færsluvísunar vegna heimildasvörunar, söfnun rafrænna upplýsinga, skráavinnslur og/eða koma að meðhöndlun korthafa- eða færsluupplýsinga með öðrum hætti, skulu vera skráðir á viðeigandi máta hjá kortafélögunum. Seljandi skal tryggja að vinnsluaðilar hafi staðist úttekt um hlítingu við PCI DSS staðal. Seljandi skal tryggja að samningar hans við vinnsluaðila innihaldi ákvæði sambærilegt við ákvæði 6.5. í skilmálum þessum. Seljanda er óheimilt að nota vinnsluaðila án fyrirfram gefins skriflegs samþykkis Teya. Seljandi skal tryggja að upplýsingum um nöfn korthafa eða kortnúmer verði ekki miðlað til vinnsluaðila sem ekki uppfylla skilyrði eða hafa ekki verið samþykktir af Teya.
6.7.Seljanda er óheimilt að upplýsa þriðja aðila um efni eða innihald seljandasamnings.
6.8.Seljandi skal ætíð fylgja fyrirmælum og leiðbeiningum Teya um öryggisráðstafanir, á hvaða formi sem þeim er miðlað, hvort sem fyrirmæli eða ráðstafanir lúta að atriðum tengdum framkvæmd seljandasamnings eða nýtingar annarrar þjónustu Teya s.s. notkun þjónustuvefs. Seljanda skal jafnframt skylt að fara að kröfum Teya í tengslum við nauðsynlegar breytingar á kerfum seljanda sem tengjast Teya, svo sem vefþjónustur. Seljandi ber ábyrgð á öryggisrofum sem verða innan hans umfangs.
6.9.Prókúruhafa seljanda er veittur aðgangur að þjónustuvef Teya og ber ábyrgð á aðgangi seljanda að sem og stofnun nýrra notenda eftir því sem við á. Geymsla upplýsinga
7. Geymsla upplýsinga
7.1.Seljandi skal geyma afrit færslukvittana, rafrænar upplýsingar sem og kvittanir vegna endurgreiðslna vegna allra færslna sem sendar hafa verið til Teya í fimm (5) ár frá innsendingu.
8. Skylda til að veita Teya upplýsingar og aðgengi
8.1.Seljandi skal án tafar upplýsa Teya skriflega um:
(a)öryggisbrot eða öryggisatvik sbr. ákvæði 6.5;
(b)tap, stuld, misnotkun eða óheimila notkun afgreiðslubúnaðar eða annara kerfa sem notuð eru við meðhöndlum kortaupplýsinga eða grun um slíka notkun;
(c)meiriháttar breytingar á starfsemi seljanda;
(d)breytingar á prókúruhafa seljanda;
(e)breytingar í hóp þeirra eigenda sem skilgreindir eru sem raunverulegir eigendur og/eða á fyrirkomulagi eignarhalds seljanda; eða
(f)aðstæður sem eru til þess fallnar að hindra seljanda í að uppfylla skyldur sínar samkvæmt seljandasamningi.
8.2.Fari Teya þess á leit, skal seljandi staðfesta með skriflegum hætti hvort eitthvert af þeim atvikum sem talin eru upp í 8.1 hafi átt sér stað eða ekki.
8.3.Teya getur á hverjum tíma farið fram á að fá afhent afrit af færslukvittunum seljanda og/eða, ef við á, öðrum gögnum eða upplýsingum s.s. greiðslubeiðnum, rafrænum færsluskrám og/eða kvittunum vegna endurgreiðslna. Seljandi skal veita Teya slíkar upplýsingar innan tuttugu (20) virkra daga frá því beiðni þar um berst honum.
8.4.Teya er heimilt á hverjum tíma að framkvæma áreiðanleikakönnun á seljanda, raunverulegum eigendum, stjórnarmönnum og prókúruhöfum eftir því sem við á samkvæmt lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka sem og reglur alþjóðlegu kortafélaganna. Í tengslum við áreiðanleikakönnun og reglubundið eftirlit er Teya heimilt hvenær sem er á samningstímanum að afla upplýsinga í gegnum kerfi eða upplýsingasöfn þriðja aðila sem Teya hefur aðgang að.
8.5.Seljandi skal án tafar afhenda Teya þau gögn/upplýsingar sem félagið óskar eftir og eðlilegt er að sé miðlað vegna viðskiptanna, s.s. gögn nauðsynleg vegna áreiðanleikakönnunar og/eða gögn/upplýsingar um fjárhagsstöðu seljanda s.s. ársreikninga.
8.6.Seljandi skal verða við kröfu Teya, kortafélaga og/eða viðeigandi yfirvalda um að veita vottunar- og/eða rannsóknaraðilum aðgang að búnaði og kerfum þeim sem notuð eru við móttöku korta.
8.7.Seljandi skal veita Teya, kortafélögum og/eða viðeigandi yfirvöldum sem hafa lögsögu yfir seljanda, aðgang að starfsstöð/(vum) seljanda svo gera megi úttekt á hlítni hans við ákvæði seljandasamnings. Slíkur aðgangur skal veittur án nokkurs fyrirvara nema ef lög kveða á um að slík beiðni sé sett fram með tilteknum fresti.
9. Heimild seljanda til notkunar merkja kortafélaganna og merkja Teya
9.1.Seljandi samþykkir, nema samið hafi verið um annað við Teya og samanber ákvæði 9.2, að stilla út með áberandi hætti merkjum kortafélaganna og/eða öðru markaðsefni sem Teya afhendir honum. Seljanda er heimilt að nota merki og annað markaðsefni sem fengið hefur samþykki Teya og er ætlað til kynningar á móttöku korta hjá seljanda. Seljandi skal stilla upp merkjum sem færsluhirt eru af Teya á jafn áberandi hátt og merkjum annarra korta og greiðslumiðla. Seljanda er óheimilt að nota markaðsefni sem vísar til Teya eða kortafélaganna án samþykkis Teya.
9.2.Seljanda er ekki skylt að stilla út merkjum eða öðru markaðsefni kortafélaganna ef hann er ekki að veita þjónustu til almennings eða ef slík útstilling stríðir gegn ákvæðum gildandi laga.
9.3.Teya ábyrgist að notkun seljanda á merkjum kortafélaganna og/eða Teya, í samræmi við ákvæði samnings þessa, sé seljanda heimil og að Teya sé eigandi merkja Teya og hafi heimild kortafélaganna til notkunar merkja þeirra. Teya ábyrgist skaðleysi seljanda af öllum kröfum sem upp kunna að koma í tengslum við notkun merkja eins og hún er heimiluð samkvæmt seljandasamningi.
9.4.Teya og/eða kortafélögin geta á hverjum tíma krafist þess af seljanda að hann hætti notkun vöru- eða einkennismerkja kortafélaganna, Teya eða annars markaðsefnis sem hefur að geyma tilvísun til Teya eða einhvers kortafélaganna. Seljandi skal hætta notkun merkja um leið og honum er tilkynnt um kröfu Teya og/eða kortafélaganna þar um.
9.5.Ekki er kveðið á um neitt það í seljandasamningi sem veitir seljanda tilkall til eignar eða vörumerkjaréttar á hönnun eða hugverkum í eign Teya eða kortafélaganna. Réttur seljanda til að nota hönnun eða hugverk í eigu Teya eða kortafélaganna takmarkast við það sem heimilað er í kafla 9 í skilmálum þessum.
IV. Færslur og innsendingar
10. Heimildagjöf
10.1.Seljandi skal leita heimildar fyrir öllum færslum yfir skilgreindum heimildamörkum. Heimildamörk miðast við hámarksfjárhæð einnar einstakrar færslu sem seljanda er heimilt að senda inn án þess að hafa áður leitað heimildar útgefanda fyrir úttektinni. Heimildarmörk færslu skulu vera tilgreind í umsókn um seljandasamning. Hafi heimildarmörk ekki verið skilgreind í umsókn um seljandasamning þá teljast mörkin vera núll og seljandi skal leita heimildar vegna allra færslna. Seljandi skal tryggja að réttur MCC kóði fylgi heimildarbeiðni.
10.2.Teya rekur heimildarkerfi sem seljandi getur tengst beint í gegnum gátt Teya eða með annarri tengingu sem uppfyllir skilyrði Teya. Seljandi getur tengst kerfi að undangenginni úttekt Teya á gátt. Seljandi ber ábyrgð á að búnaður sem notaður er til að tengjast kerfum Teya uppfylli reglur kortafélaganna og ákvæði seljandasamnings.
10.3.Þó heimildarbeiðni sé samþykkt felur það ekki í sér staðfestingu á réttmæti færslu. Korthafi getur átt rétt á að endurkrefja seljanda um fjárhæð færslu samkvæmt reglum kortafélaganna óháð staðfestingu korthafa á færslu. Auk þess getur Teya hafnað færslu sem ólögmætri. Seljandi gerir sér grein fyrir að korthafi getur síðar hafnað færslum sem ekki hafa verið staðfestar með innslætti pinns, undirskrift eða notkun 3D Secure.
10.4.Teya áskilur sér rétt til að takmarka eða stöðva, ef nauðsyn krefur, móttöku korta, færslur eða viðskipti í tilteknum gjaldmiðlum. Dæmi um aðstæður þar sem Teya myndi nýta þennan rétt sinn eru m.a.:
(a)ef gjaldeyrishöft eða önnur sambærileg lög eða reglur banna miðlun færslu eða færsluupplýsinga yfir landamæri;
(b)hafi Teya eða seljandi ástæðu til að ætla að korthafi, kort eða kortnúmer hafi eða séu líkleg til að tengjast sviksamlegu athæfi eða gáleysislegri hegðun til komast yfir vöru eða þjónustu; eða sem getur leitt til þess að ekki verði hægt að innheimta úttekt af korthafa;
(c)starfsemi umfram viðmiðunarmörk;
(d)þegar Teya er kunnugt um eða grunar að færsla sé ólögmæt; (e) þegar Teya er það skylt samkvæmt lögum eða reglum kortafélaganna; eða
(f)þegar Teya veit eða grunar að starfsemi seljanda sé ekki í samræmi við ákvæði seljandasamnings og/eða reglur kortafélaganna.
(g)Endurgreiðslur seljanda, sbr. ákvæði 5.5.
11. Færslukvittanir
11.1.Afgreiðslutæki seljanda skal útbúa færslukvittun vegna hverrar færslu. Þetta á einnig við um endurgreiðslur. Afrit færslukvittunar skal afhent korthafa nema hann afþakki. 11.2. Sérhver færslukvittun skal í það minnsta innihalda eftirfarandi upplýsingar:
(a)Seljandasamningsnúmer
(b)markaðsnafn seljanda og heimilisfang (gata, borg, land);
(c)tegund færslukvittunar (greiðsla á sölustað, reiðufjárúttekt, endurgreiðsla);
(d)kortnúmer maskað þ.e. einungis eru birtir fjórir (4) síðustu tölustafir númersins. Öðrum tölustöfum er skipt út fyrir önnur tákn sem nota skal til fyllingar s.s. “X”, “*” eða “#” ekki skal nota eyður eða tölustafi;
(e)fjárhæð færslu (eða endurgreiðslu) í úttektarmynt; (f) dagsetningu færslu (eða endurgreiðslu);
(g)heimildarnúmer,;
(h)þegar um er að ræða almenna færslu þar sem kort er til staðar, rafræn skráning upplýsinga um korthafa sem lesin eru af segulrönd eða örgjörva;
(i)vegna örgjörvafærslu, merki kortafélagsins og eftir ákvörðun Teya staðfestingargildi færslunnar (í heild sinni) og tengd gögn.
(j)Þegar lesin er segulrönd þarf að gera ráð fyrir undirskriftarlínu og/eða plássi fyrir undirskrift korthafa á því eintaki færslukvittunar sem ætlað er seljanda, nema þegar slík úttekt er staðfest með PIN eða engrar staðfestingar er krafist; og
(k)á endurgreiðslukvittunum (á eingöngu við um slíkar kvittanir) þarf að gera ráð fyrir undirskrift seljanda.
11.3.Seljandi heimilar Teya að afhenda færslukvittanir, upplýsingar eða önnur gögn eða upplýsingar um færslur til umboðasaðila sinna, kortafélaganna eða annarra þeirra sem nauðsynlegt og eðlilegt er að afhenda svo Teya geti uppfyllt skyldur sínar samkvæmt seljandasamningi eða sem aðili að kortafélögunum.
12. Innsending færslna
12.1.Seljandi skal senda til Teya, eða aðila sem Teya tilgreinir, færslur sem framkvæmdar hafa verið en ekki áður sendar inn í kerfi Teya.
12.2.Seljandi skal senda Teya færslur innan þriggja (3) daga frá dagsetningu færslu (degi sem færsla var gerð). Þar af leiðandi skal seljandi senda inn bunka til Teya að minnsta kosti á þriggja daga fresti. Seljanda er þó heimilt að senda bunka inn oftar og er ráðlagt að senda bunka daglega.
12.3.Seljandi má ekki senda færslur í kerfi Teya fyrr en að minnsta kosti eitt af eftirfarandi hefur átt sér stað:
(a)samningur um kaup er frágenginn;
(b)vara eða þjónusta hefur verið send eða afhent. Framangreint skilyrði á þó ekki við þegar um er að ræða fyrirframgreiðslu eða greiðslu að hluta;
(c)korthafi hefur samþykkt boðgreiðslur.
12.4.Seljanda er óheimilt að senda sömu færslu inn í kerfi Teya oftar en einu sinni nema þegar 12.8 á við.
12.5.Seljanda er óheimilt að senda ólögmætar færslur inn í kerfi Teya.
12.6.Hver færsla skal búa yfir þeim upplýsingum sem skylt er að komi fram á færslukvittun, auk MCC kóða seljanda og númeri seljandasamnings nema Teya hafi samþykkt með skriflegum hætti að ekki þurfi að senda inn slíkar upplýsingar.
12.7.Hver færsla þarf að vera á formi sem uppfyllir reglur kortafélaganna.
12.8.Uppfylli innsending færsluskráar ekki skilyrði kortafélaganna, eða ef færslu fylgja ekki tilskyldar færsluupplýsingar þannig að hægt sé að útbúa fullnægjandi yfirlit fyrir korthafa, skal Teya tilkynna seljanda um slíka vankanta um leið og félaginu er um þá kunnugt. Seljanda hefur þá sjö (7) daga frá dagsetningu upprunafærslu til að endursenda færslur inn í kerfi Teya. Séu færslur sendar síðar ber seljandi ábyrgð á þeim endurkröfum sem stafa vegna endursendingarinnar.
12.9.Seljandi skal ávallt fylgja leiðbeiningum Teya, í tengslum við móttöku korta.
13. Endurkröfur og starfsemi umfram viðmiðunarmörk
13.1.Meðhöndlun endurkrafna fer samkvæmt reglum kortafélaganna. Andmælaréttur seljanda er samkvæmt endurkröfureglum viðeigandi kortafélags.
13.2.Endurkröfur eru á ábyrgð seljanda sem skal endurgreiða Teya andvirði allra endurkrafna sem falla á hann sem og endurkröfugjalda ef við á, svo sem gjalds til gerðardóms. Berist endurkrafa í annarri mynt en mynt seljanda er endurkröfufærslan umreiknuð miðað við viðmiðunargengi alþjóðlegu kortasamtakanna á skráningardegi endurkröfunnar
13.3.Sekti kortafélögin Teya sökum þess að starfsemi seljanda hefur verið umfram viðmiðunarmörk eða endurgreiðslur seljanda fari yfir 5% af heildarveltu seljanda í mánuði þá skal Teya krefja seljanda um andvirði slíkra sekta.
V. Uppgjör, gjöld og greiðsla
14. Uppgjör
14.1.Teya gerir upp við seljanda allar lögmætar færslur sem uppfylla skilyrði seljandasamnings og reglur kortafélaganna.
14.2.Á uppgjörsdegi greiðir Teya seljanda andvirði allra óuppgerðra gildra færslna sem gerðar hafa verið á uppgjörstímabilinu. Þetta á þó ekki við ef til staðar er eitthvað það sem heimilar Teya að halda eftir uppgjöri skv. ákvæði 19. gr.
14.3.Teya greiðir uppgjör inn á þann uppgjörsreikning seljanda sem hann tilgreindi í umsókn um seljandasamning. Óski seljandi eftir því að lagt verði inn á annan reikning þarf hann að senda Teya undirritað umsóknareyðublað þar sem fram koma upplýsingar um hinn nýja bankareikning. Staðfesting umsóknar um slíka breytingu felur í sér óafturkallanlega heimild Teya til að greiða inn á hinn nýja reikning. Teya getur neitað að verða við beiðni seljanda um breytingu á bankareikningi ef slíkt er til þess fallið að auka áhættu Teya.
14.4.Teya er heimilt að móttaka greiðslur frá kortafélögunum vegna úttekta sem gerðar hafa verið hjá seljanda. Seljanda er ljóst að hann á aldrei kröfu á kortafélögin beint vegna færslna sem sendar hafa verið inn í kerfi Teya.
14.5.Seljandi hefur ekki rétt á að fá greidda uppgjörsfjárhæð, þ.e. andvirði gildra færslna, inn á uppgjörsreikning fyrr en á þeim degi sem þær koma til uppgjörs samkvæmt seljandasamningi við Teya. Seljandi á ekki rétt á vaxtagreiðslum af færslum vegna tímabilsins frá innsendingu til uppgjörs og með sama hætti á seljandi ekki rétt á vöxtum af sjóðum sem haldið er eftir í tengslum við viðskiptin.
14.6.Við ákvörðun um beiðni seljanda um uppgjörstíðni aðra en mánaðarlega er litið til niðurstöðu lánshæfis- og áhættumats Teya á seljanda. Teya er heimilt hvenær sem er á samningstíma, án fyrirvara, að breyta uppgjörstíðni seljanda, á grundvelli aukinnar áhættu eða breytts lánshæfis seljanda.
14.7.Teya útbýr uppgjörsyfirlit sem aðgengilegt er seljanda vegna hvers uppgjörs. Uppgjörsyfirlit tilgreinir fjárhæð sem kemur til greiðslu sem og fjárhæð þóknunar, gjalda og annars sem draga má frá uppgjöri svo sem leiðréttar færslur og fleira.
14.8.Samþykki og/eða uppgjör færslna og/eða tilgreining þeirra í uppgjörsskjölum eða öðrum tilkynningum Teya til seljanda skal ekki á nokkurn hátt teljast staðfesting þess að Teya telji færslur gildar. Teya áskilur sér rétt til að hafna færslu á síðari stigum gerist eitthvað sem bendir til eða berist félaginu upplýsingar um að færslur hafi verið ólögmætar.
14.9.Komi til þess að samanlögð fjárhæð endurgreiðslna, endurkrafna, þóknana eða annarra krafna Teya á seljanda er hærri en sem nemur uppsafnaðri veltu seljanda á sama tíma, þannig að á samningi myndist skuld gagnvart Teya skal seljandi greiða Teya slíka skuld á gjalddaga. Gjalddagi er 7 dögum frá dagsetningu skuldar (neikvæðrar stöðu). Ef gjalddagi lendir á almennum frídegi eða helgidegi færist hann á næsta virka dag.
14.10.Seljandi hefur ekki rétt á að fá greidda uppgjörsfjárhæð, þ.e. andvirði gildra færslna, inn á uppgjörsreikning fyrr en greiðsla vegna þeirra hefur borist til Teya frá kortafélögunum og/eða viðeigandi útgefendum. Seljandi á ekki rétt á vaxtagreiðslum af færslum vegna tímabilsins frá innsendingu til uppgjörs og með sama hætti á seljandi ekki rétt á vöxtum af sjóðum sem haldið er eftir í tengslum við viðskiptin.
15. Vextir og vaxtakjör
15.1.Frá dagsetningu neikvæðrar stöðu seljanda, og fram að greiðsludegi skuldbindur seljandi sig til að greiða vexti af slíkri skuld. Frá gjalddaga, sbr. ákvæði 14.9, fram að greiðsludegi reiknast dráttarvextir samkvæmt 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
15.2.Vextir af skuld fara samkvæmt verðskrá Teya hverju sinni. Teya skal heimilt að breyta vöxtum, sbr. nánar ákvæði 29.1.
15.3.Við útreikning er miðað við 30 vaxtadaga í mánuði og 360 vaxtadaga í ári. Vextir reiknast af neikvæðri stöðu við lok hvers dags og færast til skuldar á samningi seljanda. Vextir reiknast ekki á þeim degi sem neikvæð staða er leiðrétt. Allar innborganir á skuld seljanda ganga fyrst til greiðslu vaxta og kostnaðar, þ.m.t. innheimtugjalda og lögmannsþóknunar þar sem við á.
16. Ólögmætar færslur
16.1.Til þess að skera úr um allan vafa þá ber Teya engin skylda til að greiða seljanda andvirði ólögmætrar færslu og seljandi hefur engan rétt til að krefja Teya um greiðslu andvirðis slíkrar færslu.
16.2.Hafi Teya greitt seljanda andvirði færslu sem síðar kemur í ljós að hafi verið ólögmæt eða fyrir því er rökstuddur grunur er Teya heimilt að endurkrefja seljanda um andvirði færslunnar auk þess sem Teya er án nokkurra takmarkana heimilt að skuldajafna andvirði hennar frá heildarfjárhæð uppgjörs/(a) seljanda.
16.3.Þrátt fyrir það sem fram kemur hér að ofan þá skal seljandi greiða Teya öll gjöld, þóknanir og kostnað af ólögmætri færslu eins og þau eru tilgreind í seljandasamningi.
16.4.Til þess að skera úr um allan vafa þá eiga greinar 15.1-15.3 við óháð því hvort Teya er skylt eða mögulegt að endurgreiða kortafélögum, kortaútgefanda eða korthafa hina ólögmætu færslu.
17. Lágmarksfjárhæð uppgjörs
17.1.Teya áskilur sér rétt til að skilgreina lágmarksfjárhæð uppgjörs. Sé uppgjör að fjárhæð jafnt eða lægra en skilgreind lágmarksfjárhæð þá frestast greiðsla þess til næsta uppgjörs.
17.2.Ef andvirði uppgjörs gildra færslna sem komið er á gjalddaga á uppgjörsdegi er lægra en lágmarksfjárhæð uppgjörsins, verður uppgjöri þeirra færslna seinkað til næsta áætlaða uppgjörsdags þar sem uppgjörsfjárhæð gildra færslna er jafnt eða hærra en lágmarksfjárhæð uppgjörs.
18. Þjónustuþóknanir og önnur gjöld
18.1Með því að samþykkja þessa skilmála staðfestir Seljandi að hann hafi óskað eftir og samþykkt Þjónustuþóknanir í sameiginlegum pakka í stað aðgreindra Þjónustuþóknana þar sem Teya innheimtir mismunandi Þjónustuþóknanir, Millikortagjöld og Gjöld Kortafélaga með tilliti til mismunandi flokka og vörumerkja Korta. Ef kostnaður að baki Færslu er hærri en Þjónustuþóknun Seljanda í sameiginlegum pakka fellur mismunurinn á Teya. Í samræmi við framangreint staðfestir Seljandi ósk sína um að Teya útlisti ekki í Seljandasamningi sérstaklega upplýsingar um mismunandi Gjöld Kortafélaga og Millikortagjöld sem að öðrum kosti ættu við. Hefði Seljandi ekki lagt fram þessa beiðni væri Seljandasamningur þessi byggður á tilboði Teya sem fæli í sér aðgreindar Þjónustuþóknanir. Vilji Seljandi skoða aðgreindar Þjónustuþóknanir Teya er hægt að nálgast frekari upplýsingar hér. Sé tilboðs með aðgreindum Þjónustuþóknunum óskað skal hafa samband við Teya.
18.2.Seljandi skal greiða Teya gjöld. Millikortagjöld, gjöld kortafélaganna og þjónustuþóknun sem rukkuð er vegna hverrar færslu skulu gjaldfærð við innsendingu færslunnar. Færslugjöldin verða gjaldfærð þegar heimild vegna færslunnar er sótt. SWIFT Uppgjörsgjöld verða gjaldfærð á uppgjörsdegi. Endurkröfugjöld verða gjaldfærð á þeim tíma sem endurkröfumálið hefst. Aðrar þjónustuþóknanir skulu gjaldfærðar á þeim tíma sem Teya veitir þjónustuna eða þegar Teya á rétt á greiðslu í samræmi við seljandasamning.
18.3.Seljandi skal að kröfu Teya greiða aðrar fjárhæðir sem tilgreindar eru í seljandasamning aðila eða vegna brota á samningi aðila, þ.m.t. endurgreiðslur, endurkröfur, endurgreiðslur vegna kostnaðar við myntbreytingu, bætur vegna sekta eða annars tjóns.
18.4.Seljandi skal vera fyllilega ábyrgur fyrir öllum kostnaði í tengslum við efndir og framkvæmd á skyldum sínum samkvæmt seljandasamningi, þ.m.t kostnaði vegna þjónustu þjónustuaðila til seljanda. Hafi Teya greitt kostnað vegna þjónustu þjónustuaðila fyrir seljanda, ber seljanda að endurgreiða Teya þann kostnað.
18.5.Teya mun að jafnaði draga öll gjöld og aðrar fjárhæðir frá uppgjöri seljanda í samræmi við ákvæði 18. Teya áskilur sér þó rétt til þess að seljandi greiði beint til Teya öll gjöld og aðrar fjárhæðir sem seljandi skuldar Teya. Seljandinn hefur ekki rétt til að skuldajafna eða halda eftir gjöldum eða öðrum fjárhæðum á móti uppgjöri eða öðrum fjárhæðum. Teya áskilur sér rétt til að innheimta öll gjöld og aðrar fjárhæðir sem seljandi skuldar Teya með skuldfærslu af reikningi seljanda. Til að taka af allan vafa, skulu kröfur Teya gegn seljanda, gjalda og annarra fjárhæða ekki vera takmarkaðar við fjárhæðir sem eru endurkræfar frá uppgjöri, veltutrygginga eða öðru sbr. 18. gr., og seljandi skal vera ábyrgur fyrir greiðslu allra annarra fjárhæða í tengslum við seljandasamning aðila.
19. Frádráttur, leiðréttingar og áhættustýringar
19.1.Teya er heimilt að draga frá eða leggja á, ef um leiðréttingar er að ræða sem eru til hagsbóta fyrir seljanda, andvirði færslna á gildum færslum til uppgjörs að því marki sem þær hafa ekki verið áður greiddar af seljanda til Teya, eða, ef um er að ræða leiðréttingar sem eru til hagsbóta til seljanda frá Teya til seljanda;
(a)öll gjöld;
(b)vexti;
(c)fjárhæðir vegna endurkrafna og gjalda tengdum þeim;
(d)allar endurgreiðslur;
(e)öll önnur gjöld eða frádrættir sem Teya er heimilt að gera samkvæmt seljandasamningi aðila;
(f)allar aðrar fjárhæðir sem seljandi skuldar Teya samkvæmt seljandasamningi eða vegna brota á samningi aðila, þ.m.t vegna raunverulegra eða grunsamlegra ólögmætra færslna, kostnaður vegna myntbreytinga, endurgreiðsla vegna kostnaðar þjónustuaðila og/eða endugreiðslu vegna sekta og annars tjóns;
(g)skattar og opinber gjöld, þ.m.t virðisaukaskattur sem lagður er á þær fjárhæðir sem Teya greiðir til seljanda samkvæmt seljandasamningi, sem Teya síðan rukkar seljanda um og greiðir til viðeigandi yfirvalda; og
(h)leiðréttingar vegna rangra uppgjöra.
19.2.Allir frádrættir eða leiðréttingar sem gerðar eru samkvæmt þessu ákvæði skulu skráðar af Teya. Allar fjárhæðir sem dregnar eru frá, eða lagðar á andvirði færslunnar samkvæmt ákvæði 18. gr., skulu taldar greiddar á þeim degi sem frádátturinn eða leiðréttingin á sér stað.
19.3.Með fyrirvara vegna ákvæðis 18.1 og að því marki sem lög leyfa er Teya heimilt með skriflegri tilkynningu til seljanda að skuldajafna á móti skuld seljanda við Teya vegna eða í tengslum við seljandasamning aðila eða annarra samninga.
19.4.Teya áskilur sér rétt, bæði í upphafi samningssambands og sem hluta af áframhaldandi áhættumati og áhættustýringu að krefjast þess að seljandi útvegi tryggingu fyrir viðskiptunum sem Teya telur viðeigandi. Fari Teya fram á frekari tryggingar eftir að seljandasamningur hefur verið gerður, verður breytingin talin sem viðauki við seljandasamning aðila samkvæmt kafla IX. Breytingar. Ef seljandi segir ekki seljandasamningi aðila upp, samkvæmt ákvæði 30. gr., eftir að Teya hefur farið fram á frekari tryggingu, telst seljandi hafa samþykkt viðaukann.
20. Réttur Teya til að halda eftir uppgjöri
20.1.Teya hefur rétt á að halda eftir ógreiddu og/eða væntanlegu uppgjöri og/eða uppgjöri úr veltutryggingu til seljanda ef eitthvert af eftirfarandi atvikum eiga við:
(a)ef Teya grunar að um óheimilar færslur sé að ræða, er Teya heimilt að halda eftir uppgjöri þar til Teya hefur gengið úr skugga um að um gildar færslur er að ræða;
(b)ef Teya eða annar aðili sem hefur umboð til þess hefur óskað eftir upplýsingum frá seljandanum í framhaldi af seljandasamningi, er Teya heimilt að halda eftir uppgjöri þar til viðunandi upplýsingar hafa verið veittar að mati Teya;
(c)ef seljandi brýtur gegn seljandasamningi aðila og/eða reglum kortafélaganna, er Teya heimilt að halda eftir uppgjöri þar til brotið hefur verið bætt og seljandinn hefur uppfyllt allar skuldbindingar sínar í tengslum við brotið;
(d)ef grunur er um svik hjá seljanda eða væntanlegt brot á seljandasamningi aðila og/eða reglum kortafélaganna, er Teya heimilt að halda eftir uppgjöri þar til rannsókn á málinu hefur verið lokið af hálfu Teya og Teya hefur gengið úr skugga um að ekki er um svik né brot að ræða á seljandasamningi aðila og/eða reglum kortafélaganna;
(e)ef endurkröfur, endurgreiðslur og/eða aðrar aðgerðir seljanda leiða til endurgreiðsluáhættu fyrir Teya, sem ákvörðuð er af Teya, er Teya heimilt að halda eftir uppgjöri þar til rannsókn á málinu er lokið af hálfu Teya og Teya hefur gengið úr skugga um að félagið sé ekki í endurgreiðsluáhættu;
(f)þegar það er mat Teya að fjárhæðir í uppgjöri seljanda í tengslum við færslur muni ekki tryggja framtíðar skuldbindingar seljanda gagnvart Teya, þ.m.t en ekki takmarkað við gjöld, endurkröfur og endurgreiðslur, er Teya heimilt að halda eftir uppgjöri þar til Teya hefur gengið úr skugga um að þær fjárhæðir sem berast inn í tengslum við færslur seljanda nái yfir framtíðar skuldbindingar seljanda;
(g)ef seljandi á við fjárhagslega erfiðleika að stríða sem leitt geta til tjóns, að mati Teya, er Teya heimilt að halda eftir uppgjöri þar til fjárhagserfiðleikar seljanda hafa verið leystir;
(h)þar sem þess er krafist af kortafélögunum, er Teya heimilt að halda eftir uppgjöri svo lengi sem þess er krafist af kortafélögunum; eða
(i)þar sem Teya er, eða er að mati Teya, ekki heimilt samkvæmt lögum að greiða til seljanda, er Teya heimilt að halda eftir uppgjöri þar til Teya telur heimilt að greiða.
20.2.Að því marki sem lög leyfa, skal Teya tilkynna seljanda um þær greiðslur sem haldið er eftir og ástæðu þess að greiðslunni er haldið eftir. Teya áskilur sér rétt til að breyta eða bæta við ástæðu til að halda eftir greiðslunni komi fram nýjar upplýsingar sem gefa til kynna að Teya sé heimilt að halda eftir uppgjöri í samræmi við ákvæði 20.1.
20.3.Þegar þær aðstæður eru ekki lengur fyrir hendi sem leyfa Teya að halda eftir greiðslu, ber Teya að greiða uppgjör á næsta uppgjörsdegi, að því tilskildu að engar aðstæður séu þá fyrir hendi að Teya haldi eftir greiðslunni.
VI. Persónuvernd
21. Persónuvernd
21.1.Vinnslusamingur tilgreinir þær kröfur og skilyrði seljanda við vinnslu persónuupplýsinga sem seljandi safnar um korthafa og/eða færslur sem og réttindi og skyldur Teya og seljanda. Auk þess sem ákvæði vinnslusamnings og seljandasamnings segja fyrir um meðhöndlun persónuupplýsinga, ber seljanda að fara eftir gildandi lögum og reglum um persónuvernd, þar á meðal persónuupplýsingar um korthafa eða færsluupplýsingar.
22.2.Teya leggur áherslu á upplýsingaöryggi og hefur innleitt viðeigandi öryggisráðstafanir til að koma í veg fyrir að gögn Seljenda, þar með talið persónuupplýsingar og gögn Korthafa, séu notuð eða aðgengileg án viðeigandi heimildar, þeim breytt eða þau birt óviðkomandi. Þar að auki, þá takmarkar Teya aðgengi að persónuupplýsingum hjá starfsmönnum, umboðsaðilum, verktökum og öðrum þriðju aðilum þannig að þeir einir hafa aðgang sem þurfa. Þessir aðilar munu eingöngu vinna persónuupplýsingar samkvæmt leiðbeiningum Teya auk þess sem þeir eru bundnir trúnaðarskyldu. Teya hefur innleitt verklag vegna mögulegra öryggisbrota og mun tilkynna Seljanda og Persónuvernd um slík tilvik með þeim hætti sem lög mæla fyrir um.
21.3.Teya er eitt eigandi allra gagna og upplýsinga sem eru í færslukerfi félagsins, svo sem upplýsinga tengdum kortum. Hagnýting áðurnefndra gagna takmarkast þó við notkun sem beint eða óbeint er í þágu seljandasamnings aðila og eingöngu í þeim tilgangi sem tilgreindur er í persónuverndarstefnu Teya.
21.4.Teya má ekki undir neinum kringumstæðum veita seljanda neins konar upplýsingar um korthafa.
21.5.Að því marki sem lög leyfa, er Teya heimilt að framkvæma kannanir og eftirlit á seljanda og á starfsstöð seljanda, úr fjarlægð eða í eigin persónu, til að hafa eftirlit með því hvort seljandi hlíti skilmálum samnings aðila.
21.6.Undir sérstökum kringumstæðum, þ.m.t ef Teya segir upp samningi aðila, getur Teya að kröfu kortafélaganna verið skylt að veita þeim upplýsingar um seljanda. Ennfremur, er Teya heimilt að upplýsa kortafélögin og önnur yfirvöld um einstakar færslur og/eða heildarveltu seljanda, hvort sem um er að ræða sérstök kort eða á öðrum grundvelli. Jafnframt skal Teya heimilt að veita uppgjörsbönkum sem þjóna Teya umbeðnar upplýsingar, enda sé slíkt hluti af áreiðanleikakönnun/áhættumati viðkomandi banka vegna uppgjörs við seljanda. Seljandi samþykkir slíka upplýsingagjöf af hálfu Teya og undir engum kringumstæðum skal seljandi eiga kröfu gegn Teya í tengslum við slíka upplýsingagjöf.
VII. Ábyrgð
22. Skaðleysisábyrgð seljanda
22.1.Seljandi samþykkir að tryggja skaðleysi Teya og halda Teya skaðlausu frá öllu tjóni, kröfum, aðgerðum, skaða, ábyrgðum, sektum, refsingum eða kostnaði (þ.m.t lögfræðikostnaði), sem Teya verður fyrir vegna eða í tengslum við aðgerðir sem gerðar eru af vanrækslu, ásetningi, óréttmæti eða á ólögmætan hátt af seljanda, umboðsaðilum hans eða fulltrúum (eða starfsmönnum allra framantaldra) í tengslum við seljandasamning eða því sem leiðir af broti á samingi aðila, þ.m.t sektir eða brot gegn reglum kortafélaganna eða öðrum reglum. Skaðleysisábyrgð þessi er til viðbótar við og takmarkast ekki af almennum lögbundnum réttindum sem Teya kann að hafa vegna samningsbrota seljanda, þar með talið en takmarkast ekki við réttinn til skaðabóta.
22.2.Seljandi samþykkir að Teya hafi rétt á, að eigin ákvörðun, að samþykkja, véfengja, gera samkomulag um eða á annan hátt fara með kröfumál, meintar kröfur, tap eða ábyrgðir gegn seljanda og er Teya þá ekki ábyrg fyrir þeim ákvörðunum gagnvart seljanda.
23. Takmarkanir á ábyrgð Teya
23.1.Í samræmi við ákvæði 23.3. skal Teya undir engum kringumstæðum vera ábyrgt fyrir:
(a)veltu- eða hagnaðarmissi;
(b)rekstrartjóni;
(c)missi samninga eða samkomulags;
(d)tapi á áætluðum sparnaði;
(e)eða skerðingu á viðskiptavild; eða
(f)óbeinu eða afleiddu tjóni.
23.2.Í samræmi við ákvæði 23.3 og að undanskildum skyldum Teya til að greiða uppgjörsfjárhæð vegna gildra færslna á réttum tíma, skal ábyrgð Teya á öllu tapi, kröfum eða tjóni sem stafar af eða frá brotum á seljandasamingi aðila, takmarkast við þá fjárhæð gjalda sem Teya fær frá seljanda á tólf (12) mánaða tímabili fyrir brotið.
23.3.Ekkert í ákvæðum 23.1 eða 23.2 skal takmarka ábyrgð sem óheimilt er að takmarka samkvæmt lögum.
VIII. Gildistími og lok samnings
24. Gildistími seljandasamnings
24.1.Nema annað sé tekið fram í umsókn seljanda, skal seljandasamningur gilda þar til honum er sagt upp af hálfu Teya eða seljanda í samræmi við skilmála þessa, eða þar til gerður er nýr seljandasamningur á milli Teya og seljanda eða til þess tíma er seljandasamningurinn er sannanlega ógildur.
25. Uppsögn seljanda
25.1.Seljanda er heimilt hvenær sem er að segja upp samningi aðila án ástæðu með tilkynningu þess efnis til Teya.
25.2.Til viðbótar við rétt seljanda að segja upp seljandasamningi skriflega án fyrirvara samkvæmt ákvæðum 25.1, 49.4 og 30, er seljanda heimilt að segja upp samningi aðila án fyrirvara með skriflegri tilkynningu til Teya ef eitt eða fleira af neðangreindu á við:
(a)ef Teya greiðir seljanda ekki á gjalddaga kröfur samkvæmt seljandasamningi og slíkt brot hefur ekki verið lagfært innan fjórtán (14) daga eftir að seljandi hefur tilkynnt það til Teya;
(b)Ef Teya brýtur stórvægilega gegn skilmálum seljandasamnings og leiðréttir ekki brot innan (14) daga frá því seljandi skoraði á Teya að gera úrbætur eða innan þrjátíu (30) daga ef brot telst ekki vera alvarlegt;
(c)Teya neitar að verða við skyldum samkvæmt seljandasamningi; eða
(d)ef eitthvað af eftirfarandi á sér stað í tengslum við Teya, þó með þeim fyrirvara að seljandi á ekki rétt á uppsögn í þeim tilvikum þar sem slíkt fer í bága við lög:
(i)Teya hættir að veita viðskipti;
(ii)ef ákvörðun er tekin um að slíta félaginu Teya Iceland hf.;
(iii)Teya gerir eða leitar eftir því að gerðir séu nauðasamningar eða samkomulag við kröfuhafa Teya;
(iv)Teya er ófær um að greiða eða semja um skuldir sínar eða lendir í greiðslustöðvun vegna ógreiddra skulda;
(v)skipaður er bústjóri eða skiptastjóri yfir félaginu eða eignum þess; eða
(vi)í aðstæðum sem sambærilegar eru framangreindum aðstæðum og eiga sér stað í tengslum við Teya óháð því hvaða lögsaga á við.
26. Uppsögn af hálfu Teya
26.1.Teya er heimilt hvenær sem er á samningstímanum að segja upp seljandasamningi aðila án fyrirvara og án þess að tilgreina ástæðu.
26.2.Ásamt heimild Teya til uppsagnar seljandasamnings samkvæmt ákvæði 26.1 er Teya heimilt að segja upp seljandasamningi aðila þegar í stað með skriflegum hætti ef eitt eða fleira af eftirfarandi á við:
(a)Teya er það skylt samkvæmt lögum, fyrirmælum eða reglum kortafélaganna eða samkvæmt kröfu annarra þar til bærra aðila;
(b)ef það væri ólöglegt fyrir Teya að halda áfram að veita þjónustu til seljandans;
(c)seljandi hefur, eða Teya telur að seljandinn hafi, í umsókn, í umsóknarferli eða síðar í samningssambandinu, veitt Teya ónákvæmar, ófullnægjandi eða misvísandi upplýsingar;
(d)seljandinn hefur, eða Teya telur að seljandinn hafi brotið reglur kortafélaganna og/eða önnur viðeigandi lög eða reglur;
(e)seljandinn hefur, eða Teya telur að seljandinn hafi sent inn ólögmætar færslur til Teya;
(f)ef um verulega efnislega breytingu er að ræða á starfsemi seljandans;
(g)ef seljandinn selur allar eða hluta af eigum sínum;
(h)ef seljandinn sameinast öðrum aðila (samruni) og/eða ef um breytingu á eignarhaldi er að ræða;
(i)ef seljandi, með aðgerð eða aðgerðarleysi, gerir eitthvað sem Teya telur að skaði merki, ímynd, orðspor eða viðskiptavild Teya eða á annan hátt veldur skaða eða tapi á viðskiptavild Teya eða kortafélaganna;
(j)önnur atvik, eitt eða fleiri, tengd eða ótengd (þ.m.t., og án takmarkana, óreglulegar færslur á kort, starfsemi umfram viðmiðunarmarka, heildar fjárhæð endurgreiðslna seljanda fer yfir 5% af heildarveltu seljanda í mánuði, vísbendingar um sviksamlegar eða ólögmætar færslur, breytingar á eignarhaldi eða fjárhagsstöðu seljanda) sem að mati Teya með hliðsjón af áhættustefnu hennar, geta eða eru líkleg til þess að hafa áhrif á getu seljandans til að uppfylla skyldur sínar samkvæmt seljandasamningi;
(k)seljandi stendur ekki í skilum á greiðslum sem komnar eru á gjalddaga í tengslum við seljandasamning, og slíkt brot hefur ekki verið lagfært af seljanda innan fjórtán (14) daga eftir tilkynningu Teya til seljanda;
(l)seljandi brýtur gegn skilmálum seljandasamnings og hefur ekki bætt úr því innan fjórtán (14) daga frá því áskorun berst þar um eða þrjátíu (30) daga í tilviki minniháttar brota;
(m)ef seljandi hefur ekki, innan fjórtán (14) daga frá því að beiðni Teya berst til seljanda, afhent upplýsingar sem Teya telur nauðsynlegar í tengslum við meðal annars áhættumat seljanda og áreiðanleikakönnun
(n)ef seljandi hefur ekki, innan sjö (7) daga frá því að beiðni Teya berst til seljanda, orðið við kröfu Teya um framlagðar tryggingar;
(o)ef seljandi hafnar skilmálum seljandasamnings;
(p)ef forsvarsmaður seljanda kemur upp á válista/um;
(q)seljandi starfar ekki lengur innan áhættuvilja Teya samkvæmt skilgreiningu Teya hverju sinni; eða
(r)eitthvað af eftirfarandi á sér stað í tengslum við seljandann þó með þeim fyrirvara að ekki skapast uppsagnarréttur ef slíkt fer í bága við lög:
(i)seljandinn hættir viðskiptum sínum,
(ii)ákvörðun liggi fyrir eða samþykki um að slíta félagi seljanda,
(iii)seljandi hefur gert eða leitað eftir nauðasamningum eða samkomulagi við kröfuhafa sína,
(iv)seljandi getur ekki greitt skuldir sínar eða stendur frammi fyrir greiðslustöðvun vegna skulda sinna,
(v)skipaður er bústjóri eða skiptastjóri yfir félaginu eða eignum þess, eða
(vi)í þeim tilfellum sambærilegum þeim sem talin eru upp hér að framan og eiga sér stað í tengslum við seljanda óháð því í hvaða lögsögu þau gerast.
27. Uppsögn að hluta og lokun á númeri seljandasamnings
27.1.Teya og seljanda er heimilt að segja upp samningi að því marki sem hann lýtur að einu eða fleiri kortafélaganna. Tilkynning um uppsögn að hluta samkvæmt ákvæði 26 skal gerð í samræmi við ákvæði 24 og 25 (eftir því sem við á).
27.2.Hafi seljandi, sem ekki er neytandi í skilningi laga um greiðsluþjónustu, ekki sent inn færslur til Teya í þrjá (3) mánuði, án þess að upplýsa fyrirfram um ástæðu þess, er Teya heimilt án fyrirvara að loka seljandanúmeri/(um) seljanda. Seljanda er heimilt að óska eftir enduropnun ef ekki eru liðnir fleiri en þrír (3) mánuðir frá lokun Teya á seljandanúmeri/(um).
28. Afleiðingar uppsagnar
28.1.Við uppsögn eða lokun seljandasamnings samkvæmt ákvæði 26.1 og 26.2 skal seljandi tafarlaust hætta að senda inn færslur til Teya og hætta notkun á öllum merkjum kortafélaganna og merkjum í eigu Teya, að undanskildu því sem fram kemur í ákvæði 27, auk þess falla skyldur Teya skv. seljandasamningi niður.
28.2.Á uppsagnarfresti mun uppsögn sem tilkynnt hefur verið um, en hefur ekki tekið gildi, ekki hafa áhrif á ábyrgðir sem stofnast til eða verða til vegna eða í tengslum við atburði sem eiga sér stað á meðan eða áður en uppsögn tekur gildi. Með fyrirvara um réttindi Teya til að halda eftir uppgjöri eða önnur réttindi Teya samkvæmt seljandasamningi þá skal Teya að öllu jöfnu greiða seljanda allar gildar færslur sem sendar eru inn fyrir gildistöku uppsagnar á næsta uppgjörsdegi eftir uppsögn.
28.3.Þrátt fyrir uppsögn á seljandasamningi halda ákvæði 6, 7, 13-19, 21, 22, 37 og 38 skilmála gildi sínu að fullu sem og önnur ákvæði seljandasamnings sem eðli máls samkvæmt ættu samkvæmt túlkun að halda gildi sínu að fullu.
IX. Breytingar
29. Réttur Teya til að breyta seljandasamningi
29.1.Teya getur hvenær sem er gert breytingar á seljandasamningi, þar með talið á þjónustugjöldum, vaxta- og verðskrá, leiðbeiningum sem og skilmálum þessum.
29.2.Í samræmi við ákvæði 29. gr. munu breytingar á seljandasamningi taka gildi frá og með þeirri dagsetningu sem Teya tilgreinir og munu breytingarnar þá gilda um samningssamband Teya og seljanda frá og með þeim degi. Ef seljandi segir ekki upp seljandasamningi í samræmi við ákvæði 30. gr., telst seljandi hafa samþykkt breytingarnar.
29.3.Teya er heimilt að breyta hámarksfjárhæð færslu án heimildar (e. Merchant Floor Limit) hvenær sem er og af hvaða ástæðu sem er, og er Teya jafnframt heimilt að skilgreina sérstaklega hámarksfjárhæð færslu án heimildar fyrir merki hvers kortafélags.
29.4.Óski seljandi eftir breytingum á upplýsingum á samningi skal slík beiðni berast úr skráðu netfangi seljanda. Breytingar sem lúta að þóknun, uppgjörsreikningi eða vörum skal staðfesta með undirritaðri breytingabeiðni af hálfu prókúruhafa. Teya getur einnig eftir atvikum krafist undirritunar á uppfærðan nýjan samning eða viðauka við seljandasamning vegna breytinga.
30. Tilkynning um breytingar
30.1.Teya getur breytt seljandasamningnum hvenær sem er án fyrirvara. Teya mun veita seljanda skýrar og aðgengilegar upplýsingar um breytingarnar.
30.2.Að því marki sem heimilt er samkvæmt lögum, getur Teya í því sjónarmiði að uppfylla lagaskyldur, reglur kortafélaganna, önnur regluverk eða kröfu stjórnvalda, tilkynnt um breytingar á ákvæðum seljandasamnings með styttri fyrirvara en tilgreint er í ákvæði 29.1. Teya skal tilkynna seljanda um slíkar breytingarnar svo fljótt sem auðið er.
30.3.Teya er heimilt að breyta vöxtum og gengi gjaldmiðla á hvaða tímapunkti sem er án fyrirvara, þegar slíkar breytingar byggjast á breytingum á tilgreindu viðmiðunargengi eða gengi gjaldmiðla.
30.4.Teya er heimilt að breyta hámarksfjárhæð færslu án heimildar (e. Merchant Floor Limit) án þess að tilkynna fyrirfram um slíkar breytingar til seljanda.
31. Réttur seljanda til að segja upp samningi
31.1.Ef seljandi samþykkir ekki breytingar á seljandasamningi, getur seljandi sagt seljandasamningi upp skriflega og tekur uppsögnin þá gildi samstundis og án kostnaðar.
31.2.Uppsögn af hálfu seljanda í samræmi við ákvæði 30.1 skal senda Teya í síðasta lagi daginn fyrir dagsetninguna sem breytingarnar eiga að taka gildi. Að því gefnu að Teya hafi veitt seljanda tveggja (2) mánaða fyrirvara í samræmi við ákvæði 29.2 er seljanda heimilt að senda Teya uppsagnarbréf í samræmi við ákvæði 30.1 innan tveggja (2) mánaða frá því að Teya tilkynnti seljanda um breytingarnar.
X. Ýmis ákvæði
32. Force Majeure
32.1.Teya undanskilur sig ábyrgð vegna taps, skemmda eða útgjalda sem má beint eða óbeint rekja til bilunar eða tafa við að framkvæma þjónustu sína samkvæmt seljandasamningi, ef tjón má rekja til utanaðkomandi aðstæðna (e. Force Majeure Event), og ef Teya hefur ekki misfarist að grípa til aðgerða til að takmarka tjónið. Slíkar utanaðkomandi aðstæður eru meðal annars en takmarkast ekki við: stríð, hernaðaraðgerðir, hryðjuverk, uppþot, borgarastyrjaldir, skemmdarverk, slys, eyðileggingu eða skemmdir á rafrænum búnaði, fjarskiptum eða öðrum búnaði, eldsvoð, flóð, náttúruhamfarir, verkföll, verkbönn eða aðrar vinnudeilur (hvort sem um starfsmenn Teya er að ræða eður ei), lagaboð, farsóttir, heimsfaraldur eða stjórnvaldsaðgerðir.
32.2.Ef til atburða vegna utanaðkomandi aðstæðna kemur (e. Force Majure Event) getur Teya ákveðið að stöðva viðskipti samkvæmt seljandasamningi. Í slíkum tilfellum og eftir því sem kostur er mun Teya hafa samband við seljanda (eða seljandi hefur samband við Teya eftir því sem hentugast er fyrir aðila hverju sinni) og gera tilraun til að komast að viðunandi niðurstöðu í málinu. Teya skal grípa til þeirra aðgerða sem skynsamlegar geta talist í viðkomandi aðstæðum til að geta sinnt skyldum sínum samkvæmt seljandasamningi.
33. Heildarsamningur
33.1.Seljandasamningurinn telst heildarsamningur milli seljanda og Teya og skulu eldri samningar um sama efni samstundis falla úr gildi þegar seljandasamningur þessi tekur gildi. Að því undanskildu að aðilar halda öllum áunnum réttindum og skyldum samkvæmt fyrri samningum.
33.2.Til að taka af allan vafa, í þeim tilvikum þar sem núverandi seljandi gerir nýjan seljandasamning eingöngu vegna starfsstöðvar seljanda eða þar sem vörubirgðir eða þjónusta fellur ekki undir núverandi seljandasamning, þá skulu slíkir nýir samningar vera til viðbótar núverandi samningi nema samningar aðila kveði á um annað.
34. Útvistun og notkun undirvinnsluaðila og umboðsaðila
34.1.Seljanda er ekki heimilt að framselja eða flytja að hluta eða fullu réttindi sín eða skyldur samkvæmt seljandasamningi án þess að hafa áður fengið til þess skriflegt samþykki Teya.
34.2.Teya er heimilt að framselja og flytja réttindi sín samkvæmt seljandasamningi án leyfis frá seljanda.
34.3.Teya áskilur sér einnig rétt til að uppfylla skyldur sínar og verkefni samkvæmt seljandasamningi með því að nýta sér þjónustu umboðsaðila eða undirverktaka. Allir slíkir umboðsaðilar eða undirverktakar sem Teya nýtir skulu ávallt vinna undir merkjum Teya og Teya skal vera ábyrgt vegna verka þeirra gagnvart seljanda í samræmi við ákvæði seljandasamnings.
34.4.Teya er heimilt, án takmarkana, að nota umboðsaðila til að veita ákveðna þjónustu til seljanda. Í þeim tilvikum sem Teya notar umboðsaðila, eru upplýsingar um umboðsaðila tilgreindar í umsókn um seljandasamning eða með öðrum hætti tilkynntir af hálfu Teya til seljanda. Til að taka af allan vafa, teljast umboðsaðilar vera þjónustuveitendur fyrir Teya en ekki fyrir seljanda. Samningssamband seljanda er við Teya en ekki umboðsaðilann, hvort heldur sem umboðsaðilinn hefur meðundirritað umsóknina um seljandasamninginn eður ei.
35. Ógilding
35.1.Ef einhver ákvæði samningsins eru dæmd ógild, ólögleg eða ófullnægjandi skal slíkt ekki hafa áhrif á réttleika, lagagildi eða því að fara megi að öðrum ákvæðum samningsins. Seljandasamninginn skal þá túlka þannig að umrædd ákvæði hafi aldrei verið hluti hans og þeim ákvæðum þá skipt út fyrir orðalag sem samkomulag er um og er í sem mestu samræmi við upphaflegan tilgang ákvæðisins.
36. Engar undanþágur eða breytingar
36.1.Undanþága sem Teya veitir vegna brots á seljandasamningi skal ekki gilda um síðari eða ítrekuð brot. Hvorki mistök né tafir af hálfu Teya í að nýta slíkan rétt skulu hafa áhrif á réttindi Teya samkvæmt seljandasamningi og þá sérstaklega ekki að hafa áhrif á þann rétt Teya til að nýta sér rétt sinn til að rifta seljandasamningi, hvenær sem er án takmarkana, óháð því hvort að aðstæður þær sem gáfu tilefni til slíkrar beitingar eru enn til staðar eður ei.
37. Tilkynningar
37.1.Teya er heimilt að senda seljanda tilkynningar með eftirfarandi hætti:
(a)með pósti eða með því að afhenda í eigin persónu eða boðsenda tilkynningu á skráð heimilisfang skrifstofu seljanda eða heimilisfang starfsstöðvar samkvæmt upplýsingum í umsókn um seljandasamning eða á annað heimilisfang sem tilgreint er í umsókn fyrir tilkynningar. Tilkynning skal taka gildi frá og með afhendingu eða ef um póstsendingu er að ræða tveim virkum dögum eftir póstlagningu sendingar innanlands eða fimm virkum dögum frá póstlagningu millilandasendingar.
(b)með tölvupósti á það netfang sem seljandi skráði í umsókn um seljandasamning eða það netfang sem seljandi hefur á hverjum tíma. Tilkynning telst hafa verið birt seljanda þegar hún hefur verið send af Teya með ofangreindum hætti;
(c)þegar Teya gerir seljanda tilkynninguna aðgengilega á þjónustuvef; eða
(d)þegar tilkynning berst gegnum umboðsaðila. Þetta á þó einungis við þegar Teya veitir þjónustu til seljanda gegnum umboðsaðila. Þegar Teya nýtir þjónustu umboðsaðila getur félagið hvort sem er sent tilkynningar beint eða í gegnum umboðsaðilann.
37.2.Seljandi getur sent Teya tilkynningar með eftirfarandi hætti:
(a)með pósti, eða með því að afhenda í eigin persónu eða boðsenda á heimilisfang sem skráð er í umsókn um seljandasamning. Ef ekkert heimilisfang er þar skráð fyrir tilkynningar þá skal senda til Teya Iceland hf., Katrínartún 4, 105 Reykjavík, Iceland, b/t. Framkvæmdastjóra Færsluhirðingar. Tilkynning skal taka gildi frá móttöku eða í tilfelli innlendrar póstsendingar tveim virkum dögum eftir að hún var póstlögð og fimm virkum dögum frá póstlagningu millilandasendingar; eða
(b)með tölvupósti á það netfang sem tilgreint er á umsókn um seljandasamning, eða ef ekkert netfang er þar tilgreint þá á netfangið hjalp@teya.com. Í þeim tilfellum skal tilkynningin teljast móttekin þegar Teya hefur móttekið tölvupóstinn.
37.3.Allar tilkynningar skulu gerðar á því tungumáli sem tilgreint er í umsókn um seljandasamning eða á ensku. Ef ekkert tungumál er tilgreint vegna tilkynninga í umsókn um seljandasamning þá skulu tilkynningar vera á íslensku eða ensku, þ.e. ef starfsstöð seljanda er á Íslandi, og ensku fyrir aðra seljendur.
38. Raðgreiðsluvefur
38.1.Seljandi getur óskað eftir því að bjóða korthöfum upp á neytendalán á vegum Teya . Hafi Teya samþykkt slíka umsókn er seljanda heimilt að bjóða þjónustuna í gegnum raðgreiðsluvef Teya. Neytendalán getur ýmist borið vexti eða verið vaxtalaust. Bjóði seljandi upp á vaxtalaus lán ber hann ábyrgð á greiðslu vaxta til félagsins. Seljandi sem aðgengi hefur að raðgreiðsluvef skuldbindur sig til að fara í einu og öllu að skilmálum þessum um vefinn. Félagið lætur seljanda í té notandanafn og aðgangsorð (leyniorð) að raðgreiðsluvef félagsins. Notkun aðgangsheimilda er alfarið á ábyrgð seljanda.
38.2.Seljandi skal ganga úr skugga um að lántaki sé réttmætur korthafi þess korts sem lán er skráð á. Teya er heimilt að endurkrefja seljanda um fjárhæð láns ef í ljós kemur að um falsaða undirritun á lánssamningi er að ræða, lántaki er ekki réttmætur korthafi, vara eða þjónusta er ekki afhent eða ef seljandi eða starfsmaður hans hafa ekki fylgt skilmálum þessum. Kjósi seljandi að veita viðskiptavinum sínum lán með rafrænum hætti, án undirskriftar lántakanda ber seljandi ábyrgð á þeim lánssamningum sem ágreiningur rís um.
38.3. Seljanda er óheimilt að stofna neytendalán vegna annarrar tegundar viðskipta en tilgreind er í þjónustusamning hans við félagið.
38.4. Undir engum kringumstæðum má seljandi endurgreiða lán beint til korthafa heldur skal lán endurgreitt til Teya sem sér um að gera upp við korthafa.
38.5. Teya sér ekki um milligöngu né tekur ábyrgð vegna ágreinings sem kann að rísa á milli seljanda og korthafa vegna gæða vöru eða þjónustu sem greitt er fyrir með neytendaláni. Korthafi skal snúa sér beint til seljanda vegna slíkra mála. Sé ágreiningur um lögmæti láns ber seljandi, en ekki Teya , ábyrgð á því tjóni sem hlýst vegna þess.
38.6. Teya er heimilt að loka fyrir raðgreiðsluvef ef annað hvort seljandi eða félagið hefur sagt upp/rift þjónustusamningi milli aðilanna.
XI. Lög og varnarþing
39. Lög sem gildi um samninginn
39.1Um skilmála þessa gilda íslensk lög. Ágreiningsmál vegna þeirra má rekja fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.
40. Úrlausn ágreiningsmála
40.1.Ef seljandi er ósáttur við þjónustu Teya er seljanda heimilt að senda kvörtun til Teya. Stefna Teya um meðhöndlun kvartana sem og frekari upplýsingar má finna á heimasíðu Teya.
40.2.Seljandi getur jafnframt skotið ágreiningsmálum til Úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Nánari upplýsingar um úrskurðarnefndina má finna á vefsíðu Fjármálaeftirlitsins, www.fme.is. Úrskurður nefndarinnar kemur ekki í veg fyrir síðari umfjöllun dómstóla um málefnið.
XII. Sérstakir skilmálar fyrir færslur þar sem kort er ekki á staðnum
41. Gildissvið og umsókn
41.1.Þessir sérstöku skilmálar gilda fyrir alla seljendur sem taka við færslum þar sem kort er ekki á staðnum. Fari slíkar færslur í gegn um netið gilda auk þess sérstakir skilmálar Teya fyrir netseljendur.
41.2.Þessir sérstöku skilmálar eru viðbót við almenna skilmála Teya og er ekki ætlað að ganga framar né koma í staðinn fyrir ákvæði almennra skilmála Teya þó að því gefnu að stangist skilmálar þessir á við almenn ákvæði þá skulu skilmálar þessir gilda.
42. Heimild til að gera færslur á kort þegar kort er ekki á staðnum
42.1.Seljanda er aðeins heimilt að senda inn færslur sem gerðar eru án þess að kort sé á staðnum ef um það hefur verið samið í seljandasamningi milli seljanda og Teya.
43. Skráning upplýsinga
43.1.Þegar um er að ræða færslur sem gerðar eru án þess að kort sé á staðnum skal seljandi fá eftirfarandi upplýsingar frá korthafa:
(a)kortnúmer;
(b)gildistíma kortsins;
(c)öryggisnúmer;
(d)nafn korthafa og upphafsstafi nafns hans;
(e)ef við á, lögheimili korthafa;
(f)ef við á, heimilisfang sem afhenda á vöru á, ef annað en lögheimili korthafa; og
(g)þær viðbótarupplýsingar sem Teya tilkynnir seljanda skriflega um að hann þurfi að afla.
44. Færslukvittanir
44.1.Óski korthafi þess skal senda honum afrit færslukvittunar þá með tölvupósti eða öðrum hætti s.s. rafrænum hætti eða í pósti.
XIII. Sérstakir skilmálar fyrir netseljendur
45. Gildissvið og umsókn
45.1.Þessir sérstöku skilmálar skulu gilda fyrir alla seljendur sem taka við kortafærslum gegnum netið.
45.2.Þessir sérstöku skilmálar eru viðbót við önnur ákvæði almennra skilmála Teya sem ekki er ætlað að ganga framar né koma í stað ákvæða almennra skilmála Teya þó að því gefnu að stangist skilmálar þessir á við almenn ákvæði þá skulu skilmálar þessir gilda.
46. Heimild til að taka við greiðslum á netinu
46.1.Eingöngu seljendur sem hafa fengið til þess sérstaka heimild Teya mega taka við gildum netfærslum sem greiðslu.
46.2.Staðsetning seljanda telst vera sú vefsíðuslóð sem tilgreind er í umsókn um seljandasamning.
46.3.Seljandi skal gæta þess að greiðslur sem gerðar eru yfir netið séu réttilega merktar sem netgreiðslur.
47. Upplýsingagjöf á vefsíðum
47.1.Seljandi skal með skilmerkilegum hætti birta eftirfarandi upplýsingar á þeim vefsíðum sem tekur við kortafærslum sem greiðslu:
(a)merki kortafélaganna skulu birt í fullum litgæðum með sama hætti og á sama stað og tilgreindar eru aðrar greiðsluleiðir;
(b)fullnægjandi lýsingu á vöru eða þjónustu sem er til sölu á vefsíðunni;
(c)skila – og endurgreiðslustefnu seljanda;
(d)skilmála og skilyrði kaupa ef við á;
(e)“smella til að samþykkja” hnapp eða aðra staðfestingu sem sýnir fram á að korthafinn hafi samþykkt skila- og endurgreiðslustefnu seljanda.
(f)upplýsingar um þjónustutengilið seljanda og netfang eða símanúmer;
(g)heimilisfang fastrar starfsstöðvar seljanda og heimilisfang útibús seljanda;
(h)upplýsingar um færslumynt;
(i)upplýsingar um takmarkanir á útflutningi ásamt upplýsingum um aðrar takmarkanir samkvæmt lögum (ef þekktar);
(j)afhendingarstefnu seljanda;
(k)persónuverndarstefnu seljanda;
(l)upplýsingar um í hvaða landi útibú seljanda er á þeim tíma sem greiðsluleiðir eru boðnar korthafa;
(m)öryggisstig seljanda og stefnu um flutning kortaupplýsingar; og
(n)birtingu seljandaskilmála í pöntunarferli, annað hvort:
(i)á þeim skjá þar sem gengið er frá greiðslu eða þar sem tilgreind er heildarfærsluupphæð, eða
(ii)innan þeirrar raðar af vefsíðum sem korthafi þarf að fara í gegnum áður en hann kemur að greiðslusíðunni.
48. Færslukvittanir
48.1.Þegar um er að ræða netfærslu skal birta korthafa kvittun í prentformi eftir að hann samþykkir kaupin. Krefjist korthafi þess skal afrit færslukvittunar sent honum með tölvupósti eða öðrum rafrænum leiðum.
49. Öryggi á netinu
49.1.Seljandi sem tekur við kortafærslum á netinu skal tryggja að kortnúmer séu varin við miðlun og vistun. Seljendur eru hvattir til þess að nýta sýndarnúmeraþjónustu Teya í þessu tilliti.
49.2.Teya áskilur sér rétt til að hafna ákveðnum netfærslum ef 3D Secure þjónusta er ekki nýtt. Ef 3D Secure er notað skal auðkenning korthafa við hverja heimildabeiðni vera með þeim hætti sem útgefandi kortsins hefur ákvarðað.
50. Notkun á samstarfsaðilum
50.1.Seljandi skal ekki án samþykkis Teya nýta samstarfsaðila í þeim tilgangi að auka umferð um vefsíðu sína. Teya er hvenær sem er heimilt að biðja um afrit af samningum seljanda og samstarfsaðila hans.
51. Veltutrygging og öryggi
51.1.Teya er heimilt að stofna til veltutryggingar til að tryggja endurheimt Teya vegna hvers konar gjalda og/eða annarra fjárhæða sem seljandi skuldar, eða mun fyrirsjánlega skulda Teya , samkvæmt seljandasamningi eða við brot seljanda á seljandasamningi.
51.2.Ef Teya stofnar til veltutryggingar skal Teya draga fjárhæð tryggingarinnar af færsluupphæðum seljanda til að fjármagna veltutrygginguna.
51.3.Frádráttur vegna veltutryggingar skal vera tilgreindur í umsókn eða tilkynntur af Teya til seljanda með öðrum hætti. Ef frádráttur veltutryggingar er ekki tilgreindur í umsókn um seljandasamning né hafi Teya tilkynnt um frádráttinn vegna veltutryggingar til seljanda með öðrum hætti skal frádráttur vera núll. Teya áskilur sér rétt til að breyta frádrætti vegna veltutryggingar hvenær sem er með tilkynningu til seljanda, þar með talið ef starfsemi eða athafnir seljanda hafa gefið Teya ástæðu til að telja að núverandi frádráttur vegna veltutryggingar geti ekki með fullnægjandi hætti tryggt Teya vegna starfsemi umfram viðmiðunarmörk, aukningar í færslumagni umfram upphaflega áætlun seljanda, viðvörunum eða mati kortafélaganna sem og neikvæðrar eða versnandi fjárhagsstöðu seljanda.
51.4.Tilkynning um stofnun veltutryggingar eða breytingu á prósentuhlutfalli frádráttar skal senda til seljanda að minnsta kosti tveimur 2 vikum fyrir fyrsta frádrátt af uppgjöri vegna veltutryggingar eða þeim tíma sem áætlað er að breyting á frádrætti vegna veltutryggingar af uppgjöri taki gildi. Ef Teya tilkynnir seljanda um stofnun veltutryggingar eða breytingu á veltutryggingu getur seljandi sagt seljandasamningi upp án fyrirvara áður en að breytingarnar taka gildi og tekur þá uppsögn gildi samstundis.
51.5.Teya er heimilt að nota allt fjármagn úr veltutryggingu til að greiða hver þau gjöld og/eða aðrar fjárhæðir sem seljandi skuldar Teya. Allar greiðslur af veltutryggingu skulu skráðar af Teya.
51.6.Frádráttur vegna veltutryggingar vegna allra færslufjárhæða innan mánaðar skal, í samræmi við önnur ákvæði seljandasamnings, greiða sex (6) mánuðum eftir síðasta dag þess mánaðar sem færsla var send inn. Til dæmis, frádráttur vegna veltutryggingar í maí, að því marki sem hann er ekki nýttur til að greiðslu endurkrafna, endurgreiðslna, þóknana eða annarra skulda seljanda við Teya og í samræmi við önnur ákvæði seljandasamnings, verður greiddur seljanda á næsta uppgjörsdegi eftir 30. nóvember. Teya heldur áfram að greiða af fjárhæð veltutryggingar mánaðarlega eftir uppsögn seljandasamnings.
51.7.Seljandi skal einungis hafa rétt á greiðslum úr veltutryggingu frá og með þeirri dagsetningu sem tilgreind er í ákvæði 49.6 í samræmi við rétt Teya til að halda eftir greiðslum samkvæmt seljandasamningi. Teya mun greiða fjárhæðir úr veltutryggingu á sem hagkvæmastan hátt fyrir Teya . Seljandi hefur ekki rétt á neinum vöxtum á fjárhæðir sem geymast í veltutryggingu.
51.8.Með því að samþykkja skilmála seljandasamnings veitir seljandi Teya heimild til að halda eftir öllum fjárhæðum sem Teya skuldar seljanda til tryggingar skuldum seljanda við Teya , hvort heldur þær tengjast seljandasamningi eður ei, sem og til tryggingar greiðslu fjárhæða sem Teya ber lögum samkvæmt að standa skil á vegna seljanda.
51.9.Réttindi Teya vegna veltutryggingar og önnur réttindi samkvæmt ákvæði 18.4 skulu gilda áfram þrátt fyrir að seljandasamningi sé sagt upp.
52. Gagnvirk gjaldmiðlaskipti
52.1 Sérstakir skilmálar vegna myntvals, sem settir eru fram hér að neðan, gilda að því marki sem myntval er virkjað fyrir þinn rekstur. Ef hæfur viðskiptavinur velur myntval til greiðslu í gjaldmiðli viðskiptavinar í stað innlends gjaldmiðils á eftirfarandi við um hverja DCC-færslu:
(a) kostnaður viðkomandi vöru eða þjónustu verður umreiknaður í samsvarandi gjaldmiðil korts viðskiptavinarins á þeim tíma sem viðskiptin eiga sér stað. Þetta er gert með því að nota myntvalsgengi sem þjónusta í tengslum við erlendan gjaldeyri lét okkur í té á viðskiptadeginum, til viðbótar við myntvalsgjald eins og það er ákvarðað af okkur. Við áskiljum okkur rétt til að ákveða hvort einhverjum hluta þessa myntvalsgjalds verði deilt með þér, og að því marki sem slíkri þóknun er deilt, verður hlutfall þóknunarinnar nánar lýst í tilkynningu; og
(b) myntvalsgengið sem notað er fyrir hverja færslu verður notað fyrir allar endurkröfur eða endurgreiðslur sem tengjast þeirri færslu.
52.2 Mikilvægt er að gera grein fyrir því að Teya hefur rétt til að breyta þjónustu í tengslum við erlendan gjaldeyri hvenær sem er, án þess að gerð sé krafa um fyrirframtilkynningu.
52.3 Ábyrgð þín felst í:
(a) að tryggja að starfsfólk þitt fái fullnægjandi þjálfun varðandi notkun hæfra viðskiptavina á myntvali og að upplýsa starfsfólk þitt um allar breytingar á myntvali;
(b) að forðast að gefa vísvitandi rangar upplýsingar um einhvern þátt eða eiginleika myntvals; og
(c) að hlíta ákvæðum notkunarleiðbeininga viðskiptavinarins og reglna greiðsluþjónustukerfis sem tengjast veitingu myntvals.
Below are the updated Payment Terms that will take effect on 31/01/2025. These will replace the current terms above, so please take a moment to familiarise yourself with the upcoming changes.
Auktu skilvirknina og segðu bless við vesenið. Hvort sem þú ert einstaklingur, eigandi lítils fyrirtækis eða hlutafélags, þá er Teya áreiðanlegur samstarfsaðili þinn þegar kemur að öruggum og skilvirkum greiðslulausnum.
Skilmálarnir sem hér eru settir fram, þar á meðal reglur og leiðbeiningar sem vísað er í, og öll önnur gögn sem tilgreind eru öðru hvoru („greiðsluskilmálar“, einnig nefndir „viðbótarskilmálar“) gilda um notkun þína á greiðsluþjónustu okkar sem og allri annarri þjónustu sem veitt er samkvæmt þessum greiðsluskilmálum, eins og tilgreint er í 2. kafla hverju sinni („greiðsluþjónusta“).
Þegar þú notar greiðsluþjónustu okkar samþykkir þú einnig almenna skilmála Teya og viðauka gagnavinnslu sem er felldur inn í þessa greiðsluskilmála í formi tilvísana, þ.m.t. allar breytingar sem gerðar eru öðru hvoru. Ef þú skilur ekki einhver ákvæði í þessum greiðsluskilmálum skaltu hafa samband við okkur áður en þú byrjar að nota greiðsluþjónustu okkar.
Hugtök í hástöfum hafa sömu merkingu og í almennum skilmálum Teya nema annað sé tekið fram. Ef ósamræmi er á milli þessara greiðsluskilmála og skilmálanna sem vísað er til hér að ofan munu greiðsluskilmálarnir gilda.
Upplýsingar um það hvernig við meðhöndlum upplýsingar þínar er að finna í persónuverndarstefnu okkar.
Ef einhver ákvæði þessara greiðsluskilmála virðast vera óljós, ef þú ert með spurningar varðandi greiðsluþjónustu okkar eða ef þú vilt fá ókeypis eintak af þessum greiðsluskilmálum skaltu ekki hika við að hafa samband við þjónustuver Teya hvenær sem er á gildistíma þessara greiðsluskilmála. Við erum hér til að aðstoða þig þegar þér hentar.
1. Skilgreiningar
„Samsett verð“ merkir fast gjald sem lagt er á kortagreiðslur og felur í sér öll gjöld og þóknanir sem kortaútgefendur, greiðsluþjónustukerfi og Teya leggja á, án aðgreiningar á grundvelli tegundar korts, vörumerkis eða útgáfulands korts;
„Viðskiptagátt“ merkir kerfi á netinu sem Teya gerir aðgengilegt notendum til að halda utan um færslur, fylgjast með innistæðu eftir söluaðilaauðkenni og fá aðgang að tilkynningum og öðrum upplýsingum sem tengjast greiðsluþjónustunni;
„Kort“ vísar til greiðslukorts, svo sem kredit- eða debetkorts, sem viðkomandi greiðsluþjónustukerfi samþykkir til að vinna úr færslum í gegnum greiðsluþjónustuna;
„Kortaútgefandi “ vísar til aðila, yfirleitt fjármálastofnunar, sem gefur út kredit- eða debetkort til korthafa;
„Endurkrafa“ merkir ágreining sem viðskiptavinur stofnar til gagnvart kredit- eða debetkortaútgefanda sínum varðandi greiðslufærslu;
„Gjaldmiðill viðskiptavinar“ er sá gjaldmiðill sem kemur fram á kortayfirliti hjá gjaldgengum viðskiptavinum myntvals frá kortaútgefandanum;
„Myntvalsgjald“: merkir viðbótargjald sem bætist við þegar verð á færslu er umbreytt úr innlendum gjaldmiðli í gjaldmiðil viðskiptavinar í viðskiptum þar sem myntval er notað. Myntvalsgjaldið er til viðbótar myntvalsgengi og ákvarðar af okkur;
„Myntvalsgengi“ merkir gengi erlendra gjaldmiðla sem við fáum frá tilgreindum þjónustuveitanda okkar vegna DCC-viðskipta;
„Innlendur gjaldmiðill“ er sá gjaldmiðill sem venjulega er notaður til að gefa upp verð á vörum eða þjónustu sem viðskiptavinum er boðið í hverri færslu;
„Myntval“ merkir aðgerð sem gerir viðskiptavini kleift að stofna til viðskipta með gjaldmiðli korts síns, frekar en gjaldmiðli þess lögsagnarumdæmis þar sem hann er staðsettur;
„Millibankagjald“ merkir gjald sem kortaútgefandi innheimtir fyrir úrvinnslu færslu sem Teya greiðir eða þriðji aðili greiðir fyrir hönd Teya og þú endurgreiðir;
„Merki“ er auðþekkjanlegt tákn, hönnun eða tjáning sem auðkennir tiltekið vörumerki, vöru eða þjónustu. Þetta felur í sér lógó, þjónustumerki, hönnunarmerki og stílfærðar skriftur;
„Virkni söluaðila“ merkir samantekt á færsluupplýsingum þínum, sem nær yfir vinnslu korts, tegund greiðslumáta og alþjóðleg greiðsludreifingu;
„Söluaðilaauðkenni“ merkir sérstakt reikningsnúmer þitt sem við höfum sett upp til að fá aðgang að greiðsluþjónustunni í samræmi við þessa greiðsluskilmála;
„MOTO“ merkir greiðslulausn þar sem viðskiptavinir deila kortaupplýsingum sínum í pósti, síma eða á stafrænu formi sem gerir færslum kleift að eiga sér stað án þess að viðskiptavinurinn eða kortið hans sé til staðar;
„Gjöld greiðsluþjónustukerfis“ eru gjöld sem greiðsluþjónustuerfi leggja á kortaviðskipti sem eru ákvörðuð reglulega af Teya. Upplýsingar um gildandi gjöld greiðsluþjónustukerfis skulu vera aðgengilegar ef um er að ræða ósamsett verð í gegnum viðskiptagáttina;
„Reglur greiðsluþjónustukerfis“ merkja viðmiðunarreglur, lög og reglugerðir greiðsluþjónustukerfis þar sem fram kemur hvernig hægt er að samþykkja og nota greiðslumáta;
„Greiða með tengli“ merkir greiðslulausn þar sem söluaðili býr til einkvæman tengil fyrir tiltekin viðskipti;
„Skilmálar fyrir greiðslumáta“ merkir viðbótarskilmála sem eiga við tiltekinn greiðslumáta og má finna eða nálgast á vefsvæði Teya;
„Útborgun“ merkir heildarskuld okkar gagnvart þér vegna lokinna færslna eftir að við höfum dregið gjöld okkar frá og reiknað allar endurgreiðslur, endurkröfur, skuldajafnanir eða aðrar skuldir við okkur;
„Útborgunarreikningur“ er bankareikningurinn sem þú tilgreinir til að taka við greiðslum vegna færslna sem búið er að vinna úr;
„PCI DSS“ (Payment Card Industry Data Security Standard) stendur fyrir gagnaöryggisstaðla greiðslukorts;
„Endurgreiðsla“ merkir að þú stofnar beiðni um endurgreiðslu að fullu eða að hluta fyrir viðskiptavin vegna færslu sem er lokið;
„Bakfærsla“ þýðir afturköllun á uppgjöri fjármuna fyrir færslu sem er lokið;
„Teya“ merkir Teya Iceland hf. (kennitala: 4406861259), með lögheimili að Katrínartúni 4, 105 Reykjavík. Teya Iceland hf. hefur leyfi frá fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands sem lánafyrirtæki og hefur heimild til að veita m.a. greiðsluþjónustu og útgáfu rafeyris;
„Ósamsett verð“ merkir verðlagningu þar sem þóknanir og gjöld sem kortaútgefendur, greiðsluþjónustukerfi og Teya leggja á eru breytileg eftir tilteknum þáttum. Þessir þættir geta m.a. verið flokkskóði söluaðila (e. Merchant Category Code, MCC), tegund korts sem verið er að nota (svo sem kredit- eða debetkort), útgáfuland kortsins og vörumerki kortsins sem tekið er við. Í þessari verðlagningu geta gjöldin sem tengjast hverri færslu verið mismunandi og þeim er ekki safnað saman í eitt fast gjald;
2. Greiðsluþjónustan
2.1 Greiðsluþjónusta okkar gerir þér kleift að taka við og vinna úr greiðslum frá viðskiptavinum þínum með ýmsum leiðum, svo sem kredit- og debetkortafærslum, snertilausum snjallsímafærslum, netfærslum og greiðslu með tengli (Pay By Link). Sérstök hugtök sem tengjast þessari þjónustu eru tilgreind í hlutanum „Viðbótarskilmálar“. Hafðu í huga að hugsanlega þarf að virkja suma þjónustu en það er okkur í sjálfsvald sett.
2.2 Við hjálpum þér að vinna úr greiðslum frá viðskiptavinum þínum í gegnum greiðsluþjónustuna. Fjármunirnir sem fást með þessum viðskiptum verða færðir til þín eftir að gjöld, endurkröfur, kröfur, endurgreiðslur eða aðrar skuldir gagnvart okkur eða annars fyrirtækis innan Teya-samstæðunnar hafa verið dregnar frá. Eftir uppgjör verða fjármunirnir lagðir inn á útborgunarreikninginn þinn.
2.3 Þú heimilar og gefur okkur fyrirmæli um móttöku, umsjón og dreifingu fjármuna í samræmi við þessa greiðsluskilmála fyrir þína hönd. Þessi heimild heldur gildi sínu þar til annaðhvort þú eða við segjum upp þessum greiðsluskilmálum.
2.4 Með skráningu í greiðsluþjónustuna veitir þú okkur heimild og leiðbeiningar til að framkvæma lánshæfismat, eftirlit með reglufylgni og önnur nauðsynleg sannprófunarferli. Þetta getur falið í sér að leggja fram frekari upplýsingar og gögn til að staðfesta hver þú ert og fara að kröfum um aðgerðir gegn peningaþvætti, fjármögnun hryðjuverka og öðrum reglugerðum. Þessar verklagsreglur koma fram í almennum skilmálum Teya. Enn fremur viðurkennir þú að rétturinn til að ákveða hvort þú uppfyllir skilyrði til að fá aðgang að og nota greiðsluþjónustuna er eingöngu okkar og er háður ákvörðun okkar.
3. Upplýsingar og aðgengi
3.1 Auk upplýsingaskyldunnar sem lýst er í almennum skilmálum Teya er mikilvægt að þú látir okkur tafarlaust vita skriflega um eftirfarandi:
(a) raunveruleg eða grunuð brot á öryggi í tengslum við söluaðilaauðkenni þitt;
(b) tap, þjófnað, misnotkun eða raunverulega eða grunaða óheimila notkun á greiðsluposa/-posum þínum eða öðrum kerfum, hugbúnaði eða vélbúnaði sem notaður er til að senda inn færslur í Teya;
(c) verulegar breytingar á starfsemi þinni;
(d) allar breytingar á samþykktum undirritunaraðilum fyrirtækisins;
(e) allar breytingar á raunverulegu eignarhaldi og/eða eignarhaldsskipulagi fyrirtækisins; og
(f) allar aðstæður sem geta komið í veg fyrir að þú fylgir þessum greiðsluskilmálum.
3.2 Teya gæti hvenær sem er beðið um frekari upplýsingar frá þér. Til dæmis gætum við óskað eftir reikningum frá birgjum þínum, útgefnum reikningum eða kvittunum til viðskiptavina þinna, opinberum skilríkjum eins og vegabréfi eða ökuskírteini, rekstrarleyfi, bankayfirlitum, fjárhagsgögnum eða öðrum viðeigandi upplýsingum. Ef þú lætur ekki þessar upplýsingar af hendi þegar beðið er um þær gæti söluaðilaauðkenni þínu verið lokað tímabundið eða endanlega.
3.3 Samkvæmt beiðni Teya, greiðsluþjónustukerfis eða annarra yfirvalda sem hafa lögsögu yfir Teya ber þér skylda til að veita vottunaraðilum og/eða rannsakendum aðgang að kortabúnaði og -kerfum þínum. Enn fremur heimilar þú Teya, greiðsluþjónustukerfunum og/eða yfirvöldum sem hafa lögsögu yfir Teya aðgang að húsnæði þínu hvenær sem er. Þetta gildir án þess að þörf sé á fyrirframtilkynningu, nema í þeim tilvikum þar sem fyrirframtilkynning er áskilin samkvæmt gildandi lögum, í þeim tilgangi að gera úttekt á fylgni þinni við þessa greiðsluskilmála.
4. Gjöld, útborganir og frádráttur
4.1 Fyrir notkun á greiðsluþjónustunni samþykkir þú að greiða gjöldin sem við metum og reiknum út í samræmi við: (a) gjaldskrána sem er að finna á vefsvæðinu okkar; (b) gjöldin sem koma fram í tilkynningu (svo sem í kynningarpóstinum og við breytingar hverju sinni); og/eða (c) aðra samninga sem þú gerir við Teya, en þeir eru allir felldir inn í þessa greiðsluskilmála með tilvísun. Þar sem við á eru gjöld samansafn áðurnefndra flokka.
4.2 Teya býður upp á tvær gjaldasamsetningar fyrir móttöku kortafærslna í gegnum greiðsluþjónustu Teya: Samsett verð og ósamsett verð. Teya ákveður hæfi viðskiptavina fyrir umræddar gjaldasamsetningar.
4.3 Með því að samþykkja þessa greiðsluskilmála velur þú samsett verð (nema um annað sé samið). Þú gerir þér grein fyrir að þú færð eitt stakt gjald fyrir kortafærslur sem nær yfir allan kostnað og gjöld sem kortaútgefendur og greiðsluþjónustukerfi innheimta. Gjaldið breytist ekki eftir flokkum, vörumerkjum eða útgáfulöndum, jafnvel þótt millibankagjöldin séu breytileg. Þú staðfestir einnig og óskar eftir því að við veitum ekki nákvæmar sundurliðanir á aðgreindum gjöldum fyrir greiðsluþjónustukerfi og kortaútgefendur og að okkur beri ekki skylda til að veita þessar upplýsingar, hvorki samkvæmt þessum greiðsluskilmálum né í neinu öðru samhengi.
4.4 Í tengslum við samsett verð samþykkir þú að undirliggjandi millibankagjald og önnur kortatengd gjöld eru ákvörðuð af Teya, annaðhvort á grundvelli gagna um virkni söluaðila sem þú leggur fram eða á grundvelli viðskiptalegra forsendna sem byggjast á athugasemdum þínum. Ef raunveruleg virkni söluaðila víkur að verulegu leyti frá framlögðum gögnum þínum eða athugasemdum áskiljum við okkur rétt til að breyta þegar í stað samsettu verði í samræmi við núverandi virkni starfseminnar. Þessi leiðrétting stafar af, án takmarkana, tilteknum færslutegundum, eins og þeim sem framkvæmdar eru með kreditkortum sem gefin eru út utan Evrópu fyrir evrópsk fyrirtæki eða fyrirtækjakort, sem bera hærri gjöld frá greiðsluþjónustukerfunum samanborið við færslur með kortum sem gefin eru út í Evrópu.
4.5 Ef þú velur ósamsett verð, háð framboði, staðfestir þú og samþykkir að gjöld greiðsluþjónustukerfis og millibankagjöld geta breyst, eins og greiðsluþjónustukerfi og kortaútgefendur ákveða. Þar af leiðandi gætum við breytt þessum greiðsluþjónustukerfisgjöldum og/eða millibankagjöldum án þess að tilkynna þér um það fyrirfram.
4.6 Með fyrirvara um staðgreiðslu, varasjóði, eða önnur tilvik samkvæmt þessum greiðsluskilmálum sem gera Teya kleift að seinka útborgunum, leitast Teya við að senda fjármuni úr kortafærslum sem unnar eru á tilteknum virkum degi inn á útborgunarreikninginn þinn næsta virka dag (nema um annað hafi verið samið og í öllum tilvikum ekki síðar en á virkum degi þegar Teya fær fjármunina frá viðkomandi greiðsluþjónustukerfum). Ef færslurnar berast ekki á virkum degi mun Teya hefja útborgunina á næsta virka degi, með fyrirvara um ofangreint. Athugaðu að öll viðeigandi gjöld fyrir greiðsluþjónustu okkar, sem og aðrar útistandandi skuldir sem þú átt hjá okkur, verða dregin frá útborguninni. Til útskýringar er Teya:
(a) ekki skuldbundið til að greiða vexti af viðskiptum frá þeim degi sem færslur eru sendar inn eða af fjármunum sem Teya heldur eftir; og
(b) ekki skuldbundið til að senda útborganir fyrr en Teya hefur móttekið viðkomandi fjármuni frá greiðsluþjónustukerfunum.
4.7 Útborgunargjaldmiðill þinn mun samsvara þeim gjaldmiðli sem er notaður á staðnum þar sem fyrirtækið þitt er skráð nema við höfum samið um annað.
4.8 Teya mun draga öll gjöld sem tengjast notkun þinni á greiðsluþjónustunni frá útborgunum til þín, þ.m.t. en ekki takmarkað við:
(a) öll gjöld;
(b) allar fjárhæðir sem greiða þarf vegna endurkröfu og tengdra gjalda,
(c) allar unnar endurgreiðslur;
(d) öll viðbótargjöld eða frádrætti sem Teya hefur heimild til að framkvæma samkvæmt greiðsluskilmálunum, öðrum viðbótarskilmálum eða almennum skilmálum Teya;
(e) allar aðrar fjárhæðir sem þú skuldar Teya samkvæmt þessum greiðsluskilmálum eða vegna brots þíns á þessum greiðsluskilmálum, þ.m.t. þær sem stafa af ólögmætum viðskiptum eða gruni um slíkt, kostnaði vegna gjaldmiðlaskipta, endurgreiðslu á vinnslugjöldum þriðju aðila, endurgreiðslu sekta og mats (t.d. frá greiðsluþjónustukerfum) og skaðabóta- eða tjónagreiðslum;
(f) alla skatta og opinber gjöld, þ.m.t. virðisaukaskattur, sem lögð eru á allar upphæðir sem Teya þarf að greiða þér samkvæmt þessum greiðslum, sem Teya mun innheimta hjá þér og skila til viðeigandi yfirvalda (ef við á); og
(g) leiðréttingar ef um ranga útborgun er að ræða.
4.9 Gjöld sem eru bundin við úrvinnslu færslna þinna koma til greiðslu um leið og færslur berast til úrvinnslu hjá Teya. Öll gjöld sem tengjast bakfærslum eru greidd um leið og úrvinnsla endurkröfu er hafin. Öll önnur gjöld koma til gjalda þegar Teya veitir þjónustuna, þegar Teya óskar eftir greiðslu eða þegar Teya á rétt á greiðslu með öðrum hætti í samræmi við ákvæði þessara greiðsluskilmála.
5. Frestaðar útborganir, varasjóður og verndarráðstafanir
5.1 Teya getur ákveðið að fresta eða halda eftir útborgunum að eigin vild. Ástæðurnar geta meðal annars verið:
(a) ef einhverjar færslur virðast grunsamlegar eða ógildar getur Teya frestað útborgunum þar til við erum fullviss um áreiðanleika þeirra;
(b) hægt er að fresta útborgunum ef Teya, eða annar aðili eða stofnun með tilskilið umboð, hefur óskað eftir upplýsingum frá þér í samræmi við þessa greiðsluskilmála. Útborgun(um) verður frestað þar til nauðsynlegar upplýsingar hafa verið veittar;
(c) ef þú brýtur gegn þessum greiðsluskilmálum og/eða reglum greiðsluþjónustukerfis getur Teya frestað útborgun(um) þar til brotið hefur verið leiðrétt og þú hefur leyst úr öllum skuldbindingum sem fylgja í kjölfarið;
(d) ef grunur vaknar um svik eða hugsanlegt brot á þessum greiðsluskilmálum og/eða reglum greiðsluþjónustukerfis getur Teya haldið eftir greiðslu þar til rannsókn þess lýkur og þegar það er sannfært um að engin svik eða brot hafi átt sér stað;
(e) þegar um er að ræða endurkröfur, endurgreiðslur eða aðrar aðgerðir sem Teya telur að geti haft í för með sér fjárhagslega áhættu má fresta útborgun(um) þar til rannsókn hefur tryggt að engin yfirvofandi fjárhagsleg áhætta sé til staðar;
(f) ef Teya gerir ráð fyrir að færslufjárhæðirnar standi ekki nægilega undir framtíðarskuldbindingum þínum gagnvart Teya, þar á meðal gjöldum, endurkröfum eða endurgreiðslum, getur Teya frestað útborgun(um) þar til fullvissa er fyrir því að næg trygging sé til staðar;
(g) ef Teya hefur ástæðu til að ætla að þú getir ekki staðið við fjárhagslegar skuldbindingar þínar gagnvart Teya gætum við gert hlé á útborgunum þar til leyst hefur verið úr þessum áhyggjuefnum;
(h) ef eitthvert greiðsluþjónustukerfi gefur fyrirmæli eða skipun um það getur Teya seinkað útborgun eða útborgunum í þann tíma sem viðkomandi greiðsluþjónustukerfi gefur fyrirmæli um eða krefst;
(i) vangeta af þinni hálfu við að taka á móti útborgunum; og
(j) ef Teya telur að það sé bannað samkvæmt gildandi lögum að framkvæma greiðslu til þín getur Teya seinkað útborgun eða útborgunum þar til við erum sannfærð um að útborgunin sé lögleg.
5.2 Teya getur breytt eða gefið fleiri ástæður fyrir tímabundinni frestun á útborgunum ef við fáum nýjar upplýsingar sem gera það nauðsynlegt.
5.3 Þú samþykkir að við getum notað útborganir sem haldið er eftir til að stofna varasjóð þegar við teljum það nauðsynlegt. Með því að samþykkja þetta veitir þú okkur tryggingu á efndum og veð í öllum fjármunum í varasjóðnum. Þessi varasjóður verndar hagsmuni okkar og við getum dregið frá allar upphæðir sem þú skuldar okkur samkvæmt þessum greiðsluskilmálum, þar á meðal neikvæðar eftirstöðvar tengdar söluaðilaauðkenni þínu, án þess að þurfa að tilkynna þér um það fyrir fram.
5.4 Ef þú skuldar hærri fjárhæð en sem nemur innistæðunni í varasjóðnum samþykkir þú að greiða okkur eftirstöðvarnar tafarlaust og eigi síðar en innan þriggja (3) virkra daga frá kröfu okkar.
5.5 Við getum einnig dregið frá, endurheimt eða jafnað gjöld eða aðrar skuldir þínar samkvæmt ákvæðum þessara greiðsluskilmála eða öðrum samningum sem kunna að vera til staðar á milli þín og okkar eða samstarfsaðila okkar (þar á meðal annarra Teya-fyrirtækja). Þennan rétt má nota, án takmarkana, með því að draga viðeigandi upphæðir af innistæðu þinni undir söluaðilaauðkenni, varasjóði, öllum útborgunum sem þú átt rétt á eða öðrum fjármunum sem standa til greiðslu til þín.
5.6 Til viðbótar þeim verndarráðstöfunum sem lýst er í þessum greiðsluskilmálum hefur Teya, þar sem það er heimilt samkvæmt lögum, heimild til að draga frá útborguninni, varasjóðnum eða öðrum fjárhæðum sem ber að greiða þér, upphæð á móti skuldum sem þú skuldar einhverju Teya-fyrirtæki samkvæmt samningi. Ef upphæðin sem þú skuldar Teya-fyrirtæki er hærri en útborgun þín, varasjóður þinn eða aðrar fjárhæðir sem ber að greiða þér, áskiljum við okkur rétt til að innheimta eða skuldfæra á greiðslumáta sem tengdur er Teya-reikningi þínum eða einhverri Teya þjónustu. Ef þú greiðir ekki upphæðirnar sem þú skuldar Teya um leið og beðið er um það telst það brot á þessum greiðsluskilmálum. Auk þess berð þú ábyrgð á öllum kostnaði okkar í skuldainnheimtuferlinu, meðal annars lögfræðikostnaði, gjöldum innheimtustofnana og öllum vöxtum sem eiga við.
6. Gildistími og uppsögn
6.1 Þessir greiðsluskilmálar munu gilda frá þeim degi sem þeir taka gildi, og telst ótímabundinn, þar til þú eða við segjum þeim upp, nema um annað sé samið.
6.2 Eins og lýst er í almennum skilmálum Teya áskiljum við okkur rétt til að segja þessum greiðsluskilmálum tafarlaust upp, nema gildandi lög kveði á um annað, og sami réttur gildir fyrir þig nema Teya og þú hafið samið um annað fyrirkomulag. Ef gildandi lög kveða á um lágmarksfrest munum við fylgja þeim frestum. Ef þú getur hins vegar afsalað þér slíkum réttindum verður litið svo á að þau falli niður þegar þú samþykkir þessa greiðsluskilmála.
6.3 Auk almennrar heimildar Teya til að segja upp þessum greiðsluskilmálum án fyrirvara og til viðbótar við uppsagnarréttinn sem settur er fram í almennum skilmálum Teya, áskiljum við okkur rétt til að rifta þessum greiðsluskilmálum tafarlaust við eftirfarandi aðstæður (án takmarkana):
(a) Ef Teya er lagalega knúið til að rifta þessum greiðsluskilmálum vegna gildandi laga, greiðsluþjónustukerfis, reglna greiðsluþjónustukerfis eða yfirvalds sem hefur eftirlit með rekstri þess;
(b) Ef það verður ólöglegt fyrir Teya að halda áfram að bjóða þér greiðsluþjónustuna;
(c) Ef þú hefur veitt, eða við höfum rökstuddan grun um að þú hafir veitt, villandi, ófullnægjandi eða rangar upplýsingar til Teya í tengslum við umsókn, samþykkt og/eða notkun þessara greiðsluskilmála;
(d) Ef þú ert, eða við höfum rökstuddan grun um að þú sért, að brjóta gegn reglum greiðsluþjónustukerfis og/eða gildandi lögum;
(e) Ef þú hefur sent inn, eða við höfum rökstuddan grun um að þú hafir sent inn, ólögmætar færslur til okkar;
(f) Ef umtalsverð breyting verður á eðli rekstrursins;
(g) Ef fyrirtæki þitt sameinast annarri einingu og/eða ef breyting verður á stjórn fyrirtækis þíns;
(h) Ef þú, með aðgerðum þínum eða aðgerðaleysi, gerir eitthvað sem við teljum að skaði eða gæti skaðað vörumerki, ímynd, orðspor eða viðskiptavild okkar eða greiðsluþjónustukerfis, eða sem gæti á annan hátt valdið tjóni eða tapi á viðskiptavild greiðsluþjónustukerfis eða Teya;
(i) Ef eitthvert atvik eða röð atvika, hvort sem þau eru tengd eða ekki (þar á meðal, en takmarkast ekki við): i) óreglulega kortasölu, óhófleg endurkröfu- og endurgreiðsluhlutföll samkvæmt ákvörðun okkar; ii) vísbendingar um sviksamleg eða ólögmæt viðskipti; og/eða iii) verulega neikvæða breytingu á eignum fyrirtækisins eða fjárhagsskilyrðum sem að mati Teya getur haft áhrif á getu þína til að uppfylla einhverjar eða allar skuldbindingar þínar samkvæmt þessum greiðsluskilmálum;
(j) Ef þú greiðir ekki upphæð á gjalddaga til Teya samkvæmt þessum greiðsluskilmálum og ekki hefur verið bætt úr slíkum vanefndum innan fjórtán (14) daga frá því að við létum þig vita;
(k) Ef þú hefur ekki veitt upplýsingar sem Teya telur nauðsynlegar, svo sem vegna áhættumats og áreiðanleikakönnunar, innan sjö (7) daga frá því að þú fékkst beiðni frá okkur;
(l) Ef þú hefur ekki lagt fram neina tryggingu innan sjö (7) daga frá því að beiðni Teya var móttekin;
(m) Ef þú hafnar einhverju ákvæði þessara greiðsluskilmála; og
(n) Ef starfsemi þín samræmist ekki lengur áhættuvilja Teya.
6.4 Teya hefur heimild til að rifta tafarlaust greiðsluskilmálunum sem tengjast einum eða fleiri greiðslumátum og viðhalda jafnframt greiðsluskilmálunum fyrir aðra viðeigandi greiðslumáta án þess að tilkynna um það fyrirfram. Enn fremur áskilur Teya sér rétt til að fresta eða hætta með greiðslulausnir eða einstaka þjónustuþætti sem tengjast greiðsluþjónustunni, svo sem símgreiðslur (MOTO) eða Pay By Link, án nokkurs fyrirvara, nema gildandi lög kveði á um annað.
7. Breytingar
7.1 Eins og greint er frá í almennum skilmálum Teya getum við breytt þessum greiðsluskilmálum með tilkynningu sem við teljum sanngjarna nema sérstakur tilkynningarfrestur sé lögboðinn, en ef svo á við munum við tilkynna samkvæmt slíkum frestum. Hafir þú rétt til afsals á ofangreindum frestum telst slíkt afsal hafa farið fram þegar þú samþykkir þessa greiðsluskilmála.
7.2 Breyting tekur gildi á þeim degi sem tilgreindur er í tilkynningunni og áframhaldandi notkun þín á greiðsluþjónustunni eftir að breytingarnar taka gildi merkir að þú samþykkir uppfærða greiðsluskilmála eða gjöld eftir því sem við á, nema þú segir þessum greiðsluskilmálum upp áður en breytingin tekur gildi. Ef þú ert ósammála breytingunni getur þú sagt þessum greiðsluskilmálum upp án endurgjalds og hvenær sem er áður en breytingartillagan tekur gildi.
7.3 Teya áskilur sér rétt til að breyta gengi þegar í stað og án fyrirframtilkynningar.
8. Færsluskráning
8.1 Við veitum þér aðgang að færslugögnum þínum í gegnum viðskiptagáttina sem inniheldur skýrslur sem hægt er að hlaða niður. Uppgefnar upplýsingar ná yfir gjöldin sem tengjast færslunum sem þú vinnur úr, tilvísunarnúmer og færsluupphæðina í inneignargjaldmiðlinum. Með því að samþykkja þessa greiðsluskilmála heimilar þú og biður okkur um að taka saman þessar upplýsingar fyrir allar kortafærslur sem flokkaðar eru eftir vörumerki, greiðslumáta og tegundum og gengi millibankagjalda, ef við á. Þessar upplýsingar verða þér aðgengilegar í gegnum viðskiptagáttina og/eða tölvupóst, að minnsta kosti mánaðarlega.
8.2 Nema annað sé tekið fram í gildandi lögum berð einungis þú ábyrgð á því að: (a) varðveita varanlega skrá yfir allar færslur og samsvarandi gögn sem tengjast notkun þinni á greiðsluþjónustunni og (b) samræma allar færsluupplýsingar sem tengjast notkun þinni á greiðsluþjónustunni. Ef þú verður var við einhverjar villur eða óheimilar færslur er mikilvægt að þú hafir tafarlaust samband við okkur.
9. Bönn og takmarkanir
9.1 Þú verður að fylgja öllum gildandi lögum og mátt aðeins samþykkja kort fyrir færslur sem eru leyfðar samkvæmt gildandi lögum. Auk annarra skuldbindinga, hafta og takmarkana sem tilgreind eru í þessum greiðsluskilmálum samþykkir þú að gera ekki eftirfarandi:
(a) setja lágmarksverð fyrir kortaviðtöku;
(b) innheimta viðbótargjöld fyrir kortanotkun nema gildandi lög og reglur greiðsluþjónustukerfis leyfi það;
(c) nota kortainneign til fyrirframgreiðslu í reiðufé,
(d) nota greiðsluþjónustuna utan þess lands þar sem fyrirtækið þitt er skráð (nema þú hafir heimild til þess);
(e) mismuna kortum nema gildandi lög og/eða reglur greiðsluþjónustukerfis leyfi slíkt;
(f) vinna úr færslum sem ekki eru vegna sölu á vörum þínum eða þjónustu;
(g) vinna úr þekktum eða grunuðum sviksamlegum færslum,
(h) vera milliliður eða söfnunaraðili fyrir greiðsluþjónustuna;
(i) vinna úr færslum til að endurfjármagna skuldbindingar viðskiptavinar,
(j) biðja viðskiptavini um að afsala sér rétti til andmæla,
(k) biðja viðskiptavini um að gefa upp PIN-númer;
(l) prenta PIN-númer eða kortanúmer á kvittunum;
(m) vinna úr stökum kaupum sem mörgum færslum;
(n) endurgreiða færslur á kort sem var ekki notað í upphafi til að framkvæma slíkar færslur; eða
(o) hunsa val á kortakerfi fyrir færslur gerðar með vörumerkjatengingu á milli korta.
9.2 Með því að samþykkja þessa greiðsluskilmála samþykkir þú að nota ekki greiðsluþjónustuna til að samþykkja færslur tengdar fyrirtækjum sem gætu haft neikvæð áhrif á ímynd okkar eða rekstrarstöðu.
9.3 Við áskiljum okkur rétt til að hafna heimild eða halda eftir útborgun vegna allra viðskipta sem þú sendir inn ef við teljum að þau brjóti í bága við þessa greiðsluskilmála eða aðra samninga við Teya, eða skapi áhættu fyrir þig, viðskiptavini þína, aðra viðskiptavini Teya, vinnsluaðila okkar eða Teya-fyrirtæki. Þetta á einnig við um aðstæður eins og svik og ólöglegt athæfi, þar á meðal að leggja fram færsluupplýsingar sem þú hefðir átt að vita að brjóta gegn gildandi lögum.
9.4 Þú viðurkennir að rétt notkun öryggisráðstafana getur komið í veg fyrir svik og samþykkir hugsanlega ábyrgð þína á sviksamlegum viðskiptum sem eiga sér stað vegna þess að ekki var gripið til slíkra ráðstafana. Enn fremur samþykkir þú að innleiða viðeigandi öryggisráðstafanir til að vinna úr færslum, svo sem að krefjast þess að viðskiptavinir noti örflögutækni og PIN-númer, og að útvega örugga staðsetningu fyrir innslátt á PIN-númerum. Þú mátt ekki óska eftir undirskriftum eða öðrum auðkennisleiðum í stað PIN-númera.
10. Reglur greiðsluþjónustukerfis og greiðslumátar
10.1 Greiðsluþjónustan fellur undir reglur greiðsluþjónustukerfa og gæti einnig verið með viðbótarskilmála fyrir greiðslumáta. Reglur greiðsluþjónustukerfisins og skilmálar fyrir greiðslumáta teljast hluti af samningi þínum við okkur. Almenningur getur fengið aðgang að stórum hluta af reglum greiðsluþjónustukerfanna á eftirtöldum vefsvæðum:
(a) http://www.visa.com;
(b) http://www.mastercard.com; og
(c) http://www.americanexpress.com/merchantopguide.
10.2 Í greiðsluskilmálunum geta verið nokkrir sértækir skilmálar fyrir greiðslumáta sem hægt er að skoða undir hlutanum „viðbótarskilmálar“ og teljast vera hluti af þessum heildargreiðsluskilmálum:
10.3 Þú samþykkir að fara að reglum greiðsluþjónustukerfanna og skilmálum greiðslumáta sem hafa forgang fram yfir þessa greiðsluskilmála, með tilliti til tengds greiðslumáta, komi til ágreinings. Ef ákvæði þessara greiðsluskilmála stangast á við reglur greiðsluþjónustukerfa / skilmála um greiðslumáta verður eftirfarandi forgangi fylgt: (i) reglur greiðsluþjónustukerfa, (ii) skilmálar um greiðslumáta og (iii) þessir greiðsluskilmálar, nema annað sé tekið fram í sérstökum skilmálum um greiðslumáta.
10.4 Við getum breytt og/eða hætt að nota tiltæka greiðslumáta hvenær sem er og reglur greiðsluþjónustukerfa og skilmálar greiðslumáta gætu einnig verið uppfærðir reglulega. Þessar breytingar geta verið gerðar af okkur eða greiðsluþjónustukerfunum, án fyrirvara (að því marki sem gildandi lög leyfa), en við munum leitast við að láta þig vita fyrirfram. Með því að halda áfram að nota viðkomandi greiðslumáta staðfestir þú að þú samþykkir þessar breytingar.
10.5 Við áskiljum okkur rétt til að breyta þessum greiðsluskilmálum án fyrirvara að því marki sem gildandi lög leyfa, ef greiðsluþjónustukerfin krefjast þess, til að fylgja reglum greiðsluþjónustukerfanna eða bregðast við breytingum á greiðsluþjónustunni.
10.6 Greiðsluþjónustukerfin halda réttinum til að framfylgja öllum þáttum af reglum greiðsluþjónustukerfanna og banna allar aðgerðir sem geta skaðað eða stofnað greiðsluþjónustukerfunum í hættu, svo sem valdið skaða á orðspori þeirra eða heilindum millibankakerfisins, eða stefnt trúnaðarupplýsingum í hættu. Þú samþykkir að hafa ekki áhrif á nýtingu greiðsluþjónustukerfanna á þessum rétti og að aðstoða Teya við að bregðast við öryggisbrotum sem tengjast verndun trúnaðargagna.
10.7 Í samræmi við reglur greiðsluþjónustukerfanna er notkun þín á merkjum sem tilheyra greiðsluþjónustukerfunum háð viðeigandi leiðbeiningarreglum þeirra. Það er því á þína ábyrgð að kynna þér vel þessar kröfur og fylgja þeim eftir öllum stundum. Eignarhald greiðsluþjónustukerfanna á þessum merkjum er óbreytanlegt og eingöngu í þeirra eigu. Þú skuldbindur þig til að véfengja ekki þetta eignarhald á nokkurn hátt og skilur að greiðsluþjónustukerfin geta, að eigin ákvörðun, bannað notkun þína á merkjunum án fyrirvara og af hvaða ástæðu sem er.
10.8 Til að tryggja að farið sé að reglum greiðsluþjónustukerfisins áskiljum við okkur enn fremur rétt til að óska eftir breytingum á vefsvæðinu þínu eða öðru auglýsingaefni, þar á meðal notkun á merkjum greiðsluþjónustukerfa.
11. Skyldur þínar
11.1 Þú samþykkir að fylgja öllum leiðbeiningum frá okkur varðandi samþykki og heimild fyrir greiðslufærslum. Þú verður að tryggja að allir starfsmenn og viðurkenndir fulltrúar sem sjá um greiðslufærslur fyrir þína hönd þekki þessa greiðsluskilmála og hafi fengið viðeigandi þjálfun.
11.2 Þú samþykkir enn fremur að taka ekki við neinum færslum sem gerðar eru með greiðslukorti þar sem útliti er ábótavant, sem virðist hafa verið átt við eða sem er útrunnið.
11.3 Þú berð ábyrgð á því að fara yfir færsluskrána þína og endurgreiða viðkomandi korthafa greiðslur sem gerðar voru fyrir mistök eða ofgreiddar fjárhæðir án tafar.
11.4 Þú samþykkir að veita nákvæmar og sannar lýsingar á öllum greiðslufærslum sem unnar eru í gegnum greiðsluþjónustuna. Lýsingarnar verða að endurspegla nákvæmlega þær vörur og/eða þjónustu sem verið er að kaupa. Þú verður einnig að framvísa kvittun fyrir greiðslunni til viðskiptavinarins ef gildandi lög eða reglur greiðsluþjónustukerfis krefjast þess.
11.5 Þú berð ábyrgð á því að fara tafarlaust yfir öll yfirlit sem við leggjum fram, svo sem reikninga eða útborgunaryfirlit, sem og færslur, þ.m.t. endurkröfur, bakfærslur eða aðrar greiðslur eða gjöld til þín eða korthafa. Ef þú telur að eitthvert yfirlit eða færslur séu rangar eða ófullnægjandi verður þú að andmæla án tafar. Sé þetta ekki gert tímanlega telst það samþykkt nema mistökin hafi verið gerð af okkur. Ef villa var gerð hjá okkur verður þú að láta okkur vita tafarlaust og ekki síðar en 13 mánuðum frá því að greiðslan var skuldfærð.
11.6 Í þeim tilvikum þar sem þú hefur ákveðið að samþykkja aðeins tiltekin kort eða aðra greiðslumiðla greiðsluþjónustukerfis er þér skylt að tilkynna viðskiptavinum um það á skýran og ótvíræðan hátt um leið og þú upplýsir viðskiptavini um viðtöku annarra korta og greiðslumiðla viðkomandi greiðsluþjónustukerfis. Við kortafærslur á staðnum verður að sýna þessar upplýsingar greinilega við inngang og afgreiðsluborð fyrirtækisins en við kortalausar færslur eða fjarsölu skal sýna þær á vefsvæðinu eða öðru viðkomandi rafrænu kerfi eða farsímakerfi. Veita þarf viðskiptavininum upplýsingarnar tímanlega áður en hann gerir kaupsamning við þig.
11.7 Þú berð fulla ábyrgð á að tryggja og viðhalda viðeigandi sölukerfi og/eða greiðsluposa á eigin kostnað nema annað sé tekið fram og samþykkt af okkur. Þetta er gert til að hægt sé að samþykkja kort sem greiðsluleið og til að uppfylla skuldbindingarnar sem lýst er í þessum greiðsluskilmálum.
11.8 Komist upp atvik sem gera Teya ókleift að efna skyldur sínar samkvæmt þessum greiðsluskilmálum, þ.m.t. en ekki takmarkað við vandamál tengd bankareikningum þínum, ber þér skylda til að tilkynna Teya tafarlaust um slík atvik og um leið og þau falla úr gildi.
11.9 Þegar við útvegum vélbúnað Teya til leigu samþykkir þú að skila slíkum búnaði til okkar tafarlaust og eigi síðar en fimm (5) dögum eftir að þessir greiðsluskilmálum falla úr gildi. Ef þú vanrækir þetta áskiljum við okkur rétt til að innheimta fullan kostnað fyrir viðkomandi Teya-vélbúnað.
13. Endurgreiðslur og skil
13.1 Allar beiðnir um endurgreiðslu eða leiðréttingar á vörum eða þjónustu sem skilað er verða að berast í gegnum greiðsluþjónustuna í samræmi við þessa greiðsluskilmála og viðeigandi reglum greiðsluþjónustukerfis. Ábyrgðin á því að taka við og meðhöndla skil á vörum þínum eða þjónustu er eingöngu þín. Endurgreiðslur og leiðréttingar vegna kortafærslna verða að fara fram á korti viðskiptavinarins. Þú samþykkir að:
(a) vera með sanngjarnar reglur um skil, afbókun eða leiðréttingar;
(b) upplýsa viðskiptavini um reglur þínar varðandi skil eða afbókun þegar kaup fara fram;
(c) endurgreiða viðskiptavinum ekki í reiðufé vegna kortafærslna nema lög krefjist þess; og
(d) taka ekki við reiðufé eða annars konar greiðslum fyrir að vinna úr endurgreiðslu vegna kortafærslu.
13.2 Enn fremur viðurkennir þú og samþykkir að viðskiptavinur geti átt rétt á fullri endurgreiðslu frá greiðslumiðlun sinni vegna allra heimilaðra viðskipta sem þú hefur stofnað til samkvæmt eftirfarandi skilyrðum:
(a) heimildin tilgreindi ekki nákvæma færslufjárhæð þegar heimildin var veitt; og
(b) færslufjárhæðin er hærri en viðskiptavinurinn gat með góðu móti búist við miðað við fyrri útgjaldavenjur, skilyrði heimildarinnar og sérstakar aðstæður.
13.3 Til að vinna úr endurgreiðslu í gegnum greiðsluþjónustuna verður fjárhæðin að samsvara nákvæmri heildarfjárhæð upphaflegu færslunnar, með sköttum og umsýslugjöldum. Endurgreiðslur mega ekki vera hærri en upphafleg sölufjárhæð, að undanskilinni endurgreiðslu á sendingarkostnaði sem viðskiptavinur stofnar til vegna vöruskila.
13.4 Ef unnið er úr endurgreiðslu drögum við endurgreiðslufjárhæðina (að meðtöldum tengdum gjöldum) frá þeim fjármunum sem þú átt inni vegna fyrri eða síðari viðskipta. Ef ekki eru nægir fjármunir fyrir hendi ber okkur ekki skylda til að vinna úr endurgreiðslunni. Ef unnið er úr endurgreiðslunni þrátt fyrir þetta og hún leiðir til neikvæðrar stöðu á söluaðilaauðkenni þínu samþykkir þú að endurgreiða samstundis alla fjármuni sem þú skuldar okkur samkvæmt beiðni. Vinsamlega athugaðu að gjöld vegna endurgreiðslunnar fást ekki endurgreidd. Þú átt ekki rétt á endurgreiðslu á neinum gjöldum eða öðrum fjárhæðum sem greiddar eru eða greiða ber til Teya vegna upphaflegu viðskiptanna sem verið er að endurgreiða.
13.5 Teya áskilur sér rétt til að fresta eða setja takmarkanir á möguleika þína á endurgreiðslu í gegnum greiðsluþjónustu Teya hvenær sem er.
14. Endurkröfur
14.1 Í sumum tilvikum kann færsla að vera endurkrafin og skuldfærð aftur á söluaðilaauðkenni. Þetta getur gerst ef:
(a) viðskiptavinurinn hefur ekki heimild til að nota kortið eða greiðslumátann;
(b) viðskiptin eru véfengd af viðskiptavininum;
(c) viðskiptin eru afturkölluð af hvaða ástæðu sem er af viðkomandi greiðsluþjónustukerfi, viðskiptavini eða öðrum aðila sem hefur heimild til að framkvæma slíka afturköllun;
(d) útgáfubankar korthafa krefjast þess að viðskiptin séu bakfærð eða afturkölluð; eða (e) við höfum ástæðu til að ætla að færslan hafi ekki verið heimiluð, ólögleg, grunsamleg eða brjóti í bága við þessa greiðsluskilmála.
14.2 Ef um endurkröfu er að ræða verður þú að fylgja endurkröfuferlinu og taka á þig ábyrgð á öllum skuldum sem af því leiðir og þarf að greiða okkur tafarlaust.
14.3 Ef til endurkröfu kemur áskiljum við okkur rétt til að grípa til ýmissa ráðstafana til að endurheimta tengda fjármuni, þar á meðal en ekki takmarkað við, að halda eftir endurkröfufjárhæðinni í varasjóði. Við gætum einnig endurheimt fjárhæð endurkröfunnar, sem og öll gjöld sektir eða viðurlög sem greiðsluþjónustukerfi leggur á, af söluauðkenni þínu, þar á meðal úr varasjóðinum, öllum útborgunum til þín, útborgunarreikningi eða greiðsluleið sem tengist söluaðilaauðkenni þínu. Ef endurkröfur eru í bið gætum við frestað útborgunum á útborgunarreikning þinn.
14.4 Ef við höfum rökstudda ástæðu til að ætla að endurkrafa sé líkleg getum við enn fremur haldið eftir mögulegri endurkröfufjárhæð af útborgunum til þín tímabundið þar til:
(a) endurkrafa er ákvörðuð vegna kvörtunar viðskiptavinar og í því tilviki munum við geyma fjármunina;
(b) frestur viðskiptavinar til að andmæla viðskiptunum samkvæmt gildandi lögum eða reglugerðum er liðinn; eða
(c) við komumst að þeirri niðurstöðu að endurkrafa á viðskiptunum muni ekki eiga sér stað.
14.5 Ef við getum ekki endurheimt fjármuni sem tengjast endurkröfu sem þú berð ábyrgð á samþykkir þú að greiða alla upphæð endurkröfunnar þegar gerð er krafa um það. Auk þess samþykkir þú að standa straum af öllum kostnaði og útgjöldum, þar á meðal, en ekki takmarkað við, lögfræðikostnaði og málskostnaði, sem við stofnum til við innheimtu á skuldum þínum.
14.6 Ef þú stofnar til óhóflegs fjölda endurkrafna áskiljum við okkur rétt til að setja frekari skilyrði á söluaðilaauðkenni þitt, sem geta falið í sér, en takmarkast ekki við, eftirfarandi:
(a) að leggja á ný gjöld;
(b) að koma á varasjóði til að standa straum af væntanlegum endurkröfum og tengdum gjöldum;
(c) að fresta útborgunum; og/eða
(d) að segja upp þessum greiðsluskilmálum eða stöðva greiðsluþjónustuna tímabundið.
14.7 Sem skilyrði fyrir notkun á greiðsluþjónustunni samþykkir þú að veita fullt samstarf, á eigin kostnað, í öllum rannsóknum sem við gætum hafið á færslum þínum sem unnar eru í gegnum greiðsluþjónustuna. Ef endurkrafa er réttilega véfengd munum við millifæra viðkomandi frátekna fjármuni aftur á útborgunarreikninginn þinn. Ef greiðsluþjónustukerfi eða kortaútgefandi leysir hins vegar ekki úr deilumálinu þér í hag eða þú kýst að andmæla ekki endurkröfunni áskiljum við okkur rétt til að endurheimta fjárhæð endurkröfunnar og öll tengd gjöld frá þér.
14.8 Brýnt er að gera sér grein fyrir því að tafir af þinni hálfu við að aðstoða okkur meðan á rannsókn stendur, þar með talið á afhendingu nauðsynlegra gagna, geta leitt til óafturkræfrar endurkröfu. Þú viðurkennir að þú munir ekki reikningsfæra eða innheimta greiðslu með öðrum hætti frá neinum viðskiptavini vegna kaupa eða greiðslu, nema réttur til endurkröfu hafi verið nýttur og þú hafir lagalegan rétt til þess.
14.9 Umreikningur fjárhæða endurkröfu sem mótteknar eru í öðrum gjaldmiðli en útborgunargjaldmiðli fyrir söluaðilaauðkenni mun eiga sér stað á þeim degi sem Teya fær endurkröfuna. Þú berð ábyrgð á gengismun sem gæti annaðhvort lækkað eða hækkað uppgjörsupphæðina í viðeigandi uppgjörsgjaldmiðli.
15. Öryggi og PCI-reglufylgni
15.1 Ef við greinum hugsanlega eða raunverulega sviksamlega virkni eða öryggisógnir munum við tilkynna þér það með öruggum hætti. Ef þér berast samskipti sem samræmast ekki þessu örugga ferli biðjum við þig um að tilkynna okkur það tafarlaust í gegnum þjónustuver Teya.
15.2 Ef þú tekur þátt í geymslu, vinnslu eða sendingu gagna viðskiptavina þarftu að fylgja gagnaöryggisstöðlum greiðslukortaiðnaðarins (PCI-DSS) sem og öllum viðbótarkröfum sem tilgreindar eru í reglum greiðsluþjónustukerfis. Ef réttarrannsókn á sér stað samþykkir þú að veita samvinnu samkvæmt beiðni okkar.
16. Frekari skaðleysistrygging, fyrirsvar og ábyrgð
16.1 Til viðbótar við skaðabótaákvæðin sem lýst er í almennum skilmálum Teya samþykkir þú að bæta skaða, verja og fría okkur og vinnsluaðila okkar (sem og starfsmönnum þeirra, stjórnendum, umboðsmönnum, samstarfsaðilum og fulltrúum) frá ábyrgð og gegn öllum kröfum, kostnaði, tapi, tjóni, dómum, skattaálagningu, viðurlögum, vöxtum og útgjöldum (þ.m.t. sanngjörnum lögfræðikostnaði) sem kunna að rísa vegna kröfu, aðgerða, endurskoðunar, rannsóknar, athugunar eða málaferla sem stofnað er til af þriðja aðila og sem tengjast eða leiða af einhverjum viðskiptum sem þú sendir í gegnum greiðsluþjónustuna (þ.m.t., en ekki takmarkað við, nákvæmni hvers kyns efnis eða upplýsinga sem þú veitir varðandi vöru, þjónustu eða viðskipti, eða hvers kyns kröfur eða ágreining vegna vara eða þjónustu sem þú býður eða selur), þ.m.t. sektir eða mat vegna þess að ekki var farið að reglum greiðsluþjónustukerfisins eða öðrum reglugerðum.
16.2 Til viðbótar við yfirlýsingar og ábyrgðir sem lýst er í almennum skilmálum Teya, lætur þú okkur í té eftirfarandi yfirlýsingar, ábyrgðir fyrir hverja færslu sem fer í gegnum greiðsluþjónustuna:
(a) viðskiptin eru lögmæt sala;
(b) lýsing á vörum og/eða þjónustu sem viðskiptavinurinn fær er rétt;
(c) þú uppfyllir allar skyldur gagnvart viðskiptavininum og tekur á ágreiningi eða kvörtunum beint við hann;
(d) fyrirtæki þitt og viðskiptin eru í samræmi við öll gildandi lög;
(e) þú tekur ekki þátt í viðskiptum sem fela í sér sölu til umbjóðanda, samstarfsaðila, rétthafa eða eiganda stofnunar þinnar eða fyrirtækis, nema í eðlilegu viðskiptaferli; og
(f) þú vinnur ekki úr færslum sem tengjast þínum eigin kortum.
17. Þjónusta þriðju aðila
17.1 Þegar þjónusta okkar er veitt í samstarfi við þriðja aðila í gegnum farsímaforrit þeirra, vefsvæði eða annan hugbúnað munu viðskipti þín við þann þriðja aðila stjórnast af sérstökum samningi milli þín og þeirra. Eina ábyrgð okkar liggur í greiðsluþjónustunni sem við bjóðum upp á sem hluta af þjónustu þriðja aðila. Við berum enga ábyrgð á rekstri þjónustu þriðja aðila. Ef þú og þriðji aðilinn komið ykkur saman um það getum við einnig innheimt gjöld fyrir þeirra hönd.
17.2 Þegar Teya innheimtir gjöld fyrir hönd þriðja aðila, starfar Teya eingöngu sem milliliður og ber ekki ábyrgð á ákvörðun, stjórnun eða framkvæmd skilmála sem tengjast þeim gjöldum. Allar kröfur, ágreiningsmál eða önnur atriði varðandi innheimtu gjalda, þ.m.t. ágreiningur um fjárhæðir, skilmála eða beiðnir um endurgreiðslu, skulu beint eingöngu til viðkomandi þriðja aðila. Teya afsalar sér allri ábyrgð á slíkum kröfum og mun ekki starfa sem milligönguaðili í tengslum við ágreining sem tengist innheimtu þessara gjalda.
18. Gagnvirk gjaldmiðlaskipti
18.1 Sérstakir skilmálar vegna myntvals, sem settir eru fram hér að neðan, gilda að því marki sem myntval er virkjað fyrir þinn rekstur. Ef hæfur viðskiptavinur velur myntval til greiðslu í gjaldmiðli viðskiptavinar í stað innlends gjaldmiðils á eftirfarandi við um hverja DCC-færslu:
(a) kostnaður viðkomandi vöru eða þjónustu verður umreiknaður í samsvarandi gjaldmiðil korts viðskiptavinarins á þeim tíma sem viðskiptin eiga sér stað. Þetta er gert með því að nota myntvalsgengi sem þjónusta í tengslum við erlendan gjaldeyri lét okkur í té á viðskiptadeginum, til viðbótar við myntvalsgjald eins og það er ákvarðað af okkur. Við áskiljum okkur rétt til að ákveða hvort einhverjum hluta þessa myntvalsgjalds verði deilt með þér, og að því marki sem slíkri þóknun er deilt, verður hlutfall þóknunarinnar nánar lýst í tilkynningu; og
(b) myntvalsgengið sem notað er fyrir hverja færslu verður notað fyrir allar endurkröfur eða endurgreiðslur sem tengjast þeirri færslu.
18.2 Mikilvægt er að gera grein fyrir því að Teya hefur rétt til að breyta þjónustu í tengslum við erlendan gjaldeyri hvenær sem er, án þess að gerð sé krafa um fyrirframtilkynningu.
18.3 Ábyrgð þín felst í:
(a) að tryggja að starfsfólk þitt fái fullnægjandi þjálfun varðandi notkun hæfra viðskiptavina á myntvali og að upplýsa starfsfólk þitt um allar breytingar á myntvali;
(b) að forðast að gefa vísvitandi rangar upplýsingar um einhvern þátt eða eiginleika myntvals; og
(c) að hlíta ákvæðum notkunarleiðbeininga viðskiptavinarins og reglna greiðsluþjónustukerfis sem tengjast veitingu myntvals.
19. Raðgreiðsluvefur
19.1.Þú getur óskað eftir því að bjóða korthöfum upp á neytendalán á vegum Teya. Hafi Teya samþykkt slíka umsókn er þér heimilt að bjóða þjónustuna í gegnum raðgreiðsluvef Teya. Neytendalán getur ýmist borið vexti eða verið vaxtalaust. Bjóðir þú upp á vaxtalaus lán berðu ábyrgð á greiðslu vaxta til Teya. Hafir þú fengið aðgang að raðgreiðsluvef skuldbindur þú til að fara í einu og öllu að þessum greiðsluskilmálum um vefinn. Teya lætur þig fá notandanafn og aðgangsorð að raðgreiðsluvef Teya. Notkun aðgangsheimilda er alfarið á ábyrgð þinni.
19.2.Þér ber að ganga úr skugga um að lántaki sé réttmætur korthafi þess korts sem lán er skráð á. Teya er heimilt að endurkrefja þig um fjárhæð láns ef í ljós kemur að um falsaða undirritun á lánssamningi er að ræða, lántaki er ekki réttmætur korthafi, vara eða þjónusta er ekki afhent eða ef þú eða starfsmaður á þínum vegum hafa ekki fylgt greiðsluskilmálum þessum. Kjósir þú að veita viðskiptavinum þínum lán með rafrænum hætti, án undirskriftar lántakanda berð þú ábyrgð á þeim lánssamningum sem ágreiningur rís um.
19.3. Þér er óheimilt að stofna neytendalán vegna annarrar tegundar viðskipta en varða þinn flokkskóða (MCC).
19.4. Undir engum kringumstæðum mátt þú endurgreiða lán beint til korthafa heldur skal lán endurgreitt til Teya sem sér um að gera upp við korthafa.
19.5. Teya sér ekki um milligöngu né tekur ábyrgð vegna ágreinings sem kann að rísa á milli þín og korthafa vegna gæða vöru eða þjónustu sem greitt er fyrir með neytendaláni. Korthafi skal snúa sér beint til þín vegna slíkra mála. Sé ágreiningur um lögmæti láns berð þú, en ekki Teya , ábyrgð á því tjóni sem hlýst vegna þess. 19.6. Teya er heimilt að loka fyrir raðgreiðsluvef ef annað hvort þú eða Teya hefur sagt upp/rift þessum greiðsluskilmálum.
20. Kvartanir, gildandi lög og ágreiningur
20.1 Komi upp óánægja með greiðsluþjónustuna biðjum við þig vinsamlegast um að beina kvörtun þinni til þjónustuvers okkar. Kvörtunarferli okkar verður notað fyrir allar kvartanir sem berast.
20.2 Innan fimmtán (15) virkra daga frá móttöku kvörtunarinnar verður ítarlegt svar sent í tölvupósti. Í undantekningartilvikum, þegar ekki er hægt að gefa ítarlegt svar, verður útskýring gefin á töfinni og tilkynnt um áætlaða tímasetningu fyrir ítarlegt svar, þó ekki meira en átta (8) vikum frá því að kvörtunin barst.
20.3 Ef úrlausn okkar uppfyllir ekki væntingar þínar má vísa kvörtuninni til Úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Frekari upplýsingar um nefndina er að finna á https://nefndir.is/fjarmala/#. Frekari upplýsingar er einnig að finna í hjálparmiðstöð Teya.
20.4 Þessir greiðsluskilmálar falla undir og skulu lúta íslenskum lögum án tillits til reglna um lagaskil. Að því marki sem íslensk lög stangast á við lög búsetulands þíns skulu íslensk lög gilda að því marki sem unnt er.
20.5 Með fyrirvara um framangreint og að því marki sem gildandi lög leyfa, skulu deilur sem upp kunna að koma vegna eða í tengslum við þessa greiðsluskilmála, eða efni þeirra eða uppsetningu, leystar fyrir héraðsdómi Reykjavíkur. Þrátt fyrir ofangreint áskilur Teya sér rétt til að leggja fram kröfur af hvaða toga sem er (þ.m.t. lögbann) á hendur þér í lögsagnarumdæmi þínu, þar sem þú hefur lögheimili eða á annan hátt staðsett(ur) eða öðru viðeigandi lögsagnarumdæmi. Til að taka af allan vafa skal lögbann fela í sér eftirfarandi, án þess að takmarkast við: (i) aðför, (ii) tímabundið lögbann eða (iii) svipuð úrræði.
21. Almennar upplýsingar
21.1 Til að taka af allan vafa skulu ákvæði um almenna skilmála, sem ekki er fjallað um í þessum greiðsluskilmálum, meðal annars hugverkarétt, gögn, skatta, takmörkun ábyrgðar, ábyrgðir, sjálfstæði einstakra greina og óviðráðanleg atvik, falla undir almenna skilmála Teya.
Viðbótarskilmálar
22. Skilmálar American Express
22.1 Ákvæðin sem sett eru fram í þessum hluta eiga við um þig að því marki sem þú hefur virkjað American Express sem greiðslumáta fyrir söluaðilaauðkenni þitt.
22.2 Þú samþykkir:
(a) að taka ekki þátt í neinni markaðssetningu eða kynningarstarfsemi sem hefur skaðleg áhrif á rekstur American Express eða vörumerkið American Express og ef þessum greiðsluskilmálum er sagt upp að fjarlægja öll auðkenni American Express, kennimerki og merkingar af húsnæði þínu og/eða vefsvæði án tafar;
(b) að fylgja notkunarstefnu American Express um gagnaöryggi sem kann að verða breytt öðru hvoru;
(c) að greina frá reglum þínum um endurgreiðslu þegar kaup fara fram og í samræmi við gildandi lög;
(d) að láta ekki líða meira en sjö (7) daga frá viðtöku upprunalegs heimildarkóða þar til annar heimildarkóði er fenginn, áður en pöntun er send eða afgreidd, þegar um er að ræða kortalausar færslur;
(e) að viðhalda upplýsingum um þjónustu við viðskiptavini sem eru aðgengilegar til skoðunar fyrir viðskiptavini þína og ættu að innihalda að lágmarki tölvupóstfang og símanúmer þjónustuversins;
(f) að gefa til kynna að þú samþykkir American Express kort í hvert sinn sem þú greinir viðskiptavinum frá greiðslumátunum sem þú samþykkir og birtir merki American Express í samræmi við leiðbeiningar American Express;
(g) að gagnrýna ekki eða rangtúlka American Express kortið eða nokkra þjónustu eða kerfi American Express;
(h) að nota ekki American Express kortið til að sannreyna aldur viðskiptavinar;
(i) fyrir færslur sem tengjast þjónustustarfsemi, að vinna ekki úr slíkum færslum á American Express korti fyrr en eftir að þjónustan hefur verið veitt; og
(j) að því marki sem þú starfar í ferðaþjónustu, að þú hafi sett þér stefnu um aðgerðir gegn nútímaþrælkun og mansali.
Say goodbye to payment hassles and hello to newfound efficiency! Whether you're an individual, small business owner, or corporation, Teya is your dependable partner for secure and efficient payment solutions.
The terms and conditions set out here, including referenced policies, guidelines, instructions, and any other documents identified from time to time (“Payment Terms”, also referred to as “Additional Terms”) govern your use of our payment processing services, as well as any other services provided under these Payment Terms as indicated under section 2 at any given time (“Payment Services”).
When you use our Payment Services, you also agree to the Teya General Terms and the Data Processing Addendum, which are incorporated into these Payment Terms by reference, including any amendments made from time to time. If you do not understand any provisions of these Payment Terms, please contact us before using our Payment Services.
Unless otherwise defined herein, capitalised terms have the same meaning as in the Teya General Terms. To the extent that there is a conflict between these Payment Terms and the terms referenced above, these Payment Terms will prevail.
For information about how we treat your information, please see our Privacy Policy.
If any clauses of these Payment Terms seem unclear, you have inquiries about our Payment Services, or you wish to obtain a free copy of these Payment Terms, please feel free to contact Teya Support at any time during the term of these Payment Terms. We are here to assist you at your convenience.
1. Definitions
"Blended Rate" means a fixed fee applied to Card payments, which includes all charges and fees imposed by card issuers, Networks, and Teya, without differentiation based on card category, brand, or country of issuance;
“Business Portal” means the online platform made available by Teya for managing Transactions, monitoring of Merchant ID(s) balance, and accessing reporting and other information related to the Payment Services;
"Card" refers to a payment card, such as a credit or debit card, that is accepted by the relevant Network for processing Transactions through the Payment Services;
“Card Issuer” means an entity, typically a financial institution, that issues credit or debit Cards to cardholders;
“Chargeback” means a dispute raised by a Customer with their credit or debit Card Issuer regarding a payment Transaction;
“Customer Currency” means the currency in which eligible DCC Customers receive Card statements from a Card Issuer;
“Currency Conversion Fee” means an additional fee applied during the conversion of a Transaction's price from the Domestic Currency to the Customer Currency in a Dynamic Currency Conversion (DCC) Transaction. It is added to the DCC Exchange Rate and set by us.
"DCC Exchange Rate" means the foreign exchange rate we receive from our designated service provider for the purpose of DCC Transactions;
“Domestic Currency” means the currency used to typically quote the prices of goods or services offered to Customers in any given Transaction;
"Dynamic Currency Conversion (DCC)" means a feature that allows a Customer to carry out a Transaction in their Card's currency, rather than the currency of the jurisdiction where you are located;
"Interchange Fee” means a fee charged by a Card Issuer for processing a Transaction that is paid by Teya or a third party on behalf of Teya and is reimbursed by you;
“Mark(s)” means a recognizable symbol, design, or expression that identifies a specific brand, product, or service. This includes logos, service marks, design marks, and stylized scripts;
“Merchant Activity" means the summary of your transactional profile, capturing your Card processing volume, Payment Method variety, and global transaction distribution;
"Merchant ID(s)" means your distinct account number(s) set up by us to access the Payment Services in accordance with these Payment Terms;
“MOTO” means a payment solution, in which Customers share their Card details via mail, phone, or digitally, allowing Transactions to take place without the Customer or their Card being physically present;
“Network Fees” means the fees imposed by the Networks on Card-based transactions which are reasonably determined by Teya on a periodic basis. Details of the prevailing Network Fees shall be made available in case of Unblended Rates via the Business Portal;
“Network Rules” mean the guidelines, bylaws, and regulations set by a Network detailing how a Payment Method can be accepted and utilised;
"Pay By Link" means a payment solution wherein the merchant generates a unique link for a particular Transaction;
“Payment Method Terms” means the additional terms that apply to a specific Payment Method and can be found or accessed on Teya’s website;
“Payout” means the sum owed to you from completed Transactions, after subtracting our Fees and accounting for any Refunds, Chargebacks, Reversals, set-offs, or other amounts owed to us;
"Payout Account" means the bank account designated by you to receive the funds from processed Transactions;
“PCI-DSS” means the Payment Card Industry Data Security Standards;
"Refund" means your initiation of a request for a full or partial return of funds to a Customer for a completed Transaction;
“Reversal” means cancellation of the settlement of funds for a completed Transaction;
“Teya” means Teya Iceland hf. (company number: 4406861259), registered at Katrínartún 4, 105 Reykjavík. Teya Iceland hf. is authorised by the Financial Supervisority Authority of the Central Bank in Iceland, and is authorized to provide, i.a., payment services and issuing of electronic money;
"Unblended Rates" means a pricing structure in which the fees and charges applied by Card Issuers, Networks, and Teya vary based on specific factors. These factors may include the Merchant Category Code (MCC) assigned to your business, the type of Card being used (such as credit or debit), the country of issuance of the Card, and the brand of the Card being accepted. In this pricing structure, the fees associated with each transaction may differ and are not bundled together into a single fixed fee;
2. The Payment Services
2.1 Our Payment Services allow you to accept and process payments from your Customers using various methods, such as credit and debit Card Transactions, contactless smartphone Transactions, online Transactions and Pay By Link. Specific terms related to these services are outlined in the 'Supplementary Terms' section. Please note that some services may require activation, which is at our discretion.
2.2 Through the Payment Services, we help you process payment Transactions from your Customers. The funds received from these Transactions will be credited to you after deducting any Fees, Chargebacks, Reversals, Claims, Refund or any other amounts owed to us or another company within the Teya Group. The settled funds will be deposited into your Payout Account.
2.3 You authorise and instruct us to receive, manage, and distribute funds in line with these Payment Terms on your behalf. This authorisation will remain valid until either you or we terminate these Payment Terms.
2.4 By registering for the Payment Services, you give us the authority and direction to conduct credit evaluations, compliance checks, and other necessary verification processes. This may involve providing additional information and documentation to verify your identity and comply with anti-money laundering, counter-terrorism financing, and other regulatory requirements. These procedures are outlined in our Teya General Terms. Further, you acknowledge that the right to decide your eligibility for accessing and using the Payment Services rests solely with us and is subject to our discretion.
3. Information & access
3.1 In addition to the information provision obligations outlined in the Teya General Terms, it's imperative that you promptly notify us in writing of the following situations:
(a) actual or suspected breaches of security relating to your Merchant ID(s);
(b) loss, theft, misappropriation, or actual or suspected unauthorised use of your payment terminal(s) or any other systems, software, or hardware utilised for submitting Transactions to Teya;
(c) significant changes to your operations;
(d) any alterations in your business's authorised signatories;
(e) any changes in the beneficial ownership and/or ownership structure of your business; and
(f) any situations that may hinder your compliance to these Payment Terms.
3.2 Teya may ask for more information from you at any point. For instance, we might request invoices from your suppliers, invoices or receipts issued to your customers, government-issued identification like a passport or driver's license, a business license, bank statements, financial data, or other pertinent details. If you don't provide this information when asked, your Merchant ID(s) could be suspended or terminated.
3.3 Upon request by Teya, the Network, or any authority with jurisdiction over Teya, you are required to grant access to your Card acceptance equipment and systems to certification authorities and/or investigators. Furthermore, you allow Teya, the Networks, and/or any authority with jurisdiction over Teya to access your premises at any given time. This is applicable without the need for any prior notification, except in cases where prior notice is mandated by Applicable Law, with the intention of auditing your adherence to these Payment Terms.
4. Fees, Payout & Deductions
4.1 For the use of the Payment Services you agree to pay the Fees assessed and calculated by us in accordance with the:
(a) fee schedule available on our website;
(b) the Fees set out in a Notice (such as in your welcome email, and as amended from time to time); and/or
(c) otherwise agreed between you and Teya, all of which are incorporated into these Payment Terms by reference. Where applicable a combination of Fees from the aforementioned sources may be applied.
4.2 Teya offers two Fee structures for accepting Card Transactions through Teya’s Payment Services: Blended Rates and Unblended Rates. Eligibility for these rates is determined by us.
4.3 By agreeing to these Payment Terms, you opt for Blended Rates (unless otherwise agreed). You understand that you are getting one single Fee for Card Transactions, which covers all costs and fees charged by Card Issuers and Networks. This fee doesn't change based on categories, brands, or countries of issuance, even if the Interchange Fees vary. You also acknowledge and request that we don't provide detailed breakdowns of the distinct Network and Card Issuer fees, and we aren't obligated to present these details either under these Payment Terms or in any other context.
4.4 With respect to Blended Rates, you recognise that the underlying Interchange Fee and other card-related fees are determined by Teya, based either on the Merchant Activity data you supply or on business assumptions derived from your feedback. Should the real Merchant Activity substantially deviate from your provided data or feedback, we reserve the right to immediately adjust the Blended Rate accordingly, reflecting the current Merchant Activity attributes. This adjustment is due to, without limitation, specific transaction types, like those made with credit Cards issued outside of Europe for European businesses or business cards, incurring higher fees from the Networks compared to transactions with European-issued Cards.
4.5 If you choose Unblended Rates, subject to availability, you acknowledge and agree that the Network Fees and Interchange Fees can change, as set by Networks and Card Issuers. As a result, we may adjust those Network Fees and/or Interchange Fees without giving you advance notice.
4.6 Subject to any withholdings, Reserves, or any other events under these Payment Terms which allow Teya to delay Payouts, Teya strives to remit funds from processed Card Transactions that occur on a given Business Day to your Payout Account on the following Business Day (unless otherwise agreed, and in any case not a Business Day later than once Teya receives the funds from the relevant Networks). If the Transactions are received on a non-Business Day, the Payout will be initiated by Teya on the next Business Day, subject to the above. Please note that any relevant Fees for our Payment Services, as well as any other outstanding debts you have with us, will be subtracted from the Payout. For clarity, Teya:
(a) will not incur any obligation to pay interest on Transactions from the date they are submitted or on any funds Teya holds; and
(b) is not obliged to remit any Payouts until Teya receives the relevant funds from the Networks.
4.7 Unless we have agreed otherwise, your Payout currency will match the currency of your business's registered location.
4.8 Teya will deduct all Fees linked to your use of the Payment Services from your Payouts, including but not limited to:
(a) all Fees;
(b) any amounts due to a Chargeback and related fees;
(c) any processed Refunds;
(d) any additional charges or deductions that Teya is authorised to make under the Payment Terms, any other Additional Terms, or the Teya General Terms;
(e) any other amounts you owe to Teya under these Payment Terms or due to your violation of these Payment Terms, including those arising from actual or suspected illegitimate Transactions, currency conversion expenses, reimbursement of third-party processor fees, reimbursement of any fines and assessments (like those from the Networks), and indemnity or damages payments;
(f) any tax or governmental charges, including value-added tax, imposed on any amounts Teya has to pay you under these Payments, which Teya will charge to you and remit to the relevant authority; and
(g) adjustments in case of an incorrect Payout.
4.9 Fees tied to the processing of your Transactions become payable as soon as a Transaction is presented to Teya for processing. Any Fees connected to Chargebacks are payable the moment the Chargeback process is started. All other Fees are due when Teya provides the service, when Teya requests payment, or when Teya is otherwise entitled to payment in line with the stipulations of these Payment Terms.
5. Deferred Payouts, Reserve & Protective Measures
5.1 Teya can decide to delay or hold back Payouts at its discretion. Reasons for doing so may include, but are not limited to:
(a) if any Transactions appear suspicious or invalid, Teya can delay Payouts until we are confident about their authenticity;
(b) Payouts can be deferred if Teya, or any other authorised party or institution, has requested information from you in accordance with these Payment Terms. The Payout(s) will be delayed until the necessary information is adequately provided;
(c) if you breach these Payment Terms and/or Network Rules, Teya can delay Payout(s) until the breach is rectified and all ensuing liabilities are resolved by you;
(d) if there are suspicions of fraud or potential infringement of these Payment Terms and/or Network Rules, Teya can withhold payment until the completion of its investigation and when it's convinced of no fraud or infringement occurrence;
(e) in the presence of Chargebacks, Refunds, or any other actions that Teya deems could pose a financial risk, the release of Payout(s) may be held back until an investigation assures no imminent financial risk;
(f) if Teya reasonably anticipates that the Transaction amounts won't adequately cover your future obligations towards it, including any Fees, Chargebacks, or Refunds, it can defer Payout(s) until it's convinced of sufficient future coverage;
(g) if Teya has reason to believe you will not be able to meet your financial obligations towards Teya, we might pause Payouts until these concerns have been resolved;
(h) if any Network instructs or mandates, Teya can delay Payout(s) for the duration instructed or required by the relevant Network;
(i) circumstances relating to your inability to receive Payouts; and
(j) if Teya believes that it's prohibited by Applicable Law to make payment to you, it can delay Payout(s) until it's convinced that the Payout is lawful.
5.2 Teya can change or give more reasons for suspending Payouts if we get new information that makes this necessary.
5.3 You agree that we can use withheld Payouts to create a Reserve when we deem necessary. By agreeing, you give us a security interest in and lien on any funds held in the Reserve. This Reserve acts as a safeguard for our interests, and we can subtract any amounts you owe us under these Payment Terms, including any negative balance in associated with your Merchant ID(s), without having to notify you beforehand.
5.4 In the event that you owe an amount that exceeds the funds held in the Reserve, you agree to promptly, but no later than three (3) Business Days following our demand, remit the outstanding balance to us.
5.5 We may also deduct, recoup, or offset any Fees or other amounts owed by you under the provisions of these Payment Terms or any other agreements that may exist between you and us or any of our Affiliates (including any other Teya Company). This right may be exercised, without limitation, by deducting the relevant amounts from your Merchant ID(s) balance, Reserve, any Payouts that are due to you, or any other funds held by us that are payable to you.
5.6 To supplement the protective measures outlined in these Payment Terms, Teya, where legally permissible, has the authority to deduct from the Payout, Reserve, or any sums otherwise payable to you, against any debt you owe to any Teya Company under any contract. Should the amount you owe to any Teya Company surpass your Payout, Reserve, or any sums otherwise due to you, we retain the right to charge or debit a payment method linked to your Teya Account or any Services. Failing to pay the amounts you owe to Teya immediately upon request constitutes a breach of these Payment Terms. Furthermore, you'll be responsible for all costs we encounter during the debt recovery process, including but not limited to legal fees, collection agency fees, and any applicable interest.
6. Term & Termination
6.1 Unless otherwise agreed, these Payment Terms will continue to apply from the date they become effective until terminated by you or us.
6.2 As outlined in the Teya General Terms, we reserve the discretion to immediately terminate these Payments Terms, unless otherwise required by Applicable Law, and the same right extends to you, unless a different arrangement has been agreed upon by Teya and yourself. If the Applicable Law obligates a minimum notice period, we will comply with these periods. However, if you have the potential to waive such rights, they'll be considered waived upon your acceptance of these Payment Terms.
6.3 Besides Teya's general authority to terminate these Payment Terms without notice, and supplementary to the termination rights articulated in the Teya General Terms, we retain the right to immediately terminate these Payment Terms under the following circumstances (without limitation):
(a) If Teya is legally compelled to terminate these Payment Terms due to Applicable Law, a Network, the Network Rules, or any authority overseeing its operations to end these Payment Terms;
(b) If it becomes illegal for Teya to continue offering the Payment Services to you;
(c) If you have supplied, or we reasonably suspect that you have supplied, misleading, incomplete, or false information to Teya in relation to the application, entry into, and/or operation of these Payment Terms;
(d) If you are, or we reasonably suspect that you are, violating the Network Rules and/or any Applicable Law;
(e) If you have submitted, or we reasonably suspect that you have submitted, illegitimate Transaction(s) to us;
(f) If there is a significant shift in the nature of your business;
(h) If your business merges with another entity and/or there is a change in the control of your business;
(i) If you, through your actions or omission, do something that we reasonably believe harms or could harm our or a Network's brand,image, reputation, or goodwill or could otherwise inflict damage or loss to the goodwill of a Network or Teya;
(j) If any incident or series of events, whether related or not (including, but not limited to): i) irregular Card sales, excessive Chargeback and Refund ratios as reasonably determined by us; ii) signs of fraudulent or illegitimate Transactions; and/or iii) any significant adverse change in your business assets or financial condition occurs that, in Teya's opinion, may impact your ability to fulfil any or all of your obligations under these Payment Terms;
(k) If you fail to pay any amount due to Teya according to these Payment Terms, and such failure has not been remedied within fourteen (14) days of us notifying you;
(m) If you haven't provided, within seven (7) days of receiving our request, information that Teya deems necessary, such as for Teya’s risk assessment and due diligence;
6. Term & Termination
6.1 Unless otherwise agreed, these Payment Terms will continue to apply from the date they become effective until terminated by you or us.
6.2 As outlined in the Teya General Terms, we reserve the discretion to immediately terminate these Payments Terms, unless otherwise required by Applicable Law, and the same right extends to you, unless a different arrangement has been agreed upon by Teya and yourself. If the Applicable Law obligates a minimum notice period, we will comply with these periods. However, if you have the potential to waive such rights, they'll be considered waived upon your acceptance of these Payment Terms.
6.3 Besides Teya's general authority to terminate these Payment Terms without notice, and supplementary to the termination rights articulated in the Teya General Terms, we retain the right to immediately terminate these Payment Terms under the following circumstances (without limitation):
(a) If Teya is legally compelled to terminate these Payment Terms due to Applicable Law, a Network, the Network Rules, or any authority overseeing its operations to end these Payment Terms;
(b) If it becomes illegal for Teya to continue offering the Payment Services to you;
(c) If you have supplied, or we reasonably suspect that you have supplied, misleading, incomplete, or false information to Teya in relation to the application, entry into, and/or operation of these Payment Terms;
(d) If you are, or we reasonably suspect that you are, violating the Network Rules and/or any Applicable Law;
(e) If you have submitted, or we reasonably suspect that you have submitted, illegitimate Transaction(s) to us;
(f) If there is a significant shift in the nature of your business;
(g) If your business merges with another entity and/or there is a change in the control of your business;
(h) If you, through your actions or omission, do something that we reasonably believe harms or could harm our or a Network's brand, image, reputation, or goodwill or could otherwise inflict damage or loss to the goodwill of a Network or Teya;
(i) If any incident or series of events, whether related or not (including, but not limited to): i) irregular Card sales, excessive Chargeback and Refund ratios as reasonably determined by us; ii) signs of fraudulent or illegitimate Transactions; and/or iii) any significant adverse change in your business assets or financial condition occurs that, in Teya's opinion, may impact your ability to fulfil any or all of your obligations under these Payment Terms;
(j) If you fail to pay any amount due to Teya according to these Payment Terms, and such failure has not been remedied within fourteen (14) days of us notifying you;
(k) If you haven't provided, within seven (7) days of receiving our request, information that Teya deems necessary, such as for Teya’s risk assessment and due diligence;
(l) If you haven't provided any collateral within seven (7) days of receiving Teya’s request;
(m) If you reject any provision of these Payment Terms; and
(n) If your operations no longer align with Teya’s risk appetite.
6.4 Teya retains the authority to immediately terminate the Payment Terms related to one or more Payment Methods, while maintaining the Payment Terms for other relevant Payment Methods, without any prior notification. Furthermore, Teya reserves the discretion to suspend or cease any payment solutions or individual service components linked with the Payment Services, such as MOTO or Pay By Link, without giving any notice, unless otherwise required by Applicable Law.
7. Amendments
7.1 As detailed in the Teya General Terms, we can modify these Payment Terms by providing a Notice that we consider reasonable, unless a specific notice period is legally mandated, in which case we'll adhere to the Applicable Law. However, any rights you might have to waive such periods will be seen as waived when you agree to these Payment Terms.
7.2 An Amendment will become effective on the date stated in the Notice, and your continued usage of the Payment Services after the modifications take effect signifies your acceptance of the updated Payment Terms or Fees as relevant, unless you terminate these Payment Terms before the Amendment takes effect. If you disagree with the Amendment, you can terminate these Payment Terms free of charge and with immediate effect any time before the proposed Amendment takes effect.
7.3 Teya reserves the right to modify the exchange rates with immediate effect and without any prior notification.
8. Record of Transactions
8.1 We will provide you with access to your Transaction data through the Business Portal, which includes downloadable reports. The details furnished will encompass the Fees linked to the Transactions you process, reference numbers, and the Transaction amount in the credited currency. By agreeing to these Payment Terms, you are authorising and requesting us to compile this information for all Card Transactions categorised by brand, payment method, and types and rates of Interchange Fees, if applicable. We will make this information available to you through the Business Portal and/or email, on a monthly basis at a minimum.
8.2 Unless otherwise stipulated by Applicable Law, you alone are responsible for:
(a) preserving a permanent record of all Transactions and corresponding data connected to your use of the Payment Services, and
(b) reconciling all Transactional information related to your use of the Payment Services. If you observe any errors or unauthorized Transactions, it's crucial that you contact us without delay.
9. Prohibitions & Limitations
9.1 You will comply with all Applicable Law and only accept Cards for Transactions that are allowed by Applicable Law. Along with any other obligations, restrictions, and limitations stated in these Payment Terms, you agree to not:
(a) set minimum prices for Card acceptance;
(b) charge extra fees for Card use unless allowed by Applicable Law and Network rules;
(c) use Card credit for cash advance;
(d) use the Payment Services outside of your registered country of business (unless authorised to do so);
(e) discriminate between Cards unless allowed by Applicable Law and/or Network Rules;
(f) process Transactions not from selling your products or services;
(g) process known or suspected fraudulent Transactions;
(h) act as an intermediary or aggregator for the Payment Service;
(i) process Transactions to refinance Customer obligations;
(j) ask Customers to waive dispute rights;
(k) request Customers to reveal PIN numbers;
(l) print PIN or Card numbers on receipts;
(m) process a single purchase as multiple Transactions;
(n) refund Transactions to a Card that was not originally used to make such transactions; or
(o) override the selection of Card Network for Transactions made with co-branded Cards.
9.2 By accepting these Payment Terms, you agree not to utilise the Payment Services for accepting Transactions related to the businesses that could adversely impact our image or business standing.
9.3 We reserve the right to decline authorisation or withhold a Payout for any Transaction submitted by you if we believe it violates these Payment Terms or any other agreement with Teya, or poses a risk to you, your Customers, other Teya customers, our processors, or a Teya Company. This includes situations such as fraud and illegal activities, including submitting Transaction information that you should have known is against Applicable Law.
9.4 You acknowledge that the proper use of security measures can prevent fraud and accept potential responsibility for fraudulent Transactions that occur due to a failure to use such measures. Further, you agree to implement proper security measures for processing Transactions, such as requiring Customers to use chip and PIN technology and providing a secure location for entering PINs. You must not request signatures or other forms of identification instead of PINs.
10. Network Rules & Payment Methods
10.1 The Payment Services are governed by the Network Rules and may also have additional Payment Method Terms established. The Network Rules and Payment Method Terms will be considered part of your agreement with us. Access to substantial portions of the Network Rules can be obtained by the public through the websites of:
(a) http://www.visa.com;
(b) http://www.mastercard.com; and
(c) http://www.americanexpress.com/merchantopguide.
10.2 The Payment Terms may include a number of specific Payment Method Terms, which can be viewed under the ‘Supplementary Terms’ section, and are considered part of these overall Payment Terms:
10.3 You agree to abide by the Network Rules and the Payment Method Terms, which hold precedence over these Payment Terms with respect to the related Payment Method in the event of any conflicts. In the event of any conflicting provisions between these Payment Terms and the Network Rules/Payment Method Terms, the following priority will be observed: (i) Network Rules, (ii) Payment Method Terms, and (iii) these Payment Terms, unless otherwise stated in specific Payment Method Terms.
10.4 We may modify and/or discontinue the available Payment Methods at any time and Network Rules and Payment Method Terms may also be updated periodically. These changes can be made by us or the Networks, without prior notice (to the extent permissible by Applicable Law), but we will endeavour to inform you beforehand. Your continued use of the relevant Payment Methods confirms your acceptance of these changes.
10.5 We reserve the right to adjust these Payment Terms without notice to the extent permissible by Applicable Law, if required by the Networks, to comply with the Network Rules or address any changes in the Payment Services.
10.6 The Networks retain the right to enforce any aspect of the Network Rules and to prohibit any actions that may cause harm or pose a risk of harm to the Networks, such as harm to their reputation or damage to the integrity of the interchange system, or to confidential information. You agree not to interfere with the exercise of this right by the Networks and to assist Teya inaddressing any security breaches related to the protection of confidential data.
10.7 In accordance with the regulations set forth by the Networks, your use of the Marks belonging to the Networks is subject to their respective guidelines. As such, it is your responsibility to thoroughly familiarize yourself with these requirements and to maintain strict compliance at all times. The ownership of these Marks by the Networks is unassailable and exclusively theirs. You covenant not to challenge this ownership in any manner and understand that the Networks may, at their discretion, prohibit your use of the Marks without prior notice and for any reason.
10.8 Furthermore, to ensure compliance with the Network Rules we reserve the right to request modifications to your website or other advertising materials, including the use of the Network Marks.
11. Your Obligations
11.1 You agree to abide by all instructions provided by us in regard to accepting and authorising payment Transactions. You must ensure that all employees and authorised representatives handling payment Transactions on your behalf are familiar with these Payment Terms and have received proper training.
11.2 You further agree not to accept any Transactions made using a payment Card that is missing typical elements, appears tampered with, or has expired.
11.3 You are responsible for reviewing your Transaction history and promptly refunding any mistakenly received payments or overpaid amounts to the respective cardholder.
11.4 You agree to provide accurate and truthful descriptions for all payment Transactions processed through the Payment Service. The descriptions must accurately reflect the products and/or services being purchased. You must also provide a receipt of the payment, if required by Applicable Law or the Network Rules, to the Customer.
11.5 You are responsible for promptly reviewing any statements we provide, such as invoices or Payout statements, as well as Transactions, including Refunds, Chargebacks, or any other payments or charges made to you or the cardholder. If you believe that any statement or Transaction is incorrect or incomplete, you must raise objections without delay. Failure to do so in a timely manner will be considered approval unless the error was made by us. If an error was made by us, you must inform us promptly, and no later than 13 months from the date the payment Transaction was debited.
11.6 In the situation where you've decided to offer acceptance only for specific Cards or other payment tools of a Network, you are required to notify Customers about this in a distinct and unambiguous way, simultaneously as you inform Customers about the acceptance of other Cards and payment instruments of the corresponding Network. During instances of Card present transactions, this information must be noticeably displayed at your business establishment's entrance and the checkout, but concerning Card not present Transactions, or remote sales, on your website or any other relevant electronic or mobile platform. The information has to be given to the Customer well before the Customer engages in a purchase agreement with you.
11.7 Unless stated otherwise and approved by us, you will bear sole responsibility for securing and upkeeping a suitable sales system and/or payment terminal at your own expense. This is to enable the acceptance of Cards as a form of payment and to meet the obligations outlined in these Payment Terms.
11.8 In the event that any circumstances arise which prevent Teya from fulfilling its obligations under these Payment Terms, including but not limited to issues relating to your bank accounts, you shall be obligated to promptly notify Teya of such circumstances and their subsequent cessation.
11.9 When we supply Teya Hardware for lease, you consent to return such equipment to us immediately, and in any event no later than five (5) days following the termination of these Payment Terms. Should you neglect to do so, we retain the right to bill you for the full cost of the applicable Teya Hardware.
13. Refunds and Returns
13.1 All requests for Refunds or adjustments on returned products or services must be submitted through the Payment Service in accordance with these Payment Terms and the relevant Network Rules. The responsibility for accepting and handling returns of your products or services lies solely with you. Refunds and adjustments for Card Transactions must be made to the Customer's Card. You agree to:
(a) have a fair return, cancellation, or adjustment policy in place;
(b) inform Customers of your return or cancellation policy at the time of purchase;
(c) not provide cash refunds to Customers for Card Transactions unless legally required; and
(d) not accept cash or any other form of compensation for processing a Card Transaction Refund.
13.2 Further, you acknowledge and accept that a Customer may be eligible for a full refund from their payment provider for any authorised Transaction initiated by you under the following conditions:
(a) the authorisation did not specify the exact Transaction amount at the time of authorisation; and
(b) the Transaction amount exceeds what the Customer could reasonably expect based on their past spending habits, the conditions of the authorisation, and the specific circumstances.
13.3 To process a Refund through the Payment Service, the amount must match the exact total of the original Transaction, including taxes and handling charges. Refunds may not surpass the original sale amount, except for reimbursement of any shipping costs incurred by the Customer for product returns.
13.4 If a Refund is processed, we will subtract the Refund amount (including any associated fees) from the funds that are owed to you from previous or subsequent Transactions. If there are insufficient funds, we are not obligated to process the Refund. If the Refund is processed despite this and it leads to a negative balance in your Merchant ID(s), you agree to immediately repay all funds owed to us upon request. Please be aware that Fees related to the refunded Transaction are non-refundable. You are not entitled to any reimbursement of any Fees or other amounts paid or payable to Teya in respect of the original Transaction which is refunded.
13.5 Teya reserves the right to suspend or impose limitations on your ability to issue Refunds through Teya's Payment Services at any time.
14. Chargebacks
14.1 In some instances, a Transaction may be subject to a Chargeback and charged back to your Merchant ID(s). This may occur if:
(a) the Customer is not authorised to use the Card or Payment Method;
(b) the Transaction is disputed by the Customer;
(c) the Transaction is reversed for any reason by the relevant Network, the Customer or any other entity possessing the authority to effect such a Reversal;
(d) Customer Card issuing banks require Reversal or cancellation of the Transaction; or
(e) we have any reason to believe that the Transaction was not authorised, unlawful, suspicious, or in violation of these Payment Terms.
14.2 In the event of a Chargeback, you must comply with the Chargeback process and assume liability for any resulting debt which will become immediately payable to us.
14.3 In the event that a Chargeback arises, we reserve the right to undertake various measures to recoup the associated funds, including but not limited to, holding the Chargeback amount in a Reserve. We may also reclaim the amount of any Chargeback, as well as any fees, fines, or penalties imposed by a Network from your Merchant ID(s), including the Reserve, any Payouts due to you, or any Payout Account or payment instrument associated with your Merchant ID(s). If there are pending Chargebacks, we may defer Payouts to your Payout Account.
14.4 Furthermore, if we have reasonable cause to believe that a Chargeback is probable, we may temporarily withhold the potential Chargeback amount from Payouts that would otherwise be payable to you, until such time as:
(a) a Chargeback is determined due to a Customer complaint and in which case we will retain the funds;
(b) the period for a Customer to dispute the Transaction under Applicable Law or regulation has lapsed; or
(c) we determine that a Chargeback on the Transaction will not occur.
14.5 Should we be unable to recover funds related to a Chargeback for which you are held liable, you agree to promptly pay the full amount of the Chargeback upon demand. Additionally, you agree to cover all costs and expenses, including but not limited to, attorney's fees and legal expenses, incurred by us in the collection of any amounts owed by you.
14.6 Should you incur an excessive amount of Chargebacks, we reserve the right to impose additional conditions on your Merchant ID(s), which may include but are not limited to:
(a) imposing new Fees;
(b) implementing a Reserve to cover expected Chargebacks and related fees;
(c) postponing Payouts; and/or
(d) terminating these Payment Terms or suspending the Payment Services.
14.7 As a condition of using the Payment Services, you agree to extend your full cooperation, at your own expense, in any investigations we may initiate into your Transactions processed through the Payment Services. Should a Chargeback be successfully disputed, we shall release the relevant reserved funds back to your Payout Account. However, in the event that the dispute is not resolved in your favour by the Network or Card Issuer, or if you elect not to contest the Chargeback, we reserve the right to recoup the Chargeback amount and any associated fees from you.
14.8 It is imperative to understand that any delay on your part in assisting us during an investigation, including the provision of necessary documentation, may result in an irreversible Chargeback. You acknowledge that you shall not bill or otherwise collect payment from any Customer for a purchase or payment, unless Chargeback rights have been exercised and you possess the legal right to do so.
14.9 The conversion of Chargeback amounts received in a currency other than the Payout currency for your Merchant ID(s) will take place on the date that Teya receives the Chargeback. You will be responsible for any exchange rate differences, which could either reduce or increase the settlement amount in the relevant settlement currency.
15. Security & PCI Compliance
15.1 Should we identify potential or actual fraudulent activity or security threats, we will securely communicate this to you. If you receive any communications that do not align with this secure procedure, please report them to us via Teya Support immediately.
15.2 Should you be engaged in the storage, processing, or transmission of customer data, you are required to abide by the Payment Card Industry Data Security Standards (PCI-DSS) as well as any additional requirements specified in the Network Rules. In the event of a forensic investigation, you agree to provide cooperation as requested by us.
16. Additional Indemnity, Representations & Warranties
16.1 In addition to the indemnification provisions outlined in the Teya General Terms, you agree to indemnify, defend, and hold harmless ourselves and our processors (as well as their respective employees, directors, agents, affiliates, and representatives) from and against any and all claims, costs, losses, damages, judgments, tax assessments, penalties, interest, and expenses (including reasonable legal fees) that may arise from any claim, action, audit, investigation, inquiry, or proceeding instituted by a third party and that relate to or result from any Transaction submitted through the Payment Services by you (including but not limited to the accuracy of any content or information provided by you regarding a product, service, or transaction, or any claim or dispute arising from products or services offered or sold by you), including any fines or assessments as a result of non-compliance with the Network Rules or other regulations.
16.2 In addition to the representations and warranties outlined in the Teya General Terms, with every Transaction processed through the Payment Services, you make the following representations, warranties, and covenants to us:
(a) the Transaction constitutes a legitimate sale;
(b) the description of goods and/or services provided to the Customer is accurate;
(c) you shall fulfil all obligations to the Customer and will handle any disputes or complaints directly with them;
(d) your business and the transaction comply with all Applicable Laws;
(e) you are not engaging in Transactions that represent sales to any principal, partner, proprietor, or owner of your entity or business, except in the ordinary course of business; and
(f) you are not processing Transactions involving your own cards.
17. Third-party services
17.1 When our Services are provided in collaboration with a third party through their mobile application, website, or other software, your dealings with that third party will be governed by a separate agreement between you and them. Our sole responsibility lies in the Payment Services we offer as part of the third party's services. We do not bear any responsibility for the operation of the third party's services. If agreed upon between you and the third party, we may also collect fees on their behalf.
17.2 When Teya collects fees on behalf of a third party, Teya acts solely as a facilitator and is not responsible for setting, managing, or enforcing any terms associated with those fees. Any claims, disputes, or issues regarding fee collection, including but not limited to disputes about amounts, terms, or refund requests, must be directed solely to the relevant third party. Teya disclaims any liability for such claims and will not act as an intermediary in related disputes.
18. Dynamic Currency Conversion
18.1 The specific terms related to DCC, as outlined below, shall apply to the extent that the DCC service is activated for your business. If an eligible Customer chooses DCC for payment in the Customer Currency instead of the Domestic Currency, the following applies to each DCC Transaction:
(a) the cost of the relevant goods or services will be converted to the corresponding Customer Currency of the eligible Customer's Card at the time the Transaction takes place. This is done using the DCC Exchange Rate provided to us by our foreign exchange service provider on the day of the Transaction, in addition to any Currency Conversion Fee as determined by us. We reserve the right to decide if any portion of this Currency Conversion Fee will be shared with you, and to the extent any such portion will be shared with you, it will be explicitly set out in a Notice; and
(b) the DCC Exchange Rate applied to each Transaction will be used for any Chargebacks or Refunds related to that Transaction.
18.2 It's important to clarify that Teya holds the right to modify its foreign exchange rate service provider at any given time, without any requirement for advance notice.
18.3 Your responsibilities are to:
(a) ensure that your staff receive adequate training regarding eligible Customers' use of DCC, and keep your staff updated on any changes to DCC;
(b) avoid intentionally misrepresenting any element or feature of DCC; and
(c) abide by the stipulations of the customer operating instructions and Network Rules that relate to the provision of DCC.
19. Instalment Payment Portal
19.1 You may request authorisation to offer consumer loans facilitated by Teya to cardholders. Should Teya approve such a request, you are permitted to provide this service through Teya's installment payment portal. Consumer loans may either bear interest or be interest-free. If you offer interest-free loans, you shall bear the responsibility for the payment of interest to Teya. By obtaining access to the installment payment portal, you agree to comply fully and without exception with the terms of service for the portal. Teya shall provide you with a username and password for the installment payment portal. The use of these access credentials is solely your responsibility.
19.2 You are obligated to ensure that the borrower is the legitimate cardholder of the card associated with the loan. Teya reserves the right to reclaim the loan amount from you if it is determined that a loan agreement bears a forged signature, the borrower is not the legitimate cardholder, goods or services are not delivered, or if you or any of your employees fail to adhere to these Payment Terms. Should you choose to provide loans to customers electronically without the borrower's signature, you assume full responsibility for any disputed loan agreements.
18. Dynamic Currency Conversion
18.1 The specific terms related to DCC, as outlined below, shall apply to the extent that the DCC service is activated for your business. If an eligible Customer chooses DCC for payment in the Customer Currency instead of the Domestic Currency, the following applies to each DCC Transaction:
(a) the cost of the relevant goods or services will be converted to the corresponding Customer Currency of the eligible Customer's Card at the time the Transaction takes place. This is done using the DCC Exchange Rate provided to us by our foreign exchange service provider on the day of the Transaction, in addition to any Currency Conversion Fee as determined by us. We reserve the right to decide if any portion of this Currency Conversion Fee will be shared with you, and to the extent any such portion will be shared with you, it will be explicitly set out in a Notice; and
(b) the DCC Exchange Rate applied to each Transaction will be used for any Chargebacks or Refunds related to that Transaction.
18.2 It's important to clarify that Teya holds the right to modify its foreign exchange rate service provider at any given time, without any requirement for advance notice.
18.3 Your responsibilities are to:
(a) ensure that your staff receive adequate training regarding eligible Customers' use of DCC, and keep your staff updated on any changes to DCC;
(b) avoid intentionally misrepresenting any element or feature of DCC; and
(c) abide by the stipulations of the customer operating instructions and Network Rules that relate to the provision of DCC.
19. Instalment Payment Portal
19.1 You may request authorisation to offer consumer loans facilitated by Teya to cardholders. Should Teya approve such a request, you are permitted to provide this service through Teya's instalment payment portal. Consumer loans may either bear interest or be interest-free. If you offer interest-free loans, you shall bear the responsibility for the payment of interest to Teya. By obtaining access to the instalment payment portal, you agree to comply fully and without exception with the terms of service for the portal. Teya shall provide you with a username and password for the instalment payment portal. The use of these access credentials is solely your responsibility.
19.2 You are obligated to ensure that the borrower is the legitimate cardholder of the card associated with the loan. Teya reserves the right to reclaim the loan amount from you if it is determined that a loan agreement bears a forged signature, the borrower is not the legitimate cardholder, goods or services are not delivered, or if you or any of your employees fail to adhere to these Payment Terms. Should you choose to provide loans to customers electronically without the borrower's signature, you assume full responsibility for any disputed loan agreements.
19.3 You are prohibited from issuing consumer loans for any type of Transaction unrelated to your designated merchant category code (MCC).
19.4 Under no circumstances are you permitted to refund loans directly to cardholders; instead, the loan shall be refunded to Teya, who will handle the settlement with the cardholder.
19.5 Teya does not mediate or assume liability for any disputes that may arise between you and the cardholder regarding the quality of the goods or services paid for via a consumer loan. The cardholder shall direct such matters to you. Should there be a dispute over the legality of the loan, you, and not Teya, bear responsibility for any resulting damages.
19.6 Teya reserves the right to disable the instalment payment portal if either you or Teya terminates or rescinds these payment terms.
20. Complaints, Governing Law & Disputes
20.1 In the event of any dissatisfaction with the Payment Services, kindly direct your complaint to our customer support team. Our complaints procedure will be applied to all complaints received.
20.2 Within fifteen (15) Business Days from the date of receipt of the complaint, a comprehensive response will be provided via email. In exceptional situations where a full response cannot be promptly given, an explanation for the delay and an estimated timeline for a full reply will be communicated, not exceeding eight (8) weeks from the date the complaint was received.
20.3 Should our resolution not meet your expectations, the complaint may be referred to the ruling committee on transactions with financial undertakings. Further information on the committee can be found at https://nefndir.is/fjarmala/, Further information can also be found on the Teya Help Centre.
20.4 These Payment Terms shall be governed by and construed under and in accordance with Icelandic law, without giving effect to conflict of law principles. To the extent that Icelandic law is in conflict with laws of your country of residence, Icelandic law shall prevail to the maximum extent possible.
20.5 Without prejudice to the foregoing and to the extent permissible by Applicable Laws, disputes arising out of or in connection with these Payment Terms, or its subject matter or formation, shall be settled by the Distric Court of Reykjavík, Iceland. Despite the above, Teya reserves the right to bring any claims (including injunctive relief) against you in the jurisdiction where you are registered, domiciled or otherwise located, or any other appropriate jurisdiction. For the avoidance of doubt, injunctive relief shall include but is not limited to: (i) attachment, (ii) preliminary injunction, or (iii) similar remedies.
21. General
21.1 For the avoidance of doubt, provisions around general terms not covered in these Payment Terms, including but not limited to intellectual property, data, taxes, limitation of liability, warranties, severability and force majeure shall be governed by the Teya General Terms.
Supplementary Terms
22. American Express Terms
22.1 The provisions set out in this section are applicable to you to the extent you have American Express enabled as a Payment Method for your Merchant ID(s).
22.2 You agree:
(a) not to engage in any marketing or promotional activities that are detrimental to American Express’ business or the American Express brand and if these Payment Terms are terminated to remove all American Express identification, logos and decals from your premises and/or website immediately;
(b) to comply with the American Express Data Security Operating Policy which may be amended from time to time;
(c) disclose your refund policy at the time of the purchase and in compliance with Applicable Law;
(d) for Card not present Transactions more than seven (7) days following receipt of the original authorisation code obtain another authorisation code before shipping or delivering an order;
(e) maintain customer service information that is readily available for review by your Customers, which should include at minimum, customer service e-mail and telephone number;
(f) indicate your acceptance of American Express Cards whenever you communicate the Payment Methods you accept to Customers and display American Express marks in accordance with American Express’ guidelines;
(g) not to criticize or mischaracterize the American Express Card or any of American Express’ services or programs;
(h) not to use the American Express Card to verify a Customer’s age; and
(i) for Transactions related to the provision of services, not to process such Transactions on American Express Card until after the services have been rendered.
(j) if you operate within the travel industry, you confirm that you have a policy covering modern slavery and human trafficking.